Auglýsing um breytingu á deiliskipulagi Seljalands vegna jarðhitaleitar
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar auglýsir tillögu að breytingum á deiliskipulagi Seljalandshverfis vegna nýtingar jarðhitavatns. Markmið skipulagsbreytingarinnar er að heimila nýtingu jarðhitavatns og frekari jarðhitaleit ásamt nauðsynlegum innviðum vegna nýtingar jarðhitans. Hægt er að skila athugasemdum við tillöguna til og með 14. júlí 2025.
Auglýsing um breytingar á aðalskipulagi vegna nýtingar á jarðhita í Seljalandi
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar auglýsir tillögu að breytingum á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 vegna nýtingar á jarðhita í Seljalandshverfi, Skutulsfirði. Markmið breytingarinnar er meðal annars að heimila nýtingu jarðhitavatns af jarðhitasvæðinu í Tungudal til húshitunar á Ísafirði. Hægt er að skila athugasemdum við tillöguna til og með 14. júlí 2025.
Sigríður Júlía bæjarstjóri verður með vinnustöð í Sunnuhlíð á Suðureyri á þriðjudaginn, 3. júní, frá kl. 12:30-15:30.
Íbúum er velkomið að kíkja við í kaffi og spjall en einnig er hægt að bóka viðtalstíma með því að senda póst á sigridurjulia@isafjordur.is.
Bæjarráð: Fyrirsjáanleiki nauðsynlegur í lagasetningu um veiðigjöld
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að breytingar á veiðigjöldum og auðlindagjöldum verði gerðar í skrefum og með skýrum fyrirsjáanleika. Þetta kemur fram í umsögn Ísafjarðarbæjar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um veiðigjald sem nú liggur fyrir Alþingi. Í umsögninni er áréttað að Ísafjarðarbær styður álagningu veiðigjalda og auðlindagjalda almennt en að fyrirsjáanleiki sé nauðsynlegur til að fyrirtæki í sjávarútvegi geti skipulagt fjárfestingar og uppbyggingu í samræmi við stefnu stjórnvalda.
Bæjarráð vill halda virkjunarmöguleikum í Vatnsfirði opnum
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur lýst því yfir að það telji enn tilefni til að skoða áfram virkjunarkosti í Vatnsfirði, þrátt fyrir að svæðið sé friðlýst. Þetta kemur fram í bókun ráðsins í kjölfar útgáfu skýrslu RHA um hvort fyrir hendi séu nægjanlega brýnir samfélagslegir hagsmunir til að breyta friðlýsingarskilmálum í friðlandi Vatnsfjarðar. Slík breyting væri forsenda þess að Vatnsdalsvirkjun gæti komið til álita í rammaáætlun um nýtingu orkulinda.
Framúrskarandi skólastarf 2025: Kallað eftir tilnefningum
Skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar kallar eftir tilnefningum til hvatningarverðlauna fyrir framúrskarandi skólastarf sem unnið er í skólasamfélagi Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2025. Skilafrestur er til og með 30. júní 2025.