Spurt og svarað um sorpflokkun

Hér má finna svör við algengum spurningum varðandi flokkun heimilisúrgangs. Ef þú finnur ekki svarið hér er best að hafa samband við okkur með tölvupósti á sorphirda@isafjordur.is og við munum svara eins fljótt og auðið er. Ef þú ert ekki viss er tryggast að setja ruslið með blönduðum úrgangi.

 

Hvar á að setja...

...bleyjur?
Með blönduðum úrgangi, þar sem bleyjur eru yfirleitt samsettar úr mörgum efnum.

...bómull?
Með blönduðum úrgangi. Hreina bómull er í raun hægt að jarðgera, en mjög erfitt er að greina hreina bómull frá bómull blandaðri með gerviefnum. Einnig er algengt að bómullin hafi komist í snertingu við efni sem ekki eiga að fara í jarðgerð eins og t.d. snyrtivörur eða lífræn leysiefni (aceton).

...geisladiska?
Með blönduðum úrgangi. Geisladiskar eru úr plastblöndu, auk þess sem það er málmþynna í þeim.

...eldhúsbréf?
Með blönduðum úrgangi. Það er þó í lagi að eitt og eitt bréf fari með lífúrgangi. Gott viðmið er að hafi eldhúsbréfið verið notað til að þurrka upp matarleifar má setja það með lífúrgangi en hafi það verið notað til að þurrka upp eitthvað annað þá þarf það að fara með blönduðum úrgangi.

...eyrnapinna?
Með blönduðum úrgangi þar sem eyrnapinnar eru yfirleitt samsettir úr mismunandi efnum.

...frauðbakka t.d. undan kjötvörum?
Ef frauðbakkinn er með plastmerki má skola hann og setja með plastinu. Ef hann er ekki merktur fer hann með blönduðum úrgangi.

...G-mjólkurfernur, svalafernur og aðrar fernur með áli að innan?
Fara með öðrum fernum.

...gler?
Gler á að fara í grenndargáma eða í glergám í Funa eða söfnunarbíl.

...gluggaumslög?
Rífa skal „gluggann“ úr og setja með plasti en umslagið sjálft með pappír.

...íspinnabréf með vaxáferð?
Með blönduðum úrgangi.

...íspinnaspýtur?
Með blönduðum úrgangi.

...kaffipakka?
Kaffipakkar eru yfirleitt samsettir úr plasti og áli. Allar samsettar umbúðir fara með blönduðum úrgangi. Ef kaffipakkinn er bara úr áli fer hann með málmumbúðum sem safnað er í grenndargámum. Ef pakkinn er bara úr plasti fer hann með plasti í endurvinnslutunnuna. Auðvelt er að sjá hvort umbúðir eru samsettar með því að rífa þær í sundur.

...kertavax?
Með blönduðum úrgangi. Einnig er tekið við kertavaxi í Hvestu á Ísafirði.

...kjúklingabein?
Bein moltast ekki og því fara þau með blönduðum úrgangi. Það er þó í lagi ef mjög lítil bein fari með lífúrgangi.

...latexhanska?
Með blönduðum úrgangi.

...litaðar servéttur?
Með blönduðum úrgangi þar sem ekki er gott að segja hvaða efni eru í litunum.

...pappír úr pappírstætara?
Með öðrum pappír í endurvinnslutunnuna.

...penna?
Flestar gerðir af pennum á að setja með blönduðum úrgangi.

...plastpoka?
Allir plastpokar mega fara með plasti í endurvinnslutunnuna þó þeir séu ómerktir. Harðir pokar t.d. innan úr kornflex pökkum mega þó ekki fara með þar sem óvíst er hvaða efni eru í þeim.

...plastpoka með álímdum miðum úr pappír?
Með öðru plasti í endurvinnslutunnuna. Það er í lagi þó það séu einhverjir miðar á pokunum. Ef það er auðvelt að kippa þeim af þá er það æskilegt.

...plast sem ekki er með endurvinnslumerki?
Ómerkt plast verður að fara með blönduðum úrgangi þar sem ómögulegt er að segja til um úr hverju það er eða hvernig það skuli endurunnið. Þó mega plastpokar fara í endurvinnslutunnuna með öðru plasti þótt þeir séu ekki merktir. Allt hart plast verður að vera merkt með endurvinnslumerki til að mega fara með plastinu. Allt ómerkt hart plast fer með blönduðum úrgangi.

...sjampóbrúsa og aðrar snyrtivöruumbúðir úr plasti?
Í endurvinnslutunnuna. Umbúðir þurfa að vera tómar og brúsar án vökva.

...smjörpappír/bökunarpappír?
Með blönduðum úrgangi.

...snakkpoka?
Flestir snakkpokar eru úr plasti og fara með öðru plasti í endurvinnslutunnuna. Ef þeir eru samsettir úr áli og plasti fara þeir með blönduðum úrgangi.

...tyggjó?
Með blönduðum úrgangi.