Tímabundin niðurfelling gatnagerðargjalda við þegar byggðar götur

Bæjarstjórn hefur samþykkt tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda á lóðum í Ísafjarðarbæ við þegar byggðar götur í sveitafélaginu sem ekki þarf að leggja í frekari kostnað við gatnagerð og eru auglýstar eru á vef Ísafjarðarbæjar.

Lækkunin er gerð á grundvelli sérstakrar lækkunarheimildar, sbr. 6. gr. laga nr. 153/2006, um gatnagerðargjöld.

Ákvæðið tekur til lóðaúthlutana á neðangreindum lóðum sem fara fram frá 1. janúar 2022 til og með 31. desember 2023.

 • Ártunga (áður Asparlundur) 3 og 6, Ísafirði
 • Daltunga (áður Eikarlundur) 2, 4, 6 og 8, Ísafirði
 • Fífutunga (áður Grenilundur) 4 og 6, Ísafirði
 • Tungubraut 10, 12, 14 og 16, Ísafirði
 • Seljaland 17, 18 og 23, Ísafirði
 • Drafnargata 3 og 5, Flateyri
 • Brimnesvegur 32 og 34 Flateyri
 • Aðalgata 17, 19 og 24, Suðureyri
 • Eyrargata 11, Suðureyri
 • Dalbraut 6, Hnífsdalur
 • Ísafjarðarvegur 8 og 10, Hnífsdalur

Miðað er við að framkvæmdir hefjist innan þessara tímamarka og ljúki með lokaúttekt fyrir 31. desember 2026.

Sækja þarf sérstaklega um þessa niðurfellingu til bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Er það gert með því að senda erindi á postur@isafjordur.is.

Öryggisúttekt

Þegar mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum í samræmi við ákvæði skoðunarhandbókar og skoðunarlista. Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og leyfisveitandi hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt.

Byggingarstjóri eða eigandi sem óskar eftir öryggisúttekt skal tilgreina hve langt verk er komið. Sé óskað öryggisúttektar vegna hluta mannvirkis skal tilgreint við hvaða hluta er átt og skal þá ástandi þess hluta lýst og jafnframt gerð almennt grein fyrir ástandi annarra hluta mannvirkisins.

Lokaúttekt

Þegar mannvirkjagerð er lokið og innan þriggja ára frá því að mannvirki var tekið í notkun og öryggisúttekt fór fram skal gera lokaúttekt á því í samræmi við ákvæði skoðunarhandbókar og skoðunarlista.

Byggingarstjóri skal fyrir hönd eiganda mannvirkis óska eftir lokaúttekt. Einnig getur eigandi mannvirkis óskað eftir að lokaúttekt sé gerð.

Sé ekki óskað eftir lokaúttekt innan ofangreinds tímaramma fellur niðurfelling gatnagerðargjalda úr gildi.