Bæjarráð Ísafjarðarbæjar

455. fundur

Árið 2005, mánudaginn 7. nóvember kl. 17:00 kom bæjarráð Ísafjarðarbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Þetta var gert:

1. Fundargerð nefndar.

Barnaverndarnefnd 3/11. 61. fundur.
Fundargerðin er í tveimur liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

2. Tillaga að skiptingu byggðakvóta 2005/2006. 2005-06-0041.

Lögð fram skipting byggðakvóta fiskveiðiárið 2005/2006 samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðuneytis með tilvísun til reglugerðar nr. 723, 4. ágúst 2005. Úthlutað var alls til Ísafjarðarbæjar 409 þorskígildislestum, sem sundurliðast þannig á einstaka byggðalög samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins.

Ísafjörður 140 þorskígildislestir. (Skel- og rækjubætur.)
Hnífsdalur 37   þorskígildislestir. (Skel- og rækjubætur.)
Suðureyri 23   þorskígildislestir. (Skel- og rækjubætur.)
Þingeyri 79   þorskígildislestir. (Skel- og rækjubætur.)
Ísafjarðarbær 130 þorskígildislestir. (Úthlutun til sveitarfélagsins án skiptingar á byggðarlög.)

Í bréfi frá sjávarútvegsráðuneyti dagsettu 12. október s.l., er það staðfest að 140 þorskígildislestum, sem úthlutað var til Ísafjarðar, er úthlutun vegna skerðingar rækju- og skeljabáta er veiða hér við land.

Bæjarstjóri lagði fram tillögu að úthlutun á þeim 130 þorskígildislestum, sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar getur gert tillögu um ráðstöfun á til sjávarútvegsráðuneytis. Með tillögunni er leitast við að ná fram jafnræði milli byggðarlaga.

Tillaga:

Ísafjörður 51 þorskígildislest. 
Flateyri 51   þorskígildislest. 
Suðureyri 28   þorskígildislestir. 

Með þessari ráðstöfun fær Ísafjörður vegna skel- og rækju 140 þorskígildislestir og vegna annarra 51 þorskígildislest. Hnífsdalur fær 37 þorskígildislestir, Þingeyri 79 þorskígildislestir, Suðureyri 51 þorskígildislest og Flateyri 51 þorskígildislest.
Jafnframt eru lögð fram drög að reglum Ísafjarðarbæjar um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2005/2006.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samþykkja ofangreinda úthlutun ásamt reglum um úthlutun byggðakvóta með þeirri breytingu á öðrum tölulið, að þeir bátar sem fá úthlutað skel- og rækjubótum, geti ekki sótt um frekari úthlutun byggðakvóta á þessu fiskveiðiári.

3. Minnisblað bæjarritara - Útboð aksturs almenningsvagna í Ísafjarðarbæ - skólaakstur í Skutulsfirði. 2005-09-0066.

Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 4. nóvember s.l., er varðar útboð almenningsvagna í Ísafjarðarbæ - skólaakstur í Skutulsfirði. Útboðsgögn liggja nú fyrir og er óskað heimildar bæjarráðs til að auglýsa útboðið. Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs, vék af fundi undir þessum lið.

Erindið tekið að nýju fyrir á næsta fundi bæjarráðs.

4. Kauptilboð í íbúð nr. 304 á Hlíf I, Ísafirði. 2005-11-0039.

Lagt fram kauptilboð í íbúð nr. 304 á Hlíf I, Ísafirði, kauptilboðið hljóðar upp á kr. 6.050.000.-. Tilboðið hefur verið samþykkt með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

Bæjarráð samþykkir ofangreint kauptilboð.

Magnús Reynir Guðmundsson lagði fram svohljóðandi bókun undir þessum lið. ,,Er andvígur sölu íbúða á Hlíf I og tel nauðsynlegt fyrir Ísafjarðarbæ að geta boðið efnalitlu eldra fólki leiguíbúðir þar á sanngjörnu verði."

