Aðgerðaráætlun Ísafjarðarbæjar vegna COVID 19 – fyrsta útgáfa

Eftirfarandi aðgerðaráætlun var samþykkt af bæjarráði á 1101. fundi mánudaginn 6. apríl. Er þetta fyrsta útgáfa aðgerðaráætlunar og mun hún taka breytingum eftir því hver áhrif faraldursins verða og hve lengi hann varir.

Aðgerðaráætlun Ísafjarðarbæjar vegna COVID 19 – 1. útgáfa (1. apríl 2020)

Vegna áhrifa heimsfaraldurs af völdum COVID-19 hefur margvísleg þjónusta sveitarfélagsins tekið breytingum frá því sem verið hefur. Viðbragðsteymi hefur unnið eftir og tekið ákvarðanir á grundvelli viðbragðsáætlunar fyrir Ísafjarðarbæ auk leiðbeininga og tilmæla Embættis landlæknis, sóttvarnarlæknis, og Almannavarna hverju sinni. Samkomubann og afleiðingar heimsfaraldurs hafa haft mikil áhrif á mörg atvinnufyrirtæki, sérstaklega ferðaþjónustu, þar sem tekjur fyrirtækjanna hafa nánast þurrkast upp. Af þessu leiðir að sveitarfélagið mæti annars vegar þjónustuþegum í skólum og leikskólum og hins vegar atvinnufyrirtækjum sem lenda í greiðsluvanda.

Samhliða þessum aðgerðum og tillögum er mikilvægt að unnin verði sviðsmyndagreining varðandi áhrif aðgerðanna og ástandsins á afkomu og stöðu sveitarfélagsins og samfélagsins alls. Þessar aðgerðir og tillögur eru fyrsta skrefið en mikilvægt er að horfa á þessi áform sem lifandi skjal sem mun taka breytingum eftir því hver áhrif faraldursins verða og hversu lengi hann varir. Í þessum áformum er höfð hliðsjón af tilmælum Sambands sveitarfélaga og aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt eftirfarandi aðgerðir en mun endurskoða þær eftir þörfum og uppfæra upplýsingar reglubundið meðan ástandið varir:

1. Frestun gjalddaga fasteignagjalda 2020:

Samkvæmt samþykktri gjaldskrá fasteignagjalda eru gjalddagar tíu á árinu 2020. Fyrsti gjalddagi er 15. janúar og sá síðasti 15. október. Eindagi er 30 dögum á eftir gjalddaga og er því síðasti gjalddaginn á eindaga 15. nóvember. Það sem af er ári hafa þrír gjalddagar verið sendir út, nú síðast gjalddagi 15. mars sem er á eindaga 15. apríl nk. Eftir á því að gefa út 7 gjalddaga til viðbótar í þeim tilfellum sem þau hafa ekki verið greidd upp að öllu leyti.

Til að auka sveigjanleika í núverandi ástandi er lagt til að boðið verði upp á að sækja um frest á gjalddögum ársins 2020 sem verða 15. apríl og síðar vegna atvinnuhúsnæðis. Hægt verði að óska eftir því með því að fylla út form á heimasíðu eða með tölvupósti á sérstöku eyðublaði sem er sent á netfangið innheimta@isafjordur.is Einnig verðu hægt að skila inn eyðublaðinu í móttöku bæjarskrifstofunnar, Hafnarstræti 1. Eyðublaðið verður aðgengilegt á vef Ísafjarðarbæjar frá og með 7. apríl. Varðandi nánari útfærslu á frestun vísast í minnisblað frá lögfræði- og velferðarsviði Sambands íslenskra sveitarfélaga.

2. Gjaldskrár skóla og leikskóla

  • Mötuneyti:
    • Engir reikningar verða sendir út vegna mötuneytis fyrir apríl í þeim skólum þar sem mötuneyti hafa lokað. Hver skóli heldur utan um leiðréttingar vegna skertrar þjónustu 16.-31. mars 2020
    • Áskrift frá 16. mars verður endurgreidd.
  • Leikskólar:
    • Leikskólagjöld frá 16. mars og í aprílmánuði 2020 taka breytingum í samræmi við veitta þjónustu.
    • Ekkert gjald verður innheimt fyrir barn sem foreldrar hafa heima á tímabilinu.
    • Niðurfelling fæst aðeins ef fjarveran er samfelld og/eða reglubundin. Nauðsynlegt er að tilkynna fjarveruna til stjórnenda viðkomandi leikskóla.
    • Ekkert gjald verður innheimt fyrir barn í leikskóla sem er lokað á tímabilinu.
    • 50% gjald fyrir barn sem er annan hvern dag í leikskóla á tímabilinu.
    • 100% gjald fyrir barn sem er alla daga í leikskóla vegna forgangs.
  • Dægradvöl:
    • Vegna skertrar þjónustu í Dægradvöl verður innheimt fyrir fjölda daga sem nýttur er hjá verju barni á tímabilinu frá 16. mars 2020. Niðurfelling fæst aðeins ef fjarvera er tilkynnt til forstöðumanns.
    • Leiðrétting á skertri þjónustu frá 16. mars fer fram samhliða útgáfu á reikningi aprílmánaðar.

3. Líkamsræktar- og sundkort:

  • Gildistími kortanna framlengist sem nemur lokunartíma viðkomandi staða.

