Ársreikningur Ísafjarðarbæjar 2022 sendur til síðari umræðu

Bæjarstjórn hefur vísað ársreikningi Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir starfsárið 2022 til síðari umræðu en fyrri umræða fór fram á 515. fundi bæjarstjórnar þann 16. maí.

Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, sýnir ársreikningurinn að rekstur Ísafjarðarbæjar sé á réttri leið þó verkefninu sé hvergi nærri lokið.

„Þrátt fyrir versnandi ytri skilyrði í íslensku efnahagslífi með verðbólgu og hækkandi vöxtum með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á rekstur Ísafjarðabæjar endurspeglar ársreikningur 2022 bata í rekstri Ísafjarðarbæjar,“ segir Arna. „Á árinu 2022 var afkoma sveitarfélagsins neikvæð um 109,6 m. kr. samanborið við 396. m.kr. neikvæða afkomu á árinu 2021. Það eru svo mörg jákvæð merki á lofti, meðal annars er skuldahlutfallið að lækka, það var 146,8% árið 2021 en er 138% árið 2022.“ 

Að sögn Örnu þarf sveitarfélagið að vera í stakk búið til að mæta aukinni þjónustuþörf sem fylgir uppbyggingu atvinnuþróunar og fjölgun íbúa. „Talsverð uppbygging íbúðarhúsnæðis á sér nú stað í sveitarfélaginu, og er í vændum með frekari atvinnuþróun og íbúafjölgun. Með auknum íbúafjölda aukast að rekstrartekjur sveitarfélagsins og með vaxandi sveitarfélagi má reikna með því að reksturinn verði sömuleiðis skilvirkari. Við stöndum frammi fyrir stórum innviðaverkefnum, t.a.m. í skólahúsnæði, nýrri slökkvistöð svo eitthvað sé nefnt á löngum lista í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins. Til þess að sveitarfélagið geti staðið undir þeim mikilvægu verkefnum og að sama skapi veitt góða þjónustu þarf reksturinn að vera traustur og skila nægjanlegri framlegð. Við þurfum því að halda áfram á þessari jákvæðu vegferð og treysta enn frekar rekstrargrundvöll sveitarfélagsins, auka skilvirkni í rekstri allra málaflokka, gæta aðhalds og vinna að því að skapa aðstæður fyrir öfluga atvinnuuppbyggingu á svæðinu.“

Hér fyrir neðan er samantekt um helstu niðurstöður ársreikningsins.

Tekjur

Rekstrartekjur námu 6.835 m.kr. og voru 605 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Af því eru 583 m.kr. vegna hlutdeildar tekna í samstarfsverkefnum vegna innleiðingar reglugerðabreytinga á árinu og ekki var áætlað fyrir. Skatttekjur námu samtals ríflega 4.488 m.kr.

Laun

Laun og launatengd gjöld voru 3.315 m.kr. en í áætlun með viðaukum var gert ráð fyrir 3.330 m.kr. Heildarfjöldi starfsfólks Ísafjarðarbæjar í árslok 2022 var 415. Rekstrargjöld voru 469 m.kr. hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Af því eru 578 m.kr. vegna samstarfsverkefna sem ekki var áætlað fyrir.

Rekstur

Ársreikningurinn sýnir rekstrarhalla upp á 109,6 m.kr. fyrir samantekinn rekstrarreikning A- og B-hluta. Fjárhagsáætlun fyrir sama tímabil gerði ráð fyrir rekstrarhalla upp á 150 m.kr. Mikil verðbólga með tilheyrandi hækkun fjármagnskostnaðar leiddi af sér helstu frávik í rekstri miðað við fjárhagsáætlun ársins en fjármunatekjur og fjármagnsgjöld voru 78 m.kr. hærri í kostnaði. Þá voru framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga töluvert hærri en áætlun gerði ráð fyrir eða 121 m.kr. ef frá er horft áhrif vegna samstarfsverkefna. Rekstrarniðurstaðan A- og B-hluta er því 40 m.kr. jákvæðari en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 210 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrarhalla upp á 377 m.kr. Rekstrarniðurstaðan A-hluta er því 167 m.kr. jákvæðari en áætlun gerði ráð fyrir.

Eigið fé, skuldir og fjárfestingar

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok 2022 nam 1.297 m.kr. samkvæmt efnahagsreikningi fyrir A- og B-hluta en eigið fé A-hluta var jákvætt um 362 m.kr. Eiginfjárhlutfallið var 12,1% en var 11,5% árið áður.

Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum, eða skuldahlutfall A og B hluta er 138% en var 146,8% árið 2021. Skuldahlutfallið hjá A hluta er 121% en var 129% árið 2021. Samkvæmt fjármálareglu í 64. gr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Skuldaviðmið A og B hluta er 89,8% og 80,7% fyrir A hluta.

Fjárfest var fyrir rúmar 304 m.kr. í A- og B-hluta á árinu 2022 en áætlaðar fjárfestingar voru 440 m.kr. Umsvifamestu fjárfestingarnar sneru að fasteignum og öðrum mannvirkjum Eignasjóðs (um 67 m.kr.), hafnarframkvæmdum (um 134 m.kr.) og fráveituframkvæmdum (um 44 m.kr.). Á árinu 2022 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð 216 m.kr. Handbært fé hækkaði um 30,3 m.kr. frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2022 kr. 324 m.kr.