Almyrkvi á sólu 2026
Þann 12. ágúst 2026 verður almyrkvi á sólu sjáanlegur á vestanverðu Íslandi. Gert er ráð fyrir að mikill fjöldi fólks komi á Vestfirði til að upplifa sólmyrkvann og er undirbúningur vegna atburðarins hafinn hjá sveitarfélögum og viðbragðsaðilum á svæðinu.
Hér verður safnað saman helstu upplýsingum um almyrkvann og þann undirbúning sem mun fara fram hjá Ísafjarðarbæ. Síðan verður uppfærð reglulega og eru íbúar hvattir til að fylgjast með uppfærslum.
Upplýsingavefur um sólmyrkvann
Vefurinn solmyrkvi2026.is, sem ritstýrt er af Sævari Helga Bragasyni, er rík uppspretta fróðleiks um almyrkvann. Þar má meðal annars finna kort sem sýnir nákvæmlega hversu lengi almyrkvinn stendur yfir á hverjum stað fyrir sig. Á kortinu er gert ráð fyrir skuggavarpi fjalla og bygginga.
Örugg augu
Gríðarlega mikilvægt er að nota öryggisvottuð sólmyrkvagleraugu þegar horft er á sólmyrkva. Þannig er hægt að koma í veg fyrir augnskaða, sem í verstu tilfellum getur verið varanlegur. Allir íbúar Ísafjarðarbæjar fá gefins sólmyrkvagleraugu en dreifing þeirra fer fram á vormánuðum 2026 og verður auglýst sérstaklega.
Hvar er best að fylgjast með sólmyrkvanum?
Íbúar eru hvattir til að fylgjast með sólmyrkvanum í sínum heimabæ, til að létta á umferðarálagi. Opinberir safnstaðir verða skipulagðir í hverjum bæjarkjarna sveitarfélagsins, vilji fólk safnast saman til að fylgjast með myrkvanum.
Lengd sólmyrkva og almyrkva í þéttbýli í Ísafjarðarbæ:
- Eyrartún á Ísafirði: 100% almyrkvi varir í 1m 30s. Sólmyrkvi stendur yfir í 2klst 40s.
- Félagsheimilið í Hnífsdal: 100% almyrkvi varir í 1m 30s. Sólmyrkvi stendur yfir í 2klst 39s.
- Sundlaugin á Suðureyri: 100% almyrkvi í 1m 46s. Sólmyrkvi stendur yfir í 2klst 48s.
- Minningargarðurinn á Flateyri: 100% almyrkvi í 1m 46s. Sólmyrkvi stendur yfir í 2klst 48s.
- Víkingasvæðið á Þingeyri: 100% almyrkvi í 1m 48s. Sólmyrkvi stendur yfir í 2klst 49s.
Þeir sem hyggjast ferðast lengri eða styttri vegalengdir til að fylgjast með eru hvattir til að skipuleggja ferðir tímanlega og dvelja í lengri tíma á svæðinu.