Vika 20: Dagbók bæjarstjóra 2023

Dagbók bæjarstjóra dagana 15.-21. maí 2023.

Maímánuður er alltaf þéttsetin af verkefnum og annasamur. Það eru þessi hefðbundu vorverk og hreinsanir, og koma verkefnum út fyrir sumarið sem taka sinn tíma. Krían er komin, skemmtiferðaskipin farin að leggjast að og ýmislegt að fara í gang, til dæmis fyrirstöðugarður við Norðurtanga og tilboð voru opnuð í malbikun. Það verður talsvert malbikað í sumar í öllum byggðakjörnum nema í Hnífsdal. Á Þingeyri verður Hafnargata og Sjávargata (ættum að losna við þessa þrálátu holu) malbikuð og svo við íþróttamiðstöðina, Eyrarvegurinn á Flateyri og Freyjugata á Suðureyri. Á Ísafirði verður neðri hluti Fjarðarstrætis malbikaður, Æðartangi, Tungubraut, Skógarbraut og Bræðratunga og svo við Funa.

Vikan hófst með fundi bæjarráðs. Þar voru þó nokkur áhugaverð mál á dagskrá.

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar var lagður fram til fyrri umræðu í vikunni en eftir honum hafði verið beðið með talsverðri eftirvæntingu, þó svo að niðurstöðurnar hafi svo sem ekki komið okkur mikið á óvart þar sem við fylgjumst nokkuð vel með þróuninni. Stóru fréttirnar eru þó þær að reksturinn er 40. m.kr. jákvæðari en áætlanir gerðu ráð fyrir þrátt fyrir versnandi ytri skilyrði í íslensku efnahagslífi með verðbólgu og hækkandi vöxtum með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á reksturinn. Á árinu 2022 var afkoma sveitarfélagsins neikvæð um 109,6 m. kr. samanborið við 396. m.kr. neikvæða afkomu á árinu 2021. Þó það sé ekki gaman að skila neikvæðum rekstri þá eru mörg jákvæð merki á lofti. Skuldahlutfallið er að lækka og veltufé frá rekstri að aukast. Verkefninu er hvergi nærri lokið. Árið 2024 verður áskorun fyrir okkur því þá verðum við stóra gjaldaga á lánum en ef við höldum vel á spöðunum ættum við að vera komin þokkalega fyrir vind árið 2025 nema eitthvað gerist sem við sjáum ekki fyrir. Stóra verkefnið er að halda lántökum í lágmarki.

Tekið var fyrir bréf frá Strandabyggð um hvort að sveitarfélagið geti fengið aðild að Velferðarþjónustu Vestfjarða sem hefur verið í undirbúningi undanfarna mánuði og er samningur hinna sveitarfélaganna átta á Vestfjörðum í lokayfirlestri í þremur ráðuneytum. Strandabyggð leitaði hófanna til sveitarfélagsins Skagafjarðar sem var ekki til samstarfs á þessu sviði. Bæjarráð tók jákvætt í erindi Strandabyggðar en lagði áherslu á að það myndi ekki tefja þá vinnu sem er nú á lokametrunum.

Bæjarstjórn fundaði líka í vikunni og átti fund með KPMG sem eru endurskoðendur sveitarfélagsins. Þar var farið yfir reikninginn og helstu þætti í endurskoðuninni. Allt upp á punkt og prik hjá okkur, og það er ekki síst vegna starfsfólks Ísafjarðarbæjar sem hefur skilað frábærri vinnu í erfiðu árferði, sýnt útsjónarsemi og verið lausnamiðað.

Skipulag Skutulsfjarðareyrar frá 1927.
Skipulag Skutulsfjarðareyrar frá 1927.

Bæjarstjórn úthlutaði líka lóðum í Tunguhverfi undir fjögur raðhús sem er alltaf ánægjulegt og samþykkti skipulagslýsingu fyrir nýtt deiliskipulag í miðbæ Ísafjarðar. Tilgangur skipulagsins er að skapa svigrúm fyrir uppbyggingu og þróun miðbæjarins á Ísafirði. Markmiðið með skipulagsgerðinni er að móta stefnu um uppbyggingu og ásýnd miðbæjarins með sterk tengsl við sögu svæðisins. Þar kemur fram að miðbænum er ætlað að vera samkomustaður fólks og traustur grunnur fyrir þjónustu, verslun, mannlíf og aðra menningu. Áhersla er lögð á öflugan og líflegan miðbæ með sterk tengsl við hafnarsvæði og í takt við sögulegt umhverfi. Markmiðið er einnig að umferðaröryggi verði bætt og göngu- og hjólahæfi byggðarinnar aukið. Tímalína verkefnisins gerir ráð fyrir að nýja skipulagið verði samþykkt í febrúar 2024.

