Hafnarstjórn

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
219. fundur 25. mars 2021 kl. 12:00 - 13:02 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Marzellíus Sveinbjörnsson formaður
  • Anna Ragnheiður Grétarsdóttir aðalmaður
  • Sigríður Gísladóttir aðalmaður
  • Sigurður Jón Hreinsson aðalmaður
  • Högni Gunnar Pétursson aðalmaður
Starfsmenn
  • Guðmundur M Kristjánsson hafnarstjóri
  • Tinna Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi
Fundargerð ritaði: Tinna Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi
Dagskrá
Marzellíus Sveinbjörnsson, formaður hafnarstjórnar, leggur til að mál 2021010022 um stöðuleyfi verði tekið á dagskrá hafnarstjórnar með afbrigðum. Tillagan samþykkt samhljóða og verður þá málið 9. liður á dagskrá.

1.Endurnýjun dráttarbáts fyrir hafnir Ísafjarðarbæjar - 2021020041

Fyrir fundinum liggur erindi frá Högna Gunnari Péturssyni, varaformanni hafnarstjórnar, ódagsett, vegna endurnýjunar dráttarbáts fyrir hafnir Ísafjarðarbæjar.
Högni kynnir hugmynd að endurnýjun dráttarbáts fyrir hafnir Ísafjarðarbæjar í ljósi breytinga og stækkunar á Ísafjarðarhöfn og fyrirhugaðra aukinna umsvifa sem þeim breytingum fylgir.

Hafnarstjóri þakkar fyrir umræðuna og segir að hugað verði að þessum breyttu þörfum þegar farið verður hönnun og útboð.

Hafnarstjórn þakkar fyrir erindi Högna.
Högni Gunnar víkur af fundi undir öðrum fundarlið.

2.Sundabakki - framkvæmdir: Upptökudokk og tímaáætlun - 2016090029

Kynnt drög að teikningum vegna lengingar Sundabakka og minnisblað Kjartans Elíassonar, f.h. hafnadeildar Vegagerðarinnar, dagsett 15. mars 2021, vegna aukakostnaðar á upptökudokk. Einnig er tiltekið í bréfinu áætlun um tímaramma verkefnisins.
Hafnarstjóri kynnir stöðu máls vegna aukakostnaðar á upptökudokk við Sundabakka á Ísafirði.

Hafnarstjórn leggur til að farið verði í verkþátt tvö samkvæmt tillögu í minnisblaði og vísar málinu til bæjarráðs til samþykktar.

3.Sundabakki - framkvæmdir: Fundargerðir verkfunda - 2016090029

Kynntar fundargerðir fyrsta verkfundar, dags. 16. febrúar 2021, og annars verkfundar, dags 8. mars 2021, vegna fyrirstöðugarðs á Sundabakka.
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

4.Flateyrarhöfn - botnlag í innsiglingu - 2021030103

Lagt fram minnisblað Guðmundar M. Kristjánssonar, hafnarstjóra, dags. 22. mars 2021, varðandi ástand í Flateyrarhöfn þar sem virðist vera að breyting hafi orðið á botnlagi í innsiglingu.
Hafnarstjórn samþykkir að botnlag hafnarinnar á Flateyri verði kannað.

5.Hafnasamband Íslands - ýmis erindi og fundargerðir 2021-2022: Úrgangsmál - 2021020042

Lagt fram bréf frá Lúðvík Geirssyni, formanni Hafnasambands Íslands, dagsett 5. mars 2021, er varðar móttökuskyldu hafna á úrgangi frá skipum. Í bréfinu er því beint til hafna að gera átak í að taka á móti flokkuðum úrgangi verði því viðkomið.
Lagt fram til kynningar.

6.Hafnasamband Íslands - ýmis erindi og fundargerðir 2021-2022: Drög að ársreikningi 2020 - 2021020042

Kynnt drög að ársreikningi Hafnasambands Íslands fyrir árið 2020.
Drög að ársreikningi Hafnasambands Íslands lögð fram til kynningar.

7.Hafnasamband Íslands - ýmis erindi og fundargerðir 2021-2022 - 2021020042

Lagðar fram til kynningar fundargerðir 432. og 433. funda Hafnasambands Íslands er fram fóru 19. febrúar 2021 og 19. mars 2021.
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.

8.Frumvörp og þingsályktunartillögur til umsagnar 2021 - 2021010023

Á 1143. fundi bæjarráðs, þann 1. mars 2021 var laður fram tölvupóstur Sigrúnar Helgu Sigurjónsdóttur, f.h. nefndasviðs Alþingis, dags. 23. febrúar 2021, þar sem Ísafjarðarbæ er sent til umsagnar frumvarp til laga um hafnalög (EES-reglur, gjaldtaka, rafræn vöktun), 509. mál. Umsagnarfrestur er til 9. mars. Bæjarráð vísaði málinu til hafnarstjórnar.
Hafnarstjórn tekur undir umsögn sem lögð var fram af Hafnasambandi Íslands, Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem er svohljóðandi:

„Vísað er til tölvupósts frá nefndarsviði Alþingis, dags. 23. febrúar sl. þar sem óskað er eftir umsögn um frumvarp til laga um hafnalög. Umsögn þessi er unnin í samvinnu við Hafnasamband Íslands og Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og lögð fram í nafni þeirra og sambandsins.

