Frístundastyrkir

skidasvaedi-1.jpg

Ísafjarðarbær styrkir frístundaiðkun barna í 5.–10. bekk í grunnskóla með lögheimili í Ísafjarðarbæ í formi frístundastyrks.

Styrkurinn er 40.000 kr. og gildir frá 1. janúar 2025 – 31. desember 2025.

Markmið

Frístundastyrk Ísafjarðarbæjar er ætlað að tryggja jöfnuð, auka fjölbreytni í íþrótta-, lista- og tómstundastarfi og styðja við þroska barna og unglinga. Styrkurinn hvetur líka til meiri hreyfingar, félagslegra samskipta og hjálpar til við að koma í veg fyrir að börn og unglingar hætti í tómstundum.

Öll börn í 5.–10. bekk grunnskóla, sem eru með lögheimili í Ísafjarðarbæ eiga rétt á styrk.

Frístundastyrkinn er ekki hægt að nota til að kaupa æfingakort í líkamsrækt, sundlaug eða á skíðasvæði, en skipulögð námskeið með leiðbeinanda á þessum stöðum eru styrkhæf. Styrkinn má heldur ekki nota til kaupa á búnaði, ferðakostnaði vegna keppni eða þjálfunar, né til kaupa á gjafabréfum fyrir íþrótta-, lista- eða tómstundastarf.

Vakin er athygli á að börnum í 1.–4. bekk stendur til boða að vera í íþróttaskóla Ísafjarðarbæjar.

Umsókn

Forráðamenn geta notað styrkinn þegar gjöld eru greidd í gegnum skráningarkerfið Abler. Hægt er að velja hversu háa upphæð styrksins skal nýta hverju sinni.

Frístundastyrkur hvers árs gildir fyrir hvert barn á hverju 12 mánaða tímabili. Ónýttur frístundastyrkur fellur niður í lok hvers árs. Ráðstöfun frístundastyrks er endanleg. Óheimilt er að endurgreiða eða bakfæra frístundastyrk þegar forráðamaður hefur ráðstafað styrknum til niðurgreiðslu æfinga- eða námskeiðsgjalds til félags.

Úthlutun

Styrkurinn er greiddur beint til þeirra félaga sem standa fyrir frístundastarfi. Hægt er að ráðstafa honum hvenær sem er á árinu, óháð fjölda greina eða námskeiða.

Þátttökuréttur félaga og fyrirtækja

Allt skipulagt íþrótta-, lista- eða tómstundastarf sem fer fram undir leiðsögn þjálfara, kennara eða leiðbeinanda sem er 18 ára og eldri er styrkhæft. Ungmenni yngri en 18 ára mega þó aðstoða við kennslu eða þjálfun í barnastarfi.

Ef óskað er eftir styrkhæfi fyrir tiltekið námskeið eða þjálfun tekur skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd ákvörðun um það. Beiðni þarf að senda íþrótta- og æskulýðsfulltrúa með upplýsingum um frístundastarfið, forsvarsmann og gjaldskrá. Nefndin getur einnig samþykkt ákveðið íþrótta-, lista- eða tómstundastarf til lengri tíma, að því gefnu að það uppfylli reglurnar. Listi yfir samþykkt félög og fyrirtæki er birtur hér fyrir neðan.

Félög og fyrirtæki sem taka við frístundastyrkjum frá Ísafjarðarbæ skulu halda gjaldskrám í hófi og veita skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd upplýsingar um verðlag ef eftir því er óskað.

Samþykkt félög og fyrirtæki 

Hér eru listuð þau félög og fyrirtæki sem hægt er að nýta frístundastyrkinn hjá. Listinn er uppfærður eftir því sem fleiri félög bætast við.

  • Aðildarfélög HSV
  • Leiklistarhópur Dóru
  • Siglingafélagið Sæfari, sumarnámskeið