Félagsleg úrræði
Velferðarsvið Ísafjarðarbæjar veitir íbúum sveitarfélagsins þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Hér eru upplýsingar um ýmislegt er snýr að félagslegri þjónustu við fullorðna.
Viðtalstímar
Viðtalstímar eru í boði hjá starfsfólki velferðarsviðs alla virka daga milli kl. 13:00 og 15:00. Hægt er að bóka tíma í gegnum bókunarkerfi Ísafjarðarbæjar eða með því að hringja í síma 450 8000 á skrifstofutíma
Fjárhagsaðstoð
Velferðarsvið Ísafjarðarbæjar veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar, samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og reglum um fjárhagsaðstoð í Ísafjarðarbæ. Fjárhagsaðstoð er veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustu.
Einstaklingar með lögheimili í Ísafjarðarbæ sem hafa tekjur á eða undir viðmiðunarmörkum geta sótt um fjárhagsaðstoð. Tekjumörk eru miðuð við upphæð fjárhagsaðstoðar. Fólk sem er í skráðri sambúð í Þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.
Umsækjanda ber að kanna til þrautar rétt til annarra greiðslna áður en sótt er um fjárhagsaðstoð, þar með talið frá almannatryggingum, atvinnuleysistryggingum, LÍN, fæðingarorlofssjóði, lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga.
Umsækjandi þarf að tilkynna um breytingar á tekjum og fjölskylduaðstæðum en slíkar breytingar geta haft áhrif á rétt til fjárhagsaðstoðar. Fjárhagsaðstoð sem er veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga er endurkræf. Heimildir eru til styrkja eða láns vegna sérstakra aðstæðna.
Sótt er um í gegnum þjónustugátt Ísafjarðarbæjar.
Húsnæðisbætur
Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem eru ætlaðar til að aðstoða þá sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á hinum almenna leigumarkaði.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun annast framkvæmd laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og tekur ákvarðanir um rétt til húsnæðisbóta. Almenn afgreiðsla er í höndum skrifstofu HMS á Sauðárkróki.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016.
Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna.
Velferðarsvið Ísafjarðarbæjar annast afgreiðslu umsókna um sérstakan húsnæðisstuðning. Sérstakan húsnæðisstuðning skal ætíð veita í samhengi við félagslega ráðgjöf.
Reglur um sérstakan húsnæðisstuðning
Nánari upplýsingar veitir:
|
deildarstjóri í félagsþjónustu |
---|