Fjölskyldan

20170725-_dsc1057.jpg

Hér má finna gagnlegar upplýsingar fyrir fjölskyldufólk sem er að flytja í sveitarfélagið.

Leikskólar

Sveitarfélagið starfrækir fjóra leikskóla í jafn mörgum byggðarkjörnum og sá fimmti, staðsettur á Ísafirði, er rekinn eftir samningi við Hjallastefnuna ehf. Þá er sameiginleg 5 ára deild á Ísafirði. Hægt er að sækja um leikskólapláss í gegnum þjónustugátt Ísafjarðarbæjar.

Grunnskólar

Grunnskólar bæjarins eru fjórir í jafnmörgum byggðarkjörnum; á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Í öllum skólum býðst heitur matur í hádeginu gegn vægu gjaldi og lengd viðvera er í boði fyrir yngstu börnin. Nýskráning í grunnskóla er í gegnum þjónustugátt.

Tónlistar- og listaskólar

Tveir öflugir listaskólar eru starfandi í Ísafjarðarbæ, Tónlistarskóli Ísafjarðar og Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar.

Í TÍ er kennt á öll helstu hljóðfæri. Höfuðstöðvar og tónleikasalur eru við Austurveg á Ísafirði, en útibú eru á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Í LRÓ er föst kennsla í tónlist og listdansi, en einnig eru haldin námskeið í ýmsum listgreinum.

Lífið í Ísafjarðarbæ

lifid.isafjordur.is er nokkurs konar rafræn íbúahandbók um allt sem við kemur lífinu eftir vinnu og skóla. Þar eru á einum stað upplýsingar um þær tómstundir, félagsstarf, menningu og útivist sem í boði er í sveitarfélaginu.

Hvað er á döfinni?

Viðburðir sem fara fram á svæðinu eru skráðir á viðburðadagatal. Öllum er frjálst að senda inn sína viðburði á dagatalið.

Bókasafn

Bókasafn Ísafjarðar er í Safnahúsinu Eyrartúni (gamla sjúkrahúsinu) sem hýsir einnig Skjalasafnið Ísafirði, Ljósmyndasafnið Ísafirði og Listasafn Ísafjarðar.

Íþróttir

Í Ísafjarðarbæ eru fimm íþróttahús, fjórar sundlaugar, sjö sparkvellir og tvö skíðasvæði.

Flest íþróttafélög á svæðinu starfa undir merkjum Héraðssambands Vestfjarða, HSV. Allar nánari upplýsingar um íþróttastarf og æfingar má finna á vef sambandsins, www.hsv.is og á lifid.isafjordur.is.

Styrkir til tómstundastarfs

Ekki er boðið upp á hefðbundna frístundastyrki hjá Ísafjarðarbæ, þess í stað er sveitarfélagið í samstarfi við HSV um að starfrækja íþróttaskóla fyrir börn í 1.-4. bekk þar sem þeim er boðið upp á fjölbreytt starf í samfellu við skóladag nemenda.

Sérstakir akstursstyrkir eru í boði fyrir fjölskyldur barna og unglinga í Dýrafirði, Súgandafirði og Önundarfirði sem þurfa að fara langan veg til að stunda viðurkennt íþrótta- eða tómstundastarf.