Mikil hækkun á lífeyrisskuldbindingum Ísafjarðarbæjar
Lífeyrisskuldbindingar Ísafjarðarbæjar eru áætlaðar hafa hækkað um 337 milljónir króna fram yfir það sem fjárhagsáætlun ársins 2025 gerði ráð fyrir.
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025 voru uppi vísbendingar um að skuldbindingin myndi hækka lítillega og því var áætluð hækkun upp á 18 milljónir króna. Í vor, við gerð ársreiknings fyrir árið 2024 fengust nýir útreikningar á stöðu lífeyrisskuldbindinga í árslok 2024 og ný áætlun fyrir árið 2025. Hún sýndi að skuldbindingin myndi hækka um 156 milljónir króna. Beðið var með gerð viðauka við fjárhagsáætlun til að mæta þessum kostnaði, þar sem þessar upphæðir geta fljótt breyst eftir því sem líður á árið.
Nú við upphaf fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2026 var kallað eftir uppfærðum útreikningum fyrir 2025, sem alla jafna er ekki gert hjá sveitarfélögum nema við gerð ársreiknings. Þeir sýna að vísitala lífeyrisskuldbindingar fyrir opinbera starfsmenn hefur nú þegar hækkað um 8,8% og búast má við að hún verði orðin 11,6% í lok árs 2025 ef áfram heldur. Til viðbótar við mikla hækkun vísitölu hefur hlutdeild launagreiðanda í skuldbindingu hækkað töluvert, eða úr 62,5% í 66,6%. Það þýðir að áætluð hækkun á árinu 2025 yrði 357,7 milljónir króna.
Bæjarráð hefur vísað viðauka 21 við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2025 til samþykktar í bæjarstjórn vegna þessa.
Áhrif viðaukans á áætlaða rekstrarniðurstöðu A-hluta sveitarsjóðs er lækkuð afkoma, úr 195 milljóna króna afgangi í 143 milljóna króna tap. Afkoma samantekins A- og B-hluta lækkar úr 948 milljónum króna í 608 milljónir króna.