Leikskólinn Eyrarskjól 40 ára

Mynd: Eyrarskjól
Mynd: Eyrarskjól

Leikskólinn Eyrarskjól á Ísafirði fagnar 40 ára afmæli sínu miðvikudaginn 17. september. Skólinn opnaði formlega 11. september 1985 og hóf starfsemi 17. september sama ár.

Í grein sem Ingibjörg Einarsdóttir, leikskólastýra Eyrarskjóls, skrifar í tilefni dagsins kemur fram að starfsemi skólans hefur tekið nokkrum breytingum á þessum 40 árum og þróast í samræmi við nýjar áherslur í leikskólastarfi. Hjallastefnan var tekin upp í skólanum árið 2003 og frá haustinu 2014 hefur Hjallastefnan ehf. séð um rekstur hans í samstarfi við Ísafjarðarbæ.

Leikskólinn Eyrarskjól 40 ára í dag 17.september 2025

Árið 2019 voru tveir nýir kjarnar settir á fót í nýrri viðbyggingu leikskólans og jafnframt farið í endurbætur á eldra húsnæði. Börn hefja dvöl í Eyrarskjóli frá 12 mánaða aldri og dvelja þar þar til þau flytjast í leikskólann Tanga á fimmta aldursári.

Eyrarskjól er í dag hluti af samtals 18 leik- og barnaskólum Hjallastefnunnar sem starfa í 11 sveitarfélögum um landið.

Ísafjarðarbær óskar starfsfólki og nemendum Eyrarskjóls til hamingju með stórafmælið!