Stjórn verkefnisins Öll vötn til Dýrafjarðar.
Stjórn verkefnisins Öll vötn til Dýrafjarðar.

Það var haldinn íbúafundur á Þingeyri og formleg lúkning á verkefninu Öll vötn til Dýrafjarðar. Verkefnið hófst í lok árs 2018 og það óhætt að segja að margt hafi breyst á þessum árum til hins betra. Ég vil trúa því að Þingeyri hafi náð vopnum sínum á nýjan leik. Starfsemi Arctic Fish hefur vaxið verulega, Blábankinn með sitt fjölbreytta og skapandi starf ásamt fjölmörgum öðrum nýungum til að mynda í ferðaþjónustu. Styrkirnir sem hafa verið veittir úr ÖVD hafa ýtt undir fjölbreytta starfsemi. Ég hef verið mjög ánægð með samstarfið við Byggðastofnun, Vestfjarðastofu og hverfisráðið í gegnum verkefnistímann, en ég hef setið í verkefnisstjórninni frá upphafi. Agnes verkefnisstjóri ÖVD heldur nú á vit nýrra ævintýranna en við eigum eftir að sakna hennar mikið.

Við Bryndís bæjarritari og Axel sviðstjóri umhverfis og eignasviðs áttum mánaðarlegan fund með hverfisráðinu á Þingeyri í vikunni og Blábankanum, en þar eru og verða mannabreytingar. Helgi Ragnar sem hefur verið formaður hverfisráðsins sl. ár lét af störfum á aðalfundi sem fór fram í vikunni og Guðrún Steinþórs tók við keflinu. Birta er líka að láta af störfum í haust í Blábankanum. Það hefur verið afar ánægjulegt að starfa með þeim og ég þakka þeim fyrir samstarfið. Við Guðrún erum frænkur svo við erum með gott forskot á farsælt samstarf.

Ég átti góðan fund með ráðgjöfum sem eru að vinna með Arctic Fish að umhverfis- og samfélagsmálum. Gott að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum Ísafjarðarbæjar á framfæri.

Ársfundur Náttúrustofu Vestfjarða fór fram í vikunni en ég sótti hann í gegnum Teams þar sem ég var höfuðborginni. Þar var farið yfir margvísleg verkefni ársins 2022 og greint frá jákvæðum rekstrarniðurstöðum, en það kom fram í máli Smára Haralds stjórnarformanns að það væri í annað skipti sem það hefur gerst, hitt skiptið var árið 2005. Vel gert hjá þeim!

Kerfisáætlun Landsnets var líka kynnt í vikunni. Þar eru þrjú verkefni sem tengjast Vestfjörðum. Þau hefjast reyndar ekki fyrr en á árinu 2024. Það fyrsta er styrking á sunnanverðum Vestfjörðum til að auka afhendingararöryggi og styrkja flutningakerfið. Það verður gert með því að auka möskvun á svæðinu með innbyrðis tengingum á milli Bíldudals, Mjólkár og Keldeyrar við Tálknafjörð. Þessi framkvæmd snýr að tengingu Mjólkár og Keldeyrar. Annað verkefnið tengist endurnýjun tengisvirkis í Mjólká sem er stærsta tengivirki Vestfjarða. Virkið er víst útsett fyrir seltu þar sem það stendur við Arnarfjörð og því mikilvægt að koma búnaðinum inn til að minnka líkur á útleysingum, segir í kerfisáætlunni. Þriðja verkefnið á að hefjast árið 2026 og er nýr afhendingarstaður í Ísafjarðardjúpi til að tengja Hvalá og aðrar virkjanir. Verkefnið snýr að uppsetningu á nýjum afhendingarstað í meginflutningskerfinu við Ísafjarðardjúp. Afhendingarstaðurinn verður tengdur við núverandi meginflutningskerfi í Kollafirði inn á Mjólkárlínu 1, þar sem byggt verður nýtt tengivirki. Það er settur fyrirvari á tímasetningu þessa verkefnis sem tengist framgangi virkjanaáforma á svæðinu.

Ný vika framundan og miðað við dagskrá vikunnar á mér ekki eftir að leiðast eina einustu stund.