Bæjarstjórn

410. fundur 14. desember 2017 kl. 17:00 - 17:00 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
 • Nanný Arna Guðmundsdóttir forseti
 • Kristján Andri Guðjónsson aðalmaður
 • Jónas Þór Birgisson aðalmaður
 • Arna Lára Jónsdóttir aðalmaður
 • Daníel Jakobsson aðalmaður
 • Marzellíus Sveinbjörnsson aðalmaður
 • Sigurður Jón Hreinsson aðalmaður
 • Kristín Hálfdánsdóttir aðalmaður
 • Gunnhildur Björk Elíasdóttir aðalmaður
Starfsmenn
 • Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri
 • Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
Dagskrá

1.Sameining grunn- og leikskóla á Flateyri - 2016110039

Tillaga 998. fundar bæjarráðs frá 11. desember sl. um að leikskólinn og grunnskólinn á Flateyri verði sameinaðir að ósk starfshóps um skólamál á Flateyri.
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti og Kristján Andri Guðjónsson.

Kristján Andri Guðjónsson leysir forseta af er hún tekur til máls.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

2.Byggðasamlag Vestfjarða - þjónustusamningur og samstarfssamningur - endurskoðun 2016 - 2016100073

Tillaga Í-lista og B-lista að ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Ísafjarðarbær segir sig hér með úr Byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks á Vestfjörðum (BsVest).
Frá árinu 2014 hefur farið fram umfangsmikil vinna af hálfu Ísafjarðarbæjar og eftir atvikum BsVest að bæta starf og umgjörð málaflokksins og auka árangur í rekstri og þjónustu. Þessari viðleitni hefur verið framhaldið af Ísafjarðarbæ síðastliðið ár, í samráði við önnur sveitarfélög í BsVest, með mótun tillögu um að Ísafjarðarbær gerist leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks. Markmiðið með tillögunni var að búa til sterkari fagleg teymi, spara í stjórnunarkostnaði og þjónusta notendur betur fyrir sama fé. Tillagan hefur verið kynnt öðrum sveitarfélögum og fengið töluverða umfjöllun, auk þess sem um hana var rætt á sérstöku málþingi fyrr í þessum mánuði. Það voru því töluverð vonbrigði fyrir Ísafjarðarbæ að önnur sveitarfélög á Vestfjörðum væru enn ekki tilbúin að fara þessa vegferð leiðandi sveitarfélags, ekki síst vegna þess ávinnings sem sú leið hefur í för með sér fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Það er sannfæring bæjarstjórnar Ísafjarðabæjar að málaflokknum verði betur fyrir komið með umræddu fyrirkomulagi og því er rétt að Ísafjarðarbær segi sig úr BsVest og undirbúi að taka rekstur málaflokksins að öllu leiti í eigin hendur.
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Jónas Þór Birgisson, Kristín Hálfdánsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Gunnhildur Elíasdóttir, Daníel Jakobsson og Sigurður Hreinsson.

Kristján Andri Guðjónsson leysir forseta af í fjarveru forseta.

Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, leggur fram eftirfarandi breytingartillögu Í-lista og B-lista:

"Ísafjarðarbær segir sig hér með úr Byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks á Vestfjörðum (Bsvest). Jafnframt óskar Ísafjarðarbær eftir áframhaldandi samstarfi við sveitarfélög á Vestfjörðum, utan BsVest, um málefni fatlaðs fólks þar sem horft verði til þess að ná enn betri árangri og þjónustu í þessum umfangsmikla málaflokki.
Frá árinu 2014 hefur farið fram umfangsmikil vinna af hálfu Ísafjarðarbæjar og eftir atvikum BsVest að bæta starf og umgjörð málaflokksins og auka árangur í rekstri og þjónustu. Þessari viðleitni hefur verið framhaldið af Ísafjarðarbæ síðastliðið ár, í samráði við önnur sveitarfélög í BsVest, með mótun tillögu um að Ísafjarðarbær gerist leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðs fólks. Markmiðið með tillögunni var að búa til sterkari fagleg teymi, spara í stjórnunarkostnaði og þjónusta notendur betur fyrir sama fé. Tillagan hefur verið kynnt öðrum sveitarfélögum og fengið töluverða umfjöllun, auk þess sem um hana var rætt á sérstöku málþingi fyrr í þessum mánuði. Það voru því töluverð vonbrigði fyrir Ísafjarðarbæ að önnur sveitarfélög á Vestfjörðum væru enn ekki tilbúin að fara þessa vegferð leiðandi sveitarfélags, ekki síst vegna þess ávinnings sem sú leið hefur í för með sér fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Það er sannfæring bæjarstjórnar Ísafjarðabæjar að málaflokknum verði betur fyrir komið með umræddu fyrirkomulagi og því er rétt að Ísafjarðarbær segi sig úr BsVest og undirbúi að taka rekstur málaflokksins að öllu leiti í eigin hendur.
Samkvæmt 12. grein samþykkta BsVest tekur úrsögn gildi þarnæstu áramót eftir að úrsögn hefur löglega borist. Túlka má 12. grein þannig að úrsögn þurfi að berast aðalfundi BsVest áður en hún telst hafa löglega borist og þannig er líklegt að Ísafjarðarbær verði áfram aðili að BsVest til a.m.k. ársloka 2019 ef ekki semst um annað milli aðildarsveitarfélaganna."

