Bæjarstjórn - 190. fundur - 17. nóvember 2005

Fjarverandi aðalfulltrúi:Bryndís G. Friðgeirsdóttir, í h. st. Björn Davíðsson.



Dagskrá:



I. Fundargerðir bæjarráðs 7/11. og 14/11.


II. Fundargerð atvinnumálanefndar 9/11.


III. Fundargerð barnaverndarnefndar 3/11.


IV. Fundargerð fræðslunefndar 8/11.


V. Fundargerð hafnarstjórnar 8/11.


VI. Fundargerð umhverfisnefndar 9/11.



I. Bæjarráð.



Til máls tóku: Svanlaug Guðnadóttir, Magnús Reynir Guðmundsson, Guðni G. Jóhannesson, Ragnheiður Hákonardóttir, Björn Davíðsson, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Lárus G. Valdimarsson og Ingi Þór Ágústsson.


Svanlaug Guðnadóttir lagði fram svohljóðandi tillögu meirihluta bæjarstjórnar við 2. lið. 455. fundargerðar bæjarráðs:


,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að fresta afgreiðslu á tillögum að skiptingu byggðakvóta og úthlutunarreglum til næsta bæjarstjórnarfundar, þar sem tillögur að úthlutunarreglum eru enn í vinnslu hjá bæjarstjóra og bæjarritara."


Tillagan er undirrituð af Svanlaugu Guðnadóttur, varaforseta.


Magnús Reynir Guðmundsson lagði fram svohljóðandi tillögu frá F-lista, Samtökum frjálslyndra og óháðra, til bæjarstjórnar við 4. lið 455. fundargerðar bæjarráðs:


,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir, að ekki verði seldar fleiri íbúðir á Hlíf I á Torfnesi að sinni, þar sem íbúðirnar voru byggðar fyrir gjafafé og önnur fjárframlög úr Byggingarsjóði elliheimilis á Ísafirði, að stærstum hluta og ekki ætlaðar til endursölu."


Greinargerð:


Árið 1945 var stofnaður sjóður, Byggingarsjóður elliheimilis Ísafjarðar. Hugmyndir voru þá um að byggja elliheimili fyrir 50-80 heimilismenn, í eins manns herbergjum og var sveitarfélögum víða á Vestfjörðum boðin þátttaka. Ætlunin var að byggja elliheimilið í nágrenni sjúkrahússins, til að nýta þá þjónustu sem þar var í boði. Ekki varð af framkvæmdum og óx sjóðurinn hægt fyrstu árin. Það var ekki fyrr en á árinu 1960, sem hann fór að eflast verulega með sérstöku framlagi, sem bæjarstjórn tókst að tryggja til þessa verkefnis, söluskatti af aðgangseyri í Bíó Alþýðuhússins, sem ella hefði runnið til ríkissjóðs. Um leið og sjóðurinn efldist fóru honum að berast vegleg framlög frá einstaklingum og félögum. Í lok árs 1975 voru í sjóðnum um 35 milljónir króna.


Þann 7. október 1977 var tekin fyrsta skóflustunga á lóð Hlífar I á Torfnesi og þar með var hafin vinna við byggingu heimilis fyrir aldraða og öryrkja á Ísafirði á grundvelli þeirra hugmynda sem upphaflega voru uppi við stofnun byggingarsjóðsins 1945, en höfðu þróast í tímans rás. Það hvarflaði ekki að neinum, sem komu að byggingu Hlífar I, að þar yrði um söluvöru að ræða, enda voru síðar byggðar sérstakar söluíbúðir, Hlíf II, 42 talsins, áfastar Hlíf I. Ísafjörður hefur verið í fararbroddi hvað varðar húsnæðismál aldraðra í rúmlega 20 ár, hefur haft upp á að bjóða 30 leiguíbúðir (20 einstaklings- og 10 hjóna-) fyrir það fólk sem ekki hefur getað keypt, en auk þess hafa verið undir sama þaki 42 söluíbúðir, sem bærinn hafði lengi vel kaupskyldu á og gat ráðstafað, en hefur ekki lengur. Í tengslum við þessar 72 íbúðir hefur svo verið margvísleg þjónusta sem ýmist hefur verið talin nauðsynleg, æskileg eða annars eðlis, allt til hagsbóta fyrir aldraða og öryrkja sem í byggingunum búa. Verði þeirri stefnu núverandi meirihluta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar framfylgt, að selja stóran hluta íbúða í Hlíf I eða allar, þá tel ég að það séu svik við allan þann mikla fjölda, sem efldi Byggingarsjóð elliheimilis á Ísafirði í gegnum tíðina og einnig við það eldra fólk og öryrkja sem eiga rétt á því að fá leiguíbúðir, gegn sanngjarnri leigu, svo sem verið hefur frá því Hlíf I var tekin í notkun þann 10. júlí 1982.


Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, lagði fram svohljóðandi bókun við 4. lið 455. fundar bæjarráðs, með vísan til tillögu Magnúsar Reynis Guðmundssonar við sama lið:


,,Samþykkt bæjarstjórnar um sölu á íbúðum á Hlíf I var um 10 af 30 íbúðum, ekki stóð til að selja fleiri. Vegna endurskoðunar á starfsemi þjónustudeildar á Hlíf og vegna starfshóps um byggingu hjúkrunarheimilis á norðanverðum Vestfjörðum var ákveðið að takmarka sölu við fjórar íbúðir í bili eða þar til tillögur vegna hjúkrunarheimilis og endurskoðun á þjónustudeild liggja fyrir. Seldar hafa verið 3. íbúðir af 30 á Hlíf I og hafa þeir sem kaupa komist að þeirri niðurstöðu að heppilegt sé að kaupa íbúðirnar frekar en að leigja því lánskjör eru með þeim hætti að greiðslur vegna kaupanna eru svipaðar og ef um leigu er að ræða. Til staðar verða áfram leiguíbúðir enda er það stefna bæjarstjórnar að vera áfram í fararbroddi í þjónustu við aldraða. Allt er breytingum háð, hvort sem það er tilhögun á þjónustu við aldraða eða önnur mál. Meginmarkmiðið er að tryggja fyrirmyndarþjónustu með þeim aðferðum sem best eru til þess fallnar hverju sinni."


Birna Lárusdóttir, forseti, gerði grein fyrir vanhæfi sínu vegna 2. liðar í 455. fundargerð bæjarráðs og vék af fundi áður en til afgreiðslu kom á 455. og 456. fundargerðum bæjarráðs og tók Svanlaug Guðnadóttir, varaforseti, við stjórn fundarins.



Fundargerðin 24/10. 455. fundur.


2. liður. Tillaga borin fram af Svanlaugu Guðnadóttur samþykkt 7-0.


4. liður. Tillaga forseta, um vísan tillögu Magnúsar Reynis Guðmundssonar til bæjarráðs samþykkt 5-0.


5. liður. Tillaga bæjarstjóra samþykkt 8-0.


Aðrir liðir lagðir fram til kynningar.



Fundargerðin 14/11. 456. fundur.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.



II. Atvinnumálanefnd.



Birna Lárusdóttir, forseti, kom aftur inn á fund bæjarstjórnar undir þessum lið dagskrár og tók við stjórn fundarins af varaforseta Svanlaugu Guðnadóttur.




Til máls tóku: Magnús Reynir Guðmundsson, Guðni G. Jóhannesson, Ingi Þór Ágústsson, Björn Davíðsson, Lárus G. Valdimarsson og Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.


Magnús Reynir Guðmundsson lagði fram svohljóðandi tillögu til bæjarstjórnar frá F-lista, Samtökum frjálslyndra og óháðra undir þessum lið dagskrár:


,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir, að segja upp viðskiptum sínum við Símann hf., frá og með næstkomandi áramótum. Uppsögn viðskiptanna er svar bæjarstjórnar við þeirri ákvörðun dótturfélags Símans hf., Upplýsingaþjónustunnar Já, að flytja fimm störf, sem unnin hafa verið á Ísafirði, til Akureyrar og Egilsstaða."


