Dagbók bæjarstjóra 2025: Vika 37
Dagbók bæjarstjóra dagana 15.-21. september 2025, í 37. viku í starfi.
Þessi vika var upptaktur að komandi vikum. Vægast sagt brjálað að gera en það er eins og allt sé eða þurfi að gerast á sama tíma. Það er varla laus stund í dagatalinu mínu næstu vikur sem er ekki gott því oft er gott að hafa lausa stund fyrir tilfallandi verkefni eða óskir um fundi. En ég þrífst reyndar best þegar ég hef mikið að gera, þannig að ég kvarta ekki, læt aðra um það. Dagbókin verður í styttra lagi, því ég hreinlega hef ekki tíma til að hafa hana langa!
Vikan bauð upp á bæjarráðsfund, bæjarstjórnarfund, fund í undirbúningshóp farsældar og inngildingar, morgunfund með öllum sveitarstjórum landsins og fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Forseti bæjarstjórnar lét það boð út ganga að í tilefni af gulum september væri bæjarstjórn hvött til að mæta í gulu, nokkur gerðu það auk Bryndísar bæjarritara.
Við undirrituðum afsal og rekstrarsamning vegna Samkomuhússins á Flateyri, sem samþykkt var í bæjarstjórn fyrir nokkrum vikum.

Við Úlfur frá Hollvinasamtökum Samkomuhússins á Flateyri skrifuðum undir afsal og rekstrarsamning.
Ég átti góðan fund á höfninni í lok vikunnar sem starfsmönnum þar. Þá voru nokkrir aðilar sem höfðu beðið um fund með mér eins og Hverfisráð Dýrafjarðar, formaður HSV, Vigdís og Bragi frá handboltanum, Tinna hjá Vestra, Lúðvík hjá Heilbriðgisstofnuninni og svona gæti ég lengi haldið áfram.
Fjórðungsþing Vestfjarða fór fram á þriðjudag og miðvikudag. Þar var samstarf sveitarfélaganna á Vestfjörðum í brennidepli og samþykktar nokkrar ályktanir sem hægt er að sjá á vef Vestfjarðastofu:

Það var þétt setinn bekkurinn í félagsheimilinu í Hnífsdal á 70. fjórðungsþingi Vestfjarða.

Á fjórðungsþingi hefur skapast sú hefð að fulltrúar Ísafjarðarbæjar flytur skemmtiatriði í palíettudressi.

Gylfi, formaður Fjóðrungssambands Vestfjarða, að slíta 70. þingi sambandsins.
Á föstudaginn kom María Luise frá spænska sendiráðinu í heimsókn til mín, hún var á ferðalagi um Vestfirði og var á leið í Djúpavík til að vera við vígslu Baskaseturs. Hún ræddi við mig þá áherslu sína, sem er að efla menningartengsl við Ísland og nefndi að ef við eða fólk í samfélaginu væri að vinna að verkefni sem mætti tengja við Spán og spænska menningu þá væri um að gera að hafa samband. Þannig að ef þið lúrið á einhverju þá get ég tengt. Hvort sem um að ræða tónlist, bókmenntir, myndlist eða hvað sem fólki dettur í hug, menningartengt.

Við Maria Luise frá spænska sendiráðinu áttum góðan fund í vikunni.
Það er allt á haus í stjórnsýslunni að undirbúa fjárhagsáætlun en deildarstjórar munu skila inn vinnubókum í byrjun vikunnar og þá heldur það púsluspil áfram gagnvart því hvernig við látum dæmin ganga upp. Eitthvað framkvæmum við á næsta ári. Auk þess verðum við að sinna miklu viðhaldi (innviðaskuldin). Þá þarf að sjá til þess að við sinnum lögbundinni þjónustu og halda öllu gangandi sem gerir gerð fjárhagsáætlunar virkilega spennandi verkefni.
Það var opið hús í Litlu netagerðinni, ég fór þangað enda alltaf gaman að hitta hresst og skapandi fólk.

Í Litlu netagerðinni, ég og Karen vinkona mín.

Opið hús í Litlu netagerðinni, þar var vel mætt.
Þá fórum við Dúi að smala Hjarðardalinn á laugardag. Nú eru nýir eigendur teknir við en auðvitað aðstoðum við þau en því skal haldið til haga að mér finnst ekkert leiðinlegt að smala, sértaklega í svo góðu veðri eins og var þennan dag.

Smölun í Hjarðardal, horft inn í dalbotn.
Sunnudagurinn fór í að púsla aðeins saman heimilinu, gera garðinn og gróðurhúsið klárt fyrir veturinn, skipuleggja næstu helgi, en þá er prjónahelgi á Suðureyri sem við fjölskyldan, Guðlaug vinkona og Fisherman ehf. stöndum fyrir.

Eftir gott dagsverk getur verið ljúft að setjast niður og slaka á.
Þá er komið að því að tæma Hjarðardalinn og við fórum eina ferð og erum að púsla innbúinu. Ef einhvern vantar eitthvað þá gæti nú bara vel verið að við eigum það, endilega látið vaða, spyrjið.
Við erum að flytja búslóðina okkar frá Hjarðardal núna þessa dagana, þarna erum við að flytja hann Leif okkar...