Hjólað í vinnuna

Góðan dag ágæta samstarfsfólk.

Nú hefst átakið “Hjólað í vinnuna” þann 4. maí næstkomandi eins og þið sjálfsagt öll hafið fengið veður af. Væri ekki æðislegt ef við tækjum sem flest þátt?

Ég vona að þið skráið ykkur til þátttöku og takið þátt í þessu skemmtilega átaki.

Það er best ef hver vinnustaður fyrir sig skrái sig inn með sinn starfsmannafjölda og að einn liðsstjóri sé til staðar. Það getur t.d. verið einhver hvetjandi starfsmaður á starfsstöðinni.

Þegar liðsstjóri skráir lið til leiks, þá þarf viðkomandi að lána sína kennitölu. Sá sem stofnar lið er sjálfkrafa liðsstjóri og þarf að samþykkja liðsmenn inn í liðin. Hér eru góðar leiðbeiningar um skráningu fyrir liðsstjórann.

Og hér eru góðar leiðbeiningar fyrir starfsfólk sem vill taka þátt þegar búið er að stofna lið. Það er einnig leyfilegt að ganga til vinnu og það telur með í átakinu. Hver og einn skráir svo á vefnum dagana þegar hann hjólar eða gengur til og frá vinnu.

Þetta snýst ekki endilega um vegalengdir hjá okkur í heildarkeppninni á landsvísu, heldur einkum um hlutfallslegan fjölda þátttakenda innan vinnustaða og fjölda skipta sem starfsmenn fara hjólandi/gangandi til og frá vinnu. Því er auðvitað æskilegast að sem flestir taki þátt

Ástæða þess að það er best að hver vinnustaður fyrir sig skrái sig, en ekki Ísafjarðarbær í heild, er sú að hlutfallsleg þátttaka verður annars mjög lág miðað við heildarfjölda starfsmanna og þá eigum við í raun ekki séns í þessa keppni. Ef hver vinnustaður skráir sig hins vegar með sinn starfsmannafjölda, þá erum við í mun betri stöðu hvað samkeppni við aðra vinnustaði af svipaðri stærð varðar. Vonandi getum við þó kannski næst tekið þátt undir merkjum Ísafjarðarbæjar í heild ef þátttaka verður framúrskarandi í ár.

Ég hef líka lagt til að hafa þetta sem nokkurs konar vinnustaðakeppni hverrar starfsstöðvar fyrir sig þar sem verðlaunaðar eru sérstaklega t.d. tvær/þrjár manneskjur sem annars vegar hjóla/ganga hvað lengst til og frá vinnu á tímabilinu og hins vegar sem hjóla/ganga hvað oftast á tímabilinu.

Hvet alla til að vera með og koma sér í gírinn (bókstaflega). Þetta er ljómandi fín hreyfing.

Ef það er eitthvað vesen með skráningu, þá endilega látið vita.

Með hjólakveðju, Baldur

Er hægt að bæta efnið á síðunni?