Útkomuspá fyrir árið 2022

Útkomuspá fyrir árið 2022 var kynnt á 1213. fundi bæjarráðs sem haldinn var mánudaginn 3. október. 

Niðurstaða útkomuspár er að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verður neikvæð um 442 milljónir króna í árslok 2022. A-hluti verður neikvæður um 673 milljónir króna og verður handbært fé 107 milljónir króna.

Í bókun bæjarráðs um málið segir að spáin lýsi mjög alvarlegri stöðu fjármála og að ljóst sé að grípa þarf til mikilla aðgerða. „Gjaldamegin þarf að fara í erfiðar aðgerðir. Tekjumegin er ljóst að stærstu málaflokkarnir eru vanfjármagnaðir af hendi ríksinss, s.s málaflokkur fatlaðs fólks og málaflokkur barna með fjölþættan vanda.“

Útkomuspáin samanstendur af fjárhagsáætlun með viðaukum 1 til 17 sem samþykktir hafa verið af bæjarstjórn, ásamt viðauka 18 sem liggur fyrir til samþykktar bæjarstjórnar. Til viðbótar er búið að bæta inn kostnaði sem ljóst er að muni falla á sveitarfélagið og ekki er svigrúm fyrir í núverandi áætlun. Er það annarsvegar aukinn kostnaður velferðarsviðs, samtals 221 milljónir króna, og hins vegar hækkun lífeyrisskuldbindingar upp á 70,5 milljónir króna. Óáætlaður kostnaður nemur því samtals 292 milljónum króna.

Að sögn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra, er ljóst að rekstur sveitarfélagsins er þungur og haldi áfram að vera það komi ekki til endurskoðunar tekjustofna sveitarfélaga.

„Ísafjarðarbær er ekki eina sveitarfélagið í þessari stöðu, það sáum við glögglega á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldið var á Akureyri í lok síðasta mánaðar. Þar var helsta umfjöllunarefnið slæm fjárhagsstaða og óvissa í tekjuöflun sveitarfélaga. Til þess að sveitarfélög geti staðið undir æ þyngri rekstri þarf að auka tekjur þeirra verulega,“ segir Arna. 

Á landsþinginu var samþykkt ályktun er varðar málefni fatlaðs fólks, þar sem segir: 

Fjárhagsstaða sveitarfélaga á Íslandi er grafalvarleg. Frá árinu 2019 hefur sveitarfélögum sem ekki uppfylla lágmarksviðmið um fjárhagslega sjálfbærni og eru undir eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga fjölgað úr 12 í 30. Vanfjármögnun vegna þjónustu við fatlað fólk er ein megin orsök fjárhagsvanda margra sveitarfélaga. Ítarleg greining starfshóps félagsmálaráðherra um rekstur málaflokks fatlaðs fólks sýnir að hallinn á málaflokknum árið 2020 nam 8,9 milljörðum króna. Ætla má að hallinn nemi nú um 12 til 13 milljörðum króna.

Í yfirstandandi viðræðum sveitarfélaga og ríkisins leggur sambandið þunga áherslu á að fá fjárhagslega leiðréttingu frá ríkinu til að standa undir útgjöldum sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk, en gríðarlegur vöxtur útgjalda er einkum til kominn vegna aukinna krafna í löggjöf og reglum um hærra þjónustustig. Mikilvægt er að niðurstaða viðræðna liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2022 og að sveitarfélögin fái þá strax leiðréttingu. Jafnframt lýsir sambandið þeim vilja að teknar verði upp viðræður við ríkið um framtíðarfyrirkomulag og fjármögnun þjónustu við fatlað fólk.

Sveitarstjórnarlög kveða á um skyldu stjórnvalda að kostnaðarmeta þau verkefni sem sveitarfélögum er falið að sinna. Þjónusta við fatlað fólk er stórlega vanfjármögnuð af hálfu ríkisins og vegur að möguleikum sveitarfélaga til að ná sjálfbærni í rekstri. Enginn ávinningur er af því fyrir ríkið og samfélagið í heild að sveitarfélög reki verkefni með halla eða taki að sér ný verkefni sem ekki eru fjármögnuð.