Félagslegt leiguhúsnæði

Ísafjarðarbær rekur félagslegt leiguhúsnæði til að tryggja framboð slíks húsnæðis til handa einstaklingum og fjölskyldum sem ekki hafa kost á að afla sér húsnæðis með öðrum hætti.

Markmið sveitarfélagsins er að leysa það verkefni á metnaðarfullan og sanngjarnan hátt fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem eiga rétt á og vilja notfæra sér þá þjónustu.

Félagslegt leiguhúsnæði skiptist í þrjá flokka; almennt félagslegt leiguhúsnæði, sértækt húsnæði fyrir fatlað fólk og þjónustuíbúðir aldraðra.

Almennt félagslegt leiguhúsnæði er ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu húsnæði, fá úthlutað leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar er bundinn við tekju- og eignamörk og félagslegar aðstæður umsækjenda.

Með almennu félagslegu leiguhúsnæði er átt við hverja þá íbúð í eigu Fasteigna Ísafjarðarbæjar eða Eignasjóðs Ísafjarðarbæjar sem ekki er sérstaklega skilgreind sem þjónustuíbúð aldraðra eða húsnæði fyrir fatlað fólk. Almennu félagslegu leiguhúsnæði er úthlutað sem áfangahúsnæði þegar aðstæður leigutaka eru með þeim hætti að gera verður kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur er í gildi og er úthlutun húsnæðisins tímabundin með tilliti til þess.

Áfangahúsnæði er úthlutað með samningi um eftirfylgd þegar aðstæður leigutaka eru með neðangreindum hætti þannig að gera verður kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur er í gildi.

a) Áfangahúsnæði sem ætlað er til skemmri tíma, ekki lengur en til þriggja ára, og er ætlað fyrir einstaklinga í endurhæfingu vegna fíknivanda eða geðrænna erfiðleika.
b) Áfangahúsnæði fyrir einstaklinga með langvarandi og viðvarandi vanda sem þurfa alla jafna endurhæfingu til lengri tíma, eða lengur en þriggja ára.

Félagslegar leiguíbúðir Ísafjarðarbæjar eru 82 talsins:

  2-3 herbergi 4-5 herbergi Samtals
Ísafjörður 49 3 52
Hnífsdalur 4 5 9
Suðureyri 5 7 12
Þingeyri 9 0 9

Leiguverð er tiltekið í gjaldskrá.

Húsnæði fyrir fatlað fólk er íbúðarhúsnæði sem gert hefur verið aðgengilegt fyrir tiltekna notkun eða skilgreint sérstaklega fyrir tiltekinn hóp fatlaðs fólks. Húsnæði fyrir fatlað fólk skiptist í sértækt húsnæði fyrir fatlað fólk og í húsnæði með stuðningi.

a) Sértækt húsnæði fyrir fatlað fólk er ætlað þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum fötlunar og þurfa umfangsmikla aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili.
b) Húsnæði með stuðningi er ætlað þeim sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum fötlunar og þurfa nokkurn stuðning við að geta búið á eigin heimili.

Þjónustuíbúðir aldraðra eru félagslegt leiguhúsnæði sem sérstaklega er ætlað fólki sem er 67 ára og eldri sem þarf aðstoð og stuðning til að geta búið á eigin heimili. Auk húsaleigu er innheimt þjónustugjald í þjónustuíbúðum á Tjörn á Þingeyri. Um þjónustugjald fer samkvæmt gildandi gjaldskrá Ísafjarðarbæjar hverju sinni.

Þjónustuíbúð aldraðra getur einnig verið úthlutað sem áfangahúsnæði og er úthlutun þá tímabundin og með skilyrði um samning um eftirfylgd. Þjónustuíbúð aldraðra er úthlutað sem áfangahúsnæði þegar aðstæður leigutaka eru með þeim hætti að gera verður kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur er í gildi og er úthlutun húsnæðisins tímabundin með tilliti til þess.

Þjónustuíbúðir aldraðra eru 32:

  Einstaklingsíbúðir Hjónaíbúðir Samtals
Hlíf I, Ísafirði 19 8 27
Tjörn, Þingeyri 4 1 5

Leiguverð er tiltekið í gjaldskrá.

Umsóknarferli

Sækja skal um félagslegt leiguhúsnæði hjá velferðarsviði Ísafjarðarbæjar. 

Umsókn skal undirrituð á sérstakt umsóknareyðublað eða staðfest með rafrænum skilríkjum af hálfu umsækjanda eða eftir atvikum lögráðamanni, umboðsmanni eða persónulegum talsmanni hans.

Skilyrði fyrir samþykki umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði má finna í 3.-5. kafla í reglum um félagslegt leiguhúsnæði.

Úthlutun leiguhúsnæðis

Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fer fram á formlegum fundum félagsmálateymis velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar.

Við úthlutun húsnæðis fyrir fatlað fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir skal jafnframt taka mið af þjónustuþörf með hliðsjón af því húsnæði sem í boði er og samsetningu íbúa á viðkomandi heimili.

Þegar úthlutun leiguhúsnæðis fer fram ber eftir atvikum að uppfæra öll gögn umsækjanda miðað við stöðu hans á þeim tíma. Áður en til úthlutunar kemur ber einnig eftir atvikum að framkvæma endurmat samkvæmt matsviðmiðum í reglum um félagslegt leiguhúsnæði. Skal umsækjanda tilkynnt skriflega ef endurmat leiðir til breytinga á stigagjöf.

Við úthlutun almenns félagslegs leiguhúsnæðis og þjónustuíbúða aldraðra skal þess gætt að ekki séu til staðar aðstæður sem hamla því að viðkomandi geti búið í slíku húsnæði, s.s. sem verulegur vímuefnavandi. Í slíkum tilfellum er gerð krafa um að umsækjandi hafi ekki neytt vímugjafa að minnsta kosti síðastliðna sex mánuði áður en til úthlutunar kemur. Félagsmálateymi velferðarsviðs  er heimilt að úthluta almennu félagslegu leiguhúsnæði og þjónustuíbúðum aldraðra tímabundið sem áfangahúsnæði séu aðstæður umsækjanda með þeim hætti að gera verður kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur er í gildi, s.s. að umsækjandi eigi við verulegan vímuefnavanda og/eða geðræna erfiðleika að etja sem geta valdið vandkvæðum í tengslum við búsetu í fjölbýli.