4. Fasteignaskattur 2021:

  • Við ákvörðun álagningarhlutfalls fasteignaskatts í flokkum A og C árið 2021 verði horft til þess að skattar hækki í takt við áætlaðar verðlagsbreytingar milli ára en ekki hækkun fasteignamats.

5. Þróun gjalda og gjaldskrár:

  • Kannaðir verða möguleikar á lækkun gjaldskrár og tímabundinnar lækkunar eða niðurfellingar tiltekinna gjalda. Þessar aðgerðir beinist fyrst og fremst að einstaklingum og fjölskyldum sem verða fyrir atvinnumissi og/eða eru í atvinnuleit. Haldið verður aftur af gjaldskrárhækkunum á árinu 2021 eins og kostur er.

6. Framkvæmdir:

  • Viðhaldsframkvæmdir sveitarfélagsins og B-hluta fyrirtækja verði auknar og þeim flýtt eins og kostur er, umfram það sem gildandi fjárhagsáætlun ársins 2020 og í áætlun fyrir árið 2021.
    • Átak verði gert í viðhaldi á eignum bæjarfélagsins s.s. skólum, leikskólum og sundlaugum og öðrum íþróttamannvirkjum. Unnin verður nánari greining og útfærsla á þessu.
  • Eftirfarandi framkvæmdum verði flýtt eins og kostur er:
    • Fjölnota knattspyrnuhús verði byggt í samstarfi við Vestra
    • Bygging slökkvistöðvar verði sett af stað
    • Unnið verði við brýn fráveituverkefni í sveitarfélaginu
    • Átak verði gert í stígagerð í samræmi við skipulag

7. Verkefni sem fjármögnuð eru að hluta eða öllu leyti af ríkinu eða öðrum verður fylgt eftir:

  • Framkvæmdum við Sundabakka verði flýtt
  • Fjölgun hjúkrunarrýma verði flýtt
  • Bygging íbúðakjarna fyrir fatlað fólk verði sett í farveg
  • Stuðlað verði að byggingu á íbúðarhúsnæði
  • Malbikað verði bílastæði og upphitaður og upplýstur þyrlupallur gerður á Ísafjarðarflugvelli
  • Skoðað verði með nýtt flugvallarstæði fyrir Ísafjörð
  • Leyfismálum í fiskeldi í Ísafjarðardjúpi verði hraðað eins og frekast er unnt
  • Samgönguverkefni: Dynjandisheiði

8. Atvinnuátaksverkefni og vinnumarkaður

  • Þróaðar verði markvissar aðgerðir sem viðbrögð við atvinnuleysi eins og frekast er unnt. Þetta verði unnið í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og eftir atvikum ríkið. Sérstök áhersla verður lögð á hópa sem skv. greiningum verða illa úti í ástandinu.
  • Í tengslum við átak í framkvæmdum á ýmsum sviðum á vegum sveitarfélagsins verði horft til þess að tryggja sem flestum atvinnu á svæðinu.
  • Lögð verður áhersla á að skapa sumarstörf fyrir eldri ungmenni ef þörf verður á.

9. Markaðsátak í ferðaþjónustu

  • Ísafjarðarbær verði virkur þátttakandi í útfærslu og framkvæmd markaðsátaks stjórnvalda í ljósi COVID-19
  • Ráðist verði í markaðsátak í samvinnu við Vestfjarðastofu og hagsmunaðila í ferðaþjónustu á svæðinu. Lögð verði sérstök áhersla á Vestfjarðarleiðina og þá afþreyingu og þjónustu sem svæðið hefur upp á að bjóða.

10. Umhverfis- og hreinsunarátak

  • Ísafjarðarbær mun leita eftir samstarfi við hverfisráð, fyrirtæki og íbúa við að skipuleggja og standa fyrir átaki í fegrun umhverfis í sveitarfélaginu.

11. Velferðarsvið

  • Haft er reglulega samband við alla þjónustuþega í stuðningsþjónustu þ.e. þá sem fá s.s. heimilisþrif, liðveislu, innlit o.fl.
  • Haft verður samband við alla íbúa sveitarfélagsins 75 ára og eldri og líðan og félagsleg staða viðkomandi könnuð.
  • Fylgst verður með og brugðist veður við þörf annarra íbúa sem þurfa aðstoð.
  • Aðgengi að Hlíf verður skert og mötuneyti lokað. Íbúar fá mat í einnota umbúðum.
  • Dagdeild á Hlíf er lokað en reynt að veita þjónustu heima hjá viðkomandi. Sama gildir um dagdeild á Suðureyri.
  • Á Þingeyri og Flateyri verður haft samband við alla sem nýtt hafa vinnustofur og þörf fyrir þjónustu könnuð.
  • Brýnt er fyrir þessum aldurshópi að halda sig sem mest heima og passa upp á tveggja metra regluna ef nauðsyn ber til að sinna erindum utan heimilis.
  • Versluninni á Hlíf hefur verið lokað af öryggissjónarmiðum.
  • Boðið er upp á aðstoð við netpöntun á vöru. Vörurnar eru síðan sóttar af starfsfólki velferðarsviðs og sendar heim að dyrum.
  • Þeir sem fá heimilisþrif munu eftirleiðis fá símhringingu frá starfsmanni áður en hann kemur til að veita þessa þjónustu. Þetta er gert til að tryggja öryggi.
  • Sérstakar ráðstafanir hafa verið gerðar í málefnum fatlaðra í skammtímavistun, Hvestu, hæfingarstöð og búsetum til að bregðast við ástandinu.