Greinargerð:


Sú ákvörðun stjórnar Upplýsingaþjónustunnar Já, sem er dótturfélag Símans hf., að leggja niður starfsemi sína á Ísafirði og flytja þau fimm störf, sem unnin hafa verið á Ísafirði, til Akureyrar og Egilsstaða, hefur vakið mikla furðu og reiði bæjarbúa. Bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ hefur farið fram á að þessi ákvörðun verði afturkölluð og til vara að fjárfestum hér vestra verði gefinn kostur á að kaupa þann hluta starfsemi Upplýsingaþjónustunnar Já, sem fram hefur farið á Ísafirði. Segja má, að forráðamenn Símans og Já hafi hlegið að þessum sjálfsögðu viðbrögðum bæjarstjóra, og eins og segir í viðtali við bæjarstjórann í Bæjarins besta, ,,Okkur var bætt á lista fjölda annarra áhugasamra kaupenda". Sem betur fer er Síminn hf., ekki lengur í einokunarstöðu að því er varðar símaþjónustu og fjarskipti. Því geta viðbrögð bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar ekki orðið nema ein, að segja upp viðskiptum við þetta fyrirtæki, sem komið hefur fram við okkur af fyrirlitningu og hroka og gert bæjarstjórn hlægilega í augum alþjóðar. Því eins og segir í ágætri grein Ólafs Bjarna Halldórssonar, framkvæmdastjóra, sem birtist í Bæjarins besta og ber heitið ,,Bréf til ráðskonu Bakkabræðra": ,,Það gæti því svo farið að við hinir sem fylgjumst með gerðum ykkar úr fjarlægð tökum okkar ákvarðanir hver og einn um að leiðir okkar eigi ekki saman." Þegar íbúum bæjarins er svo stórlega misboðið, sem fram kemur í grein Ólafs, að þeir boði að leiðir þeirra og Símans eigi ekki lengur saman, getur bæjarstjórnin ekki látið sem ekkert sé. Slit á viðskiptum er eina svarið.


Björn Davíðsson lagði fram svohljóðandi tillögu vegna framkominnar tillögu Magnúsar Reynis Guðmundssonar:


,,Bæjarstjórn vísar tillögu Magnúsar Reynis Guðmundssonar til atvinnumálanefndar og starfshóps um tölvumál Ísafjarðarbæjar og samþykkir að fela þeim að kanna hvort tillaga Magnúsar Reynis sé raunhæf og til þess fallin að hagræða í símamálum sveitarfélagsins."


Tillöguna undirrita Björn Davíðsson, Birna Lárusdóttir, forseti og Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.



Fundargerðin 9/11. 59. fundur.


Tillaga flutt af Birni Davíðssyni samþykkt 6-0.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.



III. Barnaverndarnefnd.




Fundargerðin 3/11. 61. fundur.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.



VI. Fræðslunefnd.



Til máls tóku: Björn Davíðsson, Svanlaug Guðnadóttir, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Ragnheiður Hákonardóttir og Guðni G. Jóhannesson.



Fundargerðin 8/11. 228. fundur.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.



V. Hafnarstjórn.



Til máls tóku: Ragnheiður Hákonardóttir, Björn Davíðsson, Magnús Reynir Guðmundsson, Guðni G. Jóhannesson og Lárus G. Valdimarsson.



Fundargerðin 8/11. 108. fundur.


Fundargerðin lögð fram til kynningar.



VI. Umhverfisnefnd.



Til máls tók: Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.



Fundargerðin 9/11. 221. fundur.


3. liður. Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 9-0.


5. liður. Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 9-0.


Fundargerðin í heild sinni samþykkt 9-0.


Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og undirrituð. Fundi slitið kl. 21:20.


Þorleifur Pálsson, ritari.


Birna Lárusdóttir, forseti.


Guðni G. Jóhannesson. Svanlaug Guðnadóttir.


Ragnheiður Hákonardóttir. Ingi Þór Ágústsson.


Lárus G. Valdimarsson. Björn Davíðsson.


Magnús Reynir Guðmundsson.


Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.



Er hægt að bæta efnið á síðunni?