Afsal félagsheimilisins á Flateyri til Hollvinasamtaka Samkomuhússins
Bæjarstjórn samþykkti í síðustu viku afsal félagsheimilisins á Flateyri til félagsins Hollvinasamtök Samkomuhússins. Á sama tíma var samþykktur rekstrarsamningur milli Ísafjarðarbæjar og hollvinasamtakanna.
Fasteignin er seld án endurgjalds, með þeirri kvöð að henni verði viðhaldið og nýtt í samræmi við rekstrarsamninginn.
Markmið rekstrarsamningsins er að efla og auka félagsstarf og menningarlíf í Önundarfirði og styrkja rekstur og uppbyggingu félagsheimilisins. Samkvæmt samningnum skulu hollvinasamtökin sjá um allan rekstur, stjórnun og utanumhald viðburða, útleigu hússins, viðhald og greiðslu sorpgjalds. Allur rekstrarafgangur skal renna óskiptur til viðhalds og endurbóta á húsinu. Ísafjarðarbær skuldbindur sig á móti að styrkja starfsemi samtakanna við rekstur hússins, með styrk til greiðslu rafmagns og hita, húseiganda- og brunatryggingar og heilbrigðiseftirlitsgjalda. Þá styrkir Ísafjarðarbær samtökun sem nemur fasteignaskatti, lóðarleigu og vatns- og fráveitugjaldi hússins.
Sömuleiðis skuldbindur Ísafjarðarbær sig til þess að styrkja Hollvinasamtökin um sjö milljónir króna, í eitt skipti á árinu 2026, en styrkurinn skal nýttur til viðhalds og endurbóta á húsinu.