Bæjarráð - 801. fundur - 1. júlí 2013

Þetta var gert:

1. Fundargerðir nefnda.

Fjallskilanefnd 27/06. 3. fundur.

Fundargerðin er í tveimur liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

Íþrótta- og tómstundanefnd 26/6. 140. fundur.

Fundargerðin er í fjórum liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

Nefnd um sorpmál 26/06. 25. fundur.

Fundargerðin er í þremur liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

2.  Minnisblað íþróttafulltrúa. – Kaup á teppaflísum fyrir íþróttahúsið á Torfnesi. 2013-06-0061.

Lagt fram minnisblað Patreks Súna Reehaug, dagsett 27. júní sl., um kaup á teppaflísum fyrir íþróttahúsið á Torfnesi. Kostnaður vegna flísakaupa fyrir allt húsið er meiri en gert var ráð fyrir á fjárhagsáætlun.

Í trausti þess að teppaflísar verði komnar í tæka tíð og að tryggt verði að umgengni og salernisaðstaða verði fullnægjandi, samþykkir bæjarráð að heimila útleigu hússins um verslunarmannahelgina.

 

3. Minnisblað sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs. – Ráðningar stuðningsfulltrúa og þroskaþjálfa við Grunnskólann á Ísafirði skólaárið 2013-2014. 2011-12-0044.

Lagt fram minnisblað Margrétar Halldórsdóttur, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs, um ráðningar stuðningsfulltrúa og þroskaþjálfa við Grunnskólann á Ísafirði á næsta skólaári, vegna þarfar á stuðningi við nemendur með frávik.

Bæjarráð samþykkir tillögur sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs um ráðningar í GÍ.

 

4. Minnisblað upplýsingafulltrúa. – Heimsókn frá Kaufering í Þýskalandi. 2012-07-0022.

Lagt fram minnisblað Hálfdáns Bjarka Hálfdánssonar, upplýsingafulltrúa, dagsett 21. júní sl., þar sem hann upplýsir að borist hafi tölvupóstur frá Eric Püttner, bæjarstjóra Kaufering í Þýskalandi, þar sem lýst er yfir áhuga á að senda hóp gesta til Ísafjarðar í nóvember næstkomandi. Upplýsingafulltrúi óskar eftir afstöðu bæjarráðs til erindisins. Erindið var áður á dagskrá bæjarráðs 24. júní sl.

Bæjarráð samþykkir að koma á sambandi milli Kaufering og Ísafjarðarbæjar.

 

5. Minnisblað skóla- og sérkennslufulltrúa. – Norrænt vinabæjarmót, viðauki við fjárhagsáætlun. 2013-03-0035.

Lagt fram minnisblað Sigurlínu Jónasdóttur, skóla- og sérkennslufulltrúa, dagsett 20. júní 2013 sl., um norrænt vinabæjarmót í Joensuu í Finnlandi. Vegna mikils ferðakostnaðar dugar áætlað fjármagn á fjárhagsáætlun ekki fyrir öllum kostnaði. Viðauki við fjárhagsáætlun fylgir erindinu.

Bæjarráð samþykkir erindið.

 

6. Starfsmannamál. – Ráðning mannauðsstjóra. 2013-06-0038.

Umræður um nýja stöðu mannauðsstjóra Ísafjarðarbæjar.

Kristján Andri Guðjónsson vill láta bóka óánægju sína með að auglýsing um stöðu mannauðsstjóra hafi farið út áður en ákveðið var hvort staðan ætti að vera 50% eða 100%.

 

Ákvörðun bæjarstjórnar um 50% starf mannauðsstjóra lá fyrir þegar umrædd auglýsing var birt. Í auglýsingu er reyndar ekki getið um starfshlutfall þó svo að bæjarráðsfulltrúar hafi verið sammála um það á síðasta fundi bæjarráðs að réttara væri að ráða í heilt stöðugildi. Það er því tímabært og eðlilegt að taka nú formlega ákvörðun um 100% starf mannauðsstjóra.

 

Bæjarráð samþykkir að ráða mannauðsstjóra í 100% starf.

 

7.  Kynning innheimtufulltrúa. – Staða innheimtumála hjá Ísafjarðarbæ. 2012-02-0032.

Magnús Þór Bjarnason, innheimtufulltrúi, mætir til fundar undir þessum lið.

Magnús Þór Bjarnason, innheimtufulltrúi, fer yfir stöðuna í innheimtumálum hjá Ísafjarðarbæ.

Bæjarráð þakkar innheimtufulltrúa fyrir upplýsingarnar.

 

8. Leikskóladeild fyrir 5 ára börn á 2. hæð Sundhallar. – Teikningar af skólalóð. 2013-01-0070 / 2012-03-0090.

Jóhann Birkir Helgason, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, mætti til fundar undir þessum lið dagskrár.

Lagðar fram teikningar, unnar af Teiknistofunni Eik, með tillögum að útliti skólalóðar á Austurvegi, milli Sundhallar og Grunnskóla Ísafjarðar.

 

Kristján Andri Guðjónsson vill láta bóka að skólalóðin hefði mátt vera stærri en lýsir ánægju sinni með að hliðið á Austurvegi verði áfram til að tryggja öryggi barnanna.

 

Bæjarráð samþykkir teikningarnar og felur sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að koma með verkáætlun og kostnaðaráætlun framkvæmdanna fyrir næsta fund bæjarráðs.

 

9. Bréf Fjórðungssambands Vestfirðinga. – Boð á 58. Fjórðungsþing Vestfirðinga. 2013-06-0079.

Lagður fram tölvupóstur Díönu Jóhannsdóttur f.h. Fjórðungssambands Vestfirðinga, dagsettur 24. Júní sl., þar sem boðið er til 58. Fjórðungsþings Vestfirðinga, sem haldið verður í Árneshreppi 30.- 31. ágúst næstkomandi. Meðfylgjandi eru drög að dagskrá þingsins.

Lagt fram til kynningar.

 

10. Fundargerðir stjórnarfunda Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Lagðar fram fundargerðir stjórnarfunda Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 7. júní og 20. júní sl.

Lagt fram til kynningar.

 

11. Bréf Femínistafélags Vestfjarða. – Áskorun um úttekt á kynbundnum launamun. 2013-06-0101.

Lagður fram tölvupóstur Hrafnhildar Hrannar Óðinsdóttur f.h. Femínistafélags Vestfjarða, dagsettur 20. júní sl., þar sem skorað er á sveitarfélög á Vestfjörðum að gera innri úttekt á kynbundnum launamun og jafnframt að gera viðeigandi úrbætur ef slíkur launamunur er til staðar.

Fé var lagt til þessa verkefnis á síðustu fjárhagsáætlun og málið er í vinnslu á fjölskyldusviði Ísafjarðarbæjar. Bæjarstjóri mun fylgja verkefninu eftir.

 

12. Bréf Laufeyjar Eyþórsdóttur. – Ósk um að nota byggðamerki Ísafjarðarbæjar á minjagripi. 2013-06-0096.

Lagt fram bréf Laufeyjar Eyþórsdóttur, dagsett 26. júní sl., þar sem hún óskar eftir að fá að nota byggðamerki Ísafjarðarbæjar á minjagripi sem hún hannar sjálf og kallar „flöskuskeyti frá Ísafirði“.

Bæjarráð lýsir ánægju sinni með verkefnið og að uppfylltum reglum um notkun byggðamerkis Ísafjarðarbæjar samþykkir bæjarráð erindið.

 

13. Trúnaðarmál. – Hjúkrunarheimilið Eyri. 2013-01-0055.

Trúnaðarmál rætt og fært til bókar í lausblaðamöppu og skjalakerfi.

 

14. Bréf Kampa ehf. – Rækjuveiðar og framtíðarstjórnun þeirra. 2013-06-0103.

Brynjar Ingason og Jón Guðbjartsson mættu til fundar undir þessum lið dagskrár.

Lagður fram tölvupóstur Brynjars Ingasonar f.h. Kampa ehf. dagsettur 27. júní sl., um ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að stöðva rækjuveiðar frá og með 1. júlí, og þau áhrif sem sú ákvörðun hefur á starfsemi fyrirtækja í rækjuvinnslu. Einnig var rætt um framtíðarstjórnun rækjuveiða.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hvetur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þess að taka tillit til þeirra miklu atvinnuhagsmuna sem í húfi eru í Ísafjarðarbæ við ákvörðun um framhald úthafsrækjuveiða. Öllum má vera ljóst það mikilvæga hlutverk sem sjávarútvegur hefur á Vestfjörðum. Um 120 störf eru í hættu í Ísafjarðarbæ ef ekki verður vandað til þeirrar ákvörðunar sem nú stendur fyrir dyrum varðandi veiðar á úthafsrækju. Erfiðleikar á Vestfjörðum undanfarna áratugi, staða byggðamála á svæðinu og stefna ríkisstjórnarinnar þar að lútandi skv. stjórnarsáttmálanum vekja vonir um að tekið verði tillit til þessara ríku hagsmuna Ísafjarðarbæjar.

Fram hefur komið í viðræðum bæjaryfirvalda við forsvarsmenn rækjuvinnslunnar í Ísafjarðarbæ að rannsóknir á úthafsrækjustofninum séu langt frá því að vera fullnægjandi og forsendur því hæpnar til þess að stöðva veiðar núna eða byggja ákvarðanir um veiðiráðgjöf á grunni þeirra. Bæjarráð hvetur til að þessar rannsóknir verði stórefldar þannig að ákvarðanir um veiðiheimildir verði byggðar á nýjum og traustum gögnum og að viðurkenning erlendra kaupenda fáist á sjálfbærni veiðanna.

Nokkrar leiðir eru hugsanlegar til að útdeila þeim gæðum sem um ræðir þó vissulega séu þær misfærar og einhverjar kalli á lagabreytingar.

  • Við óbreytt ástand væru veiðarnar áfram frjálsar en bent hefur verið á að slíkt fyrirkomulag geri markaðssetningu erfiða og geti lækkað söluverð á afurðum.
  • Einfaldasta leiðin til breytingar og sú sem kveðið er á um í 9. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða gerir ráð fyrir að úthlutað verði miðað við veiðireynslu síðustu 3ja ára.
  • Ef færð verða rök fyrir því að sú lagagrein eigi ekki við í þessu tilfelli má hugsa sér að aflahlutdeildum verði úthlutað með reglubundnum uppboðum og að almenna og sérstaka veiðigjaldið verði þá á móti fellt niður af úthafsrækjuveiðum.
  • Þriðja leiðin til að breyta núverandi fyrirkomulagi er að aflahlutdeildum verði úthlutað á vinnslustöðvar, en slíkt gæti leitt til aukins öryggis í byggðalegu sjónarmiði.

Sú leið hefur verið nefnd að úthluta heimildunum til þeirra sem höfðu aflahlutdeild í úthafsrækju á árum áður, fyrir viðmiðunartímabilið. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar mótmælir þeirri aðferð, enda mun hún stefna fjölda starfa í sveitarfélaginu í tvísýnu.

Ísafirði, 1. júlí 2013.

 

Fleira ekki gert, fundargerð upp lesin og undirrituð. Fundi slitið kl. 10:33.

 

Hjördís Þráinsdóttir, skjalastjóri.

Gísli H. Halldórsson, formaður.

Kristján Andri Guðjónsson.                                                        

Albertína Elíasdóttir.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?