Ísafjörður: Hreystigarður settur upp fyrir neðan Hlíf

Baldur Ingi Jónasson, mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar, og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri…
Baldur Ingi Jónasson, mannauðsstjóri Ísafjarðarbæjar, og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri, prófa eitt af hreystitækjunum fyrir neðan Hlíf.

Hreystigarður hefur verið útbúinn fyrir neðan Hlíf, á sunnanverðri lóð sjúkrahússins á Ísafirði. Í garðinum eru átta mismunandi útihreystitæki sem miða að því að þjálfa styrk, þol, jafnvægi og liðleika.

Hreystitækin eru að sjálfsögðu öllum opin, líkt og hreystitækin við Tjörnina á Suðureyri og íþróttamiðstöðina á Þingeyri. Vonast er til að íbúar og gestir verði duglegir við að nýta tækin sér til heilsubótar og skemmtunar. Frágangi á svæðinu í kringum tækin er þó ekki lokið, enn á eftir að setja fallvarnarmottur undir tækin, og því rétt að sýna nokkra aðgát við notkun þeirra.