Jónas Þór Birgisson, Kristín Hálfdánsdóttir og Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn, leggja fram eftirfarandi bókun:
"Undirritaðir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa verið talsmenn þess, allt frá stofnun Byggðasamlags um málefni fatlaðs fólks, að rétt sé að endurskoða fyrirkomulag þjónustu við fatlað fólk á Vestfjörðum. Að okkar mati er stjórnunin óskilvirk og boðleiðir eru of langar. Jafnframt fer of mikið af fjármunum í stjórnun sem nýta mætti þjónustuþegum til bóta.
Undirrituð geta hinsvegar ekki stutt þá vegferð sem fulltrúar Í- og B-lista ætla í með að hóta úrsögn úr umræddu Byggðasamlagi. Því umrædd tillaga er ekkert annað en hótun enda segir í minnisblaði bæjarstjóra, með leyfi forseta.
Gera má ráð fyrir að ætli Ísafjarðarbær að sjá um þessa þjónustu einn og sér muni umfang hennar minnka um þriðjung frá því sem nú er. Það mun því án efa hafa bæði áhrif á fjölda starfa sem sinna þessari þjónustu í Ísafjarðarbæ. Bæði í ráðgjöf og þjónustu. Það gæti leitt til þess að ekki verði hægt að veita jafn góða þjónustu og nú er gert. Ekkert liggur heldur fyrir um fjárhagslegar forsendur þessarar ákvörðunar. Hér er því verið að taka ákvörðun á mjög veikum forsendum.
Það fylgir því ábyrgð að vera stærsta sveitarfélagið á Vestfjörðum og eitt þeirra verkefna sem stærri sveitarfélög eiga að taka að sér er að leiða verkefni innan Vestfjarða öllum íbúum svæðisins til heilla. Það er ekki hægt að leiða verkefni án þess að njóta trausts. Úrsögn úr þessu stærsta samstarfsverkefni sveitarfélaga á Vestfjörðum er til þess fallið að rýra traust okkar meðal annarra sveitarfélaga okkar. Við hvetjum meirihluta Ísafjarðarbæjar og fulltrúa B lista til að leggja tillögu um úrsögn úr BsVest til hliðar og verða hið leiðandi sveitarfélag með því að öðlast traust og vinna málinu framgangs með samræðum og samstarfi. Það er ekki þess virði að ná sínum sjónarmiðum fram með hótunum og yfirgangi."

Forseti ber breytingar tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 6-3.
Jónas Þór Birgisson, Kristín Hálfdánsdóttir og Daníel Jakobsson greiddu atkvæði á móti tillögunni.