5. Minnisblað bæjarstjóra. - Fulltrúaráð Háskólaseturs Vestfjarða. 2005-01-0027.

Lagt fram minnisblað Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 31. október s.l., er varðar setu hans í stjórn Háskólaseturs Vestfjarða og sem aðalmanns í fulltrúaráði Háskólaseturs. Hann gerir að tillögu sinni að Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs, verði fulltrúi Ísafjarðarbæjar í fulltrúaráðinu í sinn stað.

Bæjarráð vísar tillögu Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, til bæjarstjórnar.

6. Bréf Hvíldarkletts ehf. - Félagsheimilið á Suðureyri. 2005-07-0033.

Lagt fram bréf Hvíldarkletts ehf., Suðureyri, ódagsett, þar sem sagt er upp samningi félagsins um rekstur á Félagsheimilinu á Suðureyri, samningi frá 23. mars 2001.

Uppsögnin tekur gildi þann 1. desember n.k. og fellur samningurinn úr gildi þann 28. febrúar 2006.

7. Bréf Hagstofu Íslands. - Kynning á hagskýrslustarfsemi. 2005-09-0005.

Lagt fram bréf frá Hagstofu Íslands dagsett 31. október s.l., þar sem þátttakendum sem sækja fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2005 er boðið til kynningar á þeim þáttum í hagskýrslustarfsemi Hagstofunnar er snúa að sveitarfélögum landsins.

Lagt fram til kynningar.

8. Bréf Glímudeildar Harðar. - Stórhátíð 12. nóvember n.k. 2005-11-0036.

Lagt fram bréf frá Glímudeild Harðar, Ísafirði, dagsett 1. nóvember s.l., er varðar stórhátíð félagsins í íþróttahúsinu að Torfnesi á Ísafirði laugardaginn 12. nóvember n.k. Óskað er eftir styrk að upphæð kr. 25.000.- vegna hátíðarinnar.

Bæjarráð samþykkir ofangreinda styrkbeiðni, kostnaður færður á liðinn 21-81-995-1.

9. Bréf Lögmanna Höfðabakka. - Framkvæmdir vegna landbrots jökulárinnar í Leirufirði og vegslóða á Öldugilsheiði. 2004-08-0049.

Lagt fram bréf Lögmanna Höfðabakka, Reykjavík, dagsett 28. október s.l., er varðar framkvæmdir vegna landbrots jökulárinnar í Leirufirði og meðferð ágreinings um ýturuðning/vegslóða um Öldugilsheiði í Leirufjörð.

Bæjarráð vísar erindinu til umsagnar í umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar.

10. Bréf Erlings Tryggvasonar. - Veitingastaðurinn Langi Mangi. 2005-11-0038.

Lagt fram bréf frá Erlingi Tryggvasyni, f.h. íbúa að Aðalstræti 24, Ísafirði, dagsett í nóvember 2005. Efni bréfsins varðar ónæði frá veitingastaðnum Langa Manga á Ísafirði og beiðni um að bæjarstjórn afturkalli skemmtanaleyfi til veitingastaðarins.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við lögreglustjóra og rekstraraðila.

11. Bréf bæjartæknifræðings. - Aukafjárveiting. 2005-11-0028.

Lagt fram bréf frá Jóhanni B. Helgasyni, bæjartæknifræðingi, dagsett 4. nóvember s.l., þar sem óskað er eftir aukafjárveitingu að upphæð kr. 400.000.- til kaupa á bifreið fyrir þjónustustöð. Í fjárhagsáætlun ársins er gert ráð fyrir kaupum á bifreið fyrir kr. 1.500.000.-, en fyrir liggur tilboð um kaup á bifreið fyrir kr. 1.900.000.-, sem ætluð er til að þjóna skíðasvæðinu og vinnuskóla Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð heimilar tilfærslu á milli rekstrarliða yfir á fjárfestingar að upphæð kr. 400.000.-

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:20.

Þorleifur Pálsson, ritari.

Guðni G. Jóhannesson, formaður bæjarráðs.

Ragnheiður Hákonardóttir. Lárus G. Valdimarsson.

Magnús Reynir Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.