Skemmtiferðaskip

cruise2medrez.jpg

Hér má finna upplýsingar um komur skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar og áhrif þeirra á efnahag, umhverfi og samfélagið.

Komur skemmtiferðaskipa 2024

Fyrri ár

Stefna og aðgerðaáætlun um móttöku skemmtiferðaskipa við hafnir Ísafjarðarbæjar 2024–27

Stefna og aðgerðaáætlun um móttöku skemmtiferðaskipa við hafnir Ísafjarðarbæjar 2024–27 var samþykkt af bæjarstjórn í apríl 2024. Stefnunni er ætlað að bæta upplifun gesta, minnka álag á samfélagið, bæta umhverfismál og tryggja sjálfbærni þessarar mikilvægu atvinnugreinar til lengri tíma. Þar er meðal annars kveðið á um hámarksfarþegafjölda sem miða skal við auk þess sem teknir verða upp fjárhagslegir umhverfishvatar til að draga úr mengun.

Stefna og aðgerðaáætlun um móttöku skemmtiferðaskipa við hafnir Ísafjarðarbæjar 2024–27

Hvað þýða komur skemmtiferðaskipa fyrir svæðið?

Komur skemmtiferðaskipa skipta öllu máli fyrir rekstur hafna Ísafjarðarbæjar. Tekjur af komum skemmtiferðaskipa eru um helmingurinn af heildartekjum hafnarinnar. Án þessara tekna væru hafnirnar reknar með tapi og þyrftu niðurgreiðslu úr bæjarsjóði, eins og kom glögglega í ljós þegar skemmtiskipakomur féllu nær allar niður vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Samkvæmt ítarlegri könnun sem framkvæmd var meðal skemmtiferðaskipafarþega á Ísafirði sumarið 2018 var meðaleyðsla þeirra í landi um 120 evrur, eða um 16.500 krónur miðað við gengi þess tíma. Um 29% þeirrar eyðslu voru í handverk og minjagripi, föt og mat og drykk í landi. Þetta eru um 4.800 krónur á hvern farþega, eða 500 milljónir eingöngu í verslun og veitingar á Ísafirði yfir sumarið ef eyðslan er heimfærð yfir á alla farþega sem komu til bæjarins með skemmtiferðaskipum.

Ríflega 2/3 hlutar eyðslunnar (um 11.700 kr.) voru í ferðir innan svæðisins, en viðskipti við farþega skemmtiferðaskipa eru hryggjarstykkið í rekstri fjölmargra ferðaþjónustufyrirtækja og stofnana á norðanverðum Vestfjörðum, ekki eingöngu í Ísfjarðarbæ. Má þar nefna safnið Ósvör í Bolungarvík, en án skemmtiferðaskipa væri rekstur þess ekki sjálfbær.

Nærri því allir farþegar sem rætt var við í könnuninni voru að koma í fyrsta skipti til Ísafjarðar. Um fjórðungur þeirra sögðu líklegt að þeir myndu heimsækja staðinn aftur með öðrum
hætti en með skemmtiferðaskipi og þrír af hverjum fjórum sögðust líklegir til að mæla með staðnum við vini og kunningja.

Samkvæmt sambærilegri könnun sem framkvæmd var á landsvísu árið 2014 var meðaleyðsla farþega í landi um 80 evrur og jókst því um helming á fjórum árum.

Eldsneyti og útblástur

Brennisteinstvíoxíð (SO2) er algengt mengunarefni sem losnar út í umhverfið við brennslu á jarðefnaeldsneyti. Losun SO2 er langmest frá flugvélum, þar næst frá bílum en langminnst frá skipum. Í mengunarlögsögu Íslands gildir almennt sú regla að skip mega brenna svartolíu með brennisteinsinnihaldi að hámarki 3,5%. Um farþega- og skemmtiferðaskip gilda aðrar reglur. Þar má hámarks brennisteinsinnihald ekki fara yfir 1,5% til 1. janúar 2020 en eftir það gilda enn lægri viðmið.

Þegar skemmtiferðaskip leggjast að bryggju í íslenskri höfn er slökkt á aðalvélum skipsins. Ljósavélarnar eru hins vegar áfram í gangi enda orkuþörfin mikil. Öllum skipum við bryggju er skylt að nýta sér rafmagn úr landi í stað skipaeldsneytis ef það er mögulegt. Það gildir auðvitað líka um stór skip eins og skemmtiferðaskip en dreifikerfi raforku er því miður vanbúið til að veita slíka þjónustu enda kalla slík skip á háspennutengingar. Íslenskar hafnir eiga að óbreyttu enga möguleika á að fjármagna landtengingar stórra skipa án
verulegrar aðstoðar ríkisins, enda um milljarða fjárfestingar að ræða.

Þann 22. febrúar 2019 tók í gildi fullgilding Íslands á viðauka VI í MARPOL-samningnum um loftmengun frá skipum. Frá og með 1. janúar 2020 má brennisteinsinnihald í skipaeldsneyti sem notað er hér á landi og í mengunarlögsögu Íslands ekki vera meira en 0,5% (m/m). Þetta gildir einnig um öll heimshöfin fyrir utan þau svæði sem í dag eru skilgreind mx. 0,1 % (ECA svæði). Frá árinu 2020 hefur því ekki verið leyfilegt að nota svartolíu nema skip séu útbúin hreinsibúnaði og sá búnaður nægi til að brennisteinsinnihald fari ekki yfir 0,5%.

Mengunarvarnir

Ný lofthreinsikerfi skemmtiferðaskipa hafa þá eiginleika að minnka losun brennisteinstvíoxíðs (SO2) um 98%. Mörg skemmtiferðaskip eru með sérstakar síur til varnar því að sót berist út í andrúmsloftið. Æ fleiri skemmtiferðaskip eru líka búin sólarrafhlöðum til þess að draga úr þörfinni fyrir mengandi orkuframleiðslu. 

Útgerðir skemmtiferðaskipa leggja metnað sinn í að skipin losi hvergi í heiminum ómeðhöndlað skólp. Skemmtiferðaskip flokka allan sinn úrgang sem komið er til móttökuaðila í höfn. Útgerðir skemmtiferðaskipa leggja áherslu á að endurnýja flota sinn samkvæmt bestu fáanlegri tækni. Þær verja á annað hundrað milljörðum króna til að gera skipin umhverfisvænni, því það er orðin krafa hjá flestum löndum.

Sjálfbærni

Síðan haustið 2019 hefur Ísafjarðarbær verið þátttakandi í samnorrænu verkefni á vegum Nordic Innovation þar sem unnið er að því að finna og þróa nýskapandi leiðir til aukinnar sjálfbærni í móttöku skemmtiferðaskipa.

Nánar um verkefnið: Sustainable Tourism in Nordic Harbor Towns