Markmið frumvarpsins er að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um að setja ramma um veitingu hafnarþjónustu og reglur um gagnsæi í fjármálum fyrir hafnir. Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um rafræna vöktun í höfnum og eldisgjald, þ.e. gjald sem tekið er fyrir eldisfisk í sjókvíum, þm.t. eldisseiði, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum.

Rafræn vöktun
Sambandið leggur mikla áherslu á að lögfest verði heimild til rafrænnar vöktunar og miðlunar þeirra gagna til notenda hafna, í rauntíma, á opnu vefsvæði enda eru notendur hafna óskilgreindur hópur líkt og vegfarendur. Um mikilvægt öryggisatriði er að ræða svo notendur hafna geti fylgst með bæði sínum skipum og aðstæðum í höfnum hverju sinni.

Hafnir innan samevrópska flutninganetsins.
Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að kæra gjaldskrárákvarðanir hafna innan samevrópska flutninganetsins ásamt því sem auknar kröfur eru lagðar á þær hafnir um samráð við notendur. Er því um íþyngjandi ákvæði að ræða fyrir umræddar hafnir en erfitt er að meta áhrifin að fullu þar til ákvæðin hafa verið útfærð í reglugerð. Sambandið ítrekar mikilvægi þess að reglugerðin sé samin í samráði við viðkomandi hafnir þannig að útfærslan sé hagkvæm og einföld í framkvæmd.

Eldisgjald
Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um eldisgjald af eldisfiski í sjókvíum, þ.m.t. eldisseiði, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum. Sambandið, Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og Hafnasamband Íslands leggja mikla áherslu á að 3. gr. verði breytt og að aflagjald verði lagt á eldisfisk og eldisseiði en ekki umrætt eldisgjald. Samkvæmt e. lið 17. gr. hafnalaga skal greiða aflagjald af sjávarafurðum sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfnum. Er í raun mun einfaldara og eðlilegra í framkvæmd að aflagjald sé lagt á allar sjávarafurðir hvort sem um er að ræða sjávarafla beint úr sjó eða eldisfisk í sjókvíum og eldisseiði enda ljóst að um sjávarafurðir er að ræða og að mörgu leyti sambærilega þjónustu hafna. Einnig er það betra út frá samkeppnissjónarmiðum að sjávarafurðir greiði sambærileg gjöld. Mikilvægt er að hafa í huga að þegar aflagjald var tekið upp á sínum tíma þótti það mikill kostur að greiðslur atvinnulífsins til hafna væru beintengt heildaraflaverðmæti afla því það myndi búa til betri rekstraraðstæður þar sem aðstæður á markaði lækka aflagjald eða hækka eftir því markaðsverði. Engin rök hafa komið fram er styðja við að annars konar gjald eigi að vera til staðar fyrir eldisfisk og eldisseiði.

Lagt er til að e. liður 17. gr. hafnalaga verði svohljóðandi:

e. Aflagjald af sjávarafurðum, sem umskipað er, lestaðar eru eða losaðar í höfnum. Sé gjaldið innheimt skal það vera minnst 1,25% og mest 3,0% af heildaraflaverðmæti. Þó skal gjaldið vera minnst 0,70% af heildaraflaverðmæti frystra sjávarafurða. Sjávarafurðir eru sjávarafli, þ.e. sjávardýr önnur en spendýr, þ.m.t. skrápdýr, liðdýr og lindýr, eldisfiskur og eldisseiði, sem og matvæli sem eru unnin að öllu leyti eða að hluta úr sjávarafla. Hafnargjald samkvæmt þessum tölulið skal standa undir kostnaði við byggja, reka, viðhalda og endurnýja viðlegumannvirki, dýpkanir og legu í höfn, aðstöðu við bryggjur og á hafnarbakka, hafnarbáta og hafnsögu þar sem það á við. Skipstjóra, útgerðarmanni og eiganda skips eða fiskeldisfyrirtæki ber að greiða til hafnar gjöld skv. a-, c-, d- og e-lið en móttakandi vöru sem kemur til hafnar og sendandi vöru sem flutt er úr höfn greiða gjöld skv. b-lið. Ef margir eiga vörur sem fluttar eru með sama skipi skal farmflytjandi sjá um innheimtu á gjöldum skv. b-lið hjá sendanda og móttakanda, eftir því sem við á, og standa höfn skil á þeim.
Að lokum:
Sambandið, Hafnasamband Íslands og Samtök sjávarútvegssveitarfélaga óska eftir að fá að fylgja umsögn þessari eftir á nefndarfundi.“

9.Gámar og lausafjármunir 2021-22, stöðuleyfi - 2021010022

Á 556. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar, þann 24. mars 2021, var tekin fyrir umsókn Jónu K. Kristinsdóttur f.h. Heiðmýrar ehf. um endurnýjun á stöðuleyfi gáma við Ásgeirsgötu 3, Ásgeirsbakka á Ísafirði. Gámarnir verða notaðir til að girða af lóð skv. umsókn dags. 16. febrúar, 2021.
Skipulags- og mannvirkjanefnd lagði til við byggingafulltrúa að óska eftir útfærslu á varanlegri lausn áður en nýtt stöðuleyfi yrði veitt.

Óskað var eftir umsögn hafnarstjórnar um útgáfu stöðuleyfis þar sem gámurinn er staðsettur á hafnarsvæði.
Hafnarstjórn tekur undir þau sjónarmið að leita eigi að varanlegri lausn áður en nýtt stöðuleyfi verður veitt.

Fundi slitið - kl. 13:02.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?