3.Innfjarðarrækjuveiðar - 2017120032

Sigurður Jón Hreinsson, bæjarfulltrúi Í-listans, leggur fram eftirfarandi tillögu:.
„Tillaga að ályktun Bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar mótmælir harðlega vinnubrögðum Hafrannsóknarstofnunar við rækjurannsóknir við Ísland undanfarin ár, veiðiráðgjöf stofnunarinnar og þeirri tillögu Hafrannsóknarstofnunar að rækjuveiðar verði bannaðar í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði, vertíðina 2017-2018.
Augljóst er að árangur Hafró í veiðiráðgjöf á rækjustofnum umhverfis Ísland er víðsfjarri markmiðum laga nr 116/2006 um stjórn fiskveiða, þ.e. að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.
Síðast þegar rækjuveiðar voru bannaðar í Ísafjarðardjúpi stóð það bann í 9 ár. Vert er að minnast þess að Arnarfjörður og Ísafjarðardjúp eru síðustu tvö innfjarðarrækjusvæðin sem nýtt eru við Ísland, af átta skilgreindum innfjarðarrækjustofnum við landið. Alger friðun á hinum svæðunum sex, í hart nær tvo áratugi, hefur að mati stofnunarinnar engum árangri skilað í uppbyggingu rækjustofnanna en hinsvegar algerlega rústað atvinnugreininni á viðkomandi svæðum.
Rækjuveiðar og vinnsla hefur verið alvöru atvinnugrein við Ísafjarðardjúp frá árinu 1935. Rækjuafli á ári úr Ísafjarðardjúpi hefur iðulega verið á bilinu 1700-2500 tonn og farið upp í 3000 tonn. Það er því grafalvarlegt að fiskifræðingar hafi ákveðið án nokkurs samráðs við sjómenn að lækka veiðivísitöluna um helming fyrir nokkrum árum og ætla núna án nokkurs samtals við þá sem atvinnu hafa af veiðunum og þekkja svæðið lang best, að leggja til veiðibann veturin 2017-2018. Það er skammarlegt að stofnun sem hefur svotil engan metnað lagt í rannsóknir á rækjustofninum og áhrif veiða á stofninn, sýni sjómönnum þvílíka lítilsvirðingu og skilningsleysi.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir sig tilbúna til að hlutast til um að stjórnun rækjuveiða á grunnslóð verði tekin yfir af heimamönnum, í samvinnu sveitarfélaganna og sjómanna á viðkomandi svæðum.“

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Sigurður Hreinsson, Daníel Jakobsson, Kristján Andri Guðjónsson, Arna Lára Jónsdóttir og Jónas Þór Birgisson.

Kristján Andri Guðjónsson leysir forseta af meðan hún tekur til máls.

Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, leggur fram eftirfarandi breytingatillögu:
„Rækjuveiðar og vinnsla hafa verið stundaðar við Ísafjarðardjúp frá árinu 1935 og skipta samfélagið hér miklu máli. Árlegur rækjuafli úr Ísafjarðardjúpi hefur iðulega verið á bilinu 1700-2500 tonn og farið upp í 3000 tonn. Það er því grafalvarlegt mál fyrir samfélagið hér að ákveðið hafi verið að rækjuveiðar verði bannaðar í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði, vertíðina 2017-2018.
Síðast þegar rækjuveiðar voru bannaðar í Ísafjarðardjúpi stóð það bann í 9 ár. Vert er að minnast þess að Arnarfjörður og Ísafjarðardjúp eru síðustu tvö innfjarðarrækjusvæðin sem nýtt eru við Ísland, af átta skilgreindum innfjarðarrækjustofnum við landið. Alger friðun á hinum svæðunum sex, í hart nær tvo áratugi, hefur engum árangri skilað í uppbyggingu rækjustofnanna en er hinsvegar á góðri leið með að gera út af við atvinnugreinina á viðkomandi svæðum.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hvetur ríkisstjórn Íslands til að tryggja Hafrannsóknarstofnun fjármagn til að efla rækjurannsóknir við Ísland og Ísafjarðardjúp sérstaklega til að skilja megi til hlýtar ástæður lítillar nýliðunar. Umrædd atvinnugrein skiptir miklu máli fyrir samfélagið við Djúp og því mikilvægt að vandað sé til verka með það að markmiði að hægt sé að stunda sjálfbærar veiðar í atvinnuskyni.“

Forseti ber breytingartillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

4.Greiðslur til bæjarfulltrúa og nefndarmanna - 2013020002

Forseti leggur fram eftirfarandi tillögu um greiðslur til bæjarfulltrúa og nefndarmanna Ísafjarðarbæjar:

„Greiðslur til bæjarfulltrúa fyrir setu á fundum hækki sem samsvarar launavísitölu frá 1. júní 2016 til 1. október 2017 eða 8,5% hækkun. Fastar greiðslur til bæjarfulltrúa á mánuði hækki um 23,5%.
Enn fremur er lagt til að greiðslur til bæjarfulltrúa verði ekki lengur tengdar þingfararkaupi. Greiðslur verði miðaðar við fasta fjárhæð sem skuli endurreiknuð 1. janúar ár hvert, fyrst 1. janúar 2019, í samræmi við launavísitölu. Launavísitalan í október 2017, 630,7, skal notað sem grunngildi útreikninganna.“
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

6.Fjárhagsáætlun 2018 - 2017020049

Tillaga að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar 2018, ásamt fjárfestingaráætlun og greinargerð lögð fram til síðari umræðu.
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Daníel Jakobsson, Arna Lára Jónsdóttir, Marzellíus Sveinbjörnsson, Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Jónas Þór Birgisson og Kristján Andri Guðjónsson.

Daníel Jakobsson leggur fram breytingartillögu á fjögurra ára fjárfestingaráætlun um að fjárfestingar verði lækkaðar í fjárfestingaráætlun eins og hér segir:
2018 verði fjárfest fyrir 683 milljónir króna
2019 verði fjárfest fyrir 619 milljónir króna
2020 verði fjárfest fyrir 646 milljónir króna
2021 verði fjárfest fyrir 610 milljónir króna
2022 verði fjárfest fyrir 604 milljónir króna

Í samræmi við fylgiskjal sem lagt var fram á fundinum.

Forseti ber breytingatillögu Daníels Jakobssonar upp til atkvæða.

Tillagan felld 6-3.

Á móti voru Nanný Arna Guðmundsdóttir, Arna Lára Jónsdótir, Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Kristján Andri Guðjónsson, Sigurður Jón Hreinsson og Marzellíus Sveinbjörnsson.

Arna Lára Jónsdóttir gerir grein fyrir atkvæði sínu og leggur fram eftirfarandi bókun:
„Betur hefði farið á því að þessi tillaga um fjárfestingar Ísafjarðarbæjar hefði komið fram í vor á stefnumótunarfundi bæjarstjórnar en ekki nú þegar á fund er komið. Ekki er hægt að gera þá kröfu á bæjarfulltrúa að taka afstöðu til slíkra breytingartillögu með svo skömmum fyrirvara. Samt er gott að sjá að það er lítill sem enginn ágreiningur um þær framkvæmdir sem nauðsynlegt er að fara í.“

Forseti ber tillögu að fjárhagsáætlun 2018 og fjárfestingaáætlun 2018-2022 upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 6-0.

Daníel Jakobsson, Kristín Hálfdánsdóttir og Jónas Þór Birgisson sátu hjá.

7.Atvinnu- og menningarmálanefnd - 140 - 1711031F

Fundargerð 140. fundar atvinnu- og menningarmálanefndar sem haldinn var 4. desember sl. Fundargerðin er í 3 liðum.
Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

8.Bæjarráð - 997 - 1712001F

Fundargerð 997. fundar bæjarráðs sem haldinn var 4. desember sl. Fundargerðin er í 16 liðum.
Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

9.Bæjarráð - 998 - 1712006F

Fundargerð 998. fundar bæjarráðs sem haldinn var 11. desember sl. Fundargerðin er í 21 lið.
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Daníel Jakobsson, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Marzellíus Sveinbjörnsson, Jónas Þór Birgisson, Arna Lára Jónsdóttir og Kristján Andri Guðjónsson.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

10.Félagsmálanefnd - 422 - 1711025F

Fundargerð 422. fundar félagsmálanefndar sem haldinn var 28. nóvember sl. Fundargerðin er í 5 liðum.
Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

11.Fræðslunefnd - 385 - 1712003F

Fundargerð 385. fundar fræðslunefndar sem haldinn var 7. desember sl. Fundargerðin er í 4 liðum.
Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

12.Íþrótta- og tómstundanefnd - 181 - 1711027F

Fundargerð 181. fundar íþrótta- og tómstundanefndar sem haldinn var 6. desember sl. Fundargerðin er í 4 liðum.
Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

13.Skipulags- og mannvirkjanefnd - 489 - 1711029F

Fundargerð 489. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar sem haldinn var 6. desember sl. Fundargerðin er í 5 liðum.
Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

14.Ungmennaráð Ísafjarðarbæjar - 2 - 1711028F

Fundargerð 2. fundar ungmennaráðs sem haldinn var 5. desember sl. Fundargerðin er í 2 liðum.
Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

15.Hafnarstræti 11, Flateyri. Sala eignar. - 2017110013

Tillaga 998. fundar bæjarráðs frá 11. desember sl. um að samþykkja tilboð Gunnukaffis ehf. í fasteignina Hafnarstræti 11, Flateyri.
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

16.Viðauki 17 við fjárhagsáætlun 2017 - 2017010064

Tillaga 998. fundar bæjarráðs frá 11. desember sl. um að samþykkja viðauka 17 við fjárhagsáætlun.
Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

17.Innheimtureglur leikskóla Ísafjarðarbæjar - 2017110028

Tillaga 997. fundar bæjarráðs frá 4. desember sl., um að samþykkja innheimtureglur leikskóla Ísafjarðarbæjar.
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti og Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

18.Byggðakvóti fiskveiðiárið 2017/2018 - 2017090050

Tillögur að sérreglum fyrir Ísafjarðarbæ varðandi úthlutun byggðakvóta í Ísafjarðarbæ.
Gísli H. Halldórsson leggur fram eftirfarandi tillögu Ísafjarðarbæjar:
"Ákvæði reglugerðar nr. 604/2017 gilda um úthlutun byggðakvóta Ísafjarðar, Hnífsdals, Þingeyrar, Flateyrar og Suðureyrar með eftirfarandi viðauka/breytingum:
a) Ákvæði a-liðar 1. gr. breytist og verður: Hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, eða frístundaveiðileyfi skv. 2. tl. 4. mgr. 6. gr. sömu laga, við lok umsóknarfrests.

b) Ákvæði c-liðar 1. gr. breytist og verður: Eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í sveitarfélaginu 1. júlí 2017.

c) Ákvæði 1. málsl. 1. og 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar breytist og verður: Skipting þess afla-marks, sem nú kemur í hlut byggðarlags, auk þess aflamarks byggðarlagsins sem kann að vera eftir af úthlutun fyrra fiskveiðiárs, skal að öðru leyti fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði 1. gr., sbr. reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið staðfestir samkvæmt 2.-3. gr., eftir því sem við á, og skal fyrst úthluta bátum með frístundaleyfi sbr. a-lið, 1 þorskígildistonni á bát, 40% af því sem eftir stendur skal skipt jafnt milli annarra skipa, þó ekki meira, í þorskígildum talið, en viðkomandi bátur landaði á fiskveiðiárinu 2016/2017, afganginum skal skipt hlutfallslega, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið, sem landað var innan sveitarfélagsins á tímabilinu 1. september 2016 til 31. ágúst 2017.
Afli af fiskiskipum sem landað er í sveitarfélaginu af bátum sem ekki eru skráðir innan sveitarfélagsins, telst ekki til landaðs afla samkvæmt 1. mgr.

d) Ákvæði 1. málsliðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist og verður þannig: Fiskiskipum er skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2018, Ísafjarðarbær getur þó heimilað að aflanum sé landað innan sveitarfélags með áritun á umsókn viðkomandi um byggðakvóta."

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri, Daníel Jakobsson og Kristján Andri Guðjónsson.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

19.Ný persónuverndarlöggjöf 2018 - 2017050126

Tillaga 998. fundar bæjarráðs frá 11. desember sl., að eftirfarandi tillögu sem er áskorun til Sambands íslenskra sveitarfélaga:

"Í maí 2018 er áætlað að ný persónuverndarlöggjöf (GDPR) taki gildi á Íslandi þegar reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd leysir af hólmi núgildandi Evrópulög. Öll sveitarfélög þurfa fylgja nýjum lögum sem hafa í för með sér umtalsverðar breytingar frá núverandi löggjöf.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar skorar á Samband íslenskra sveitarfélaga að standa að innleiðingunni með sveitarfélögunum svo að vinnubrögð verði sambærileg og samræmis sé gætt á meðferð persónuupplýsinga meðal sveitarfélaga, til að tryggja gagnsæi og rétt íbúa landsins. Hægt væri að gera þetta m.a. með því að
- útbúa fyrirmyndir að öllum vinnsluskrám, sem gera má ráð fyrir að verði að mestu leyti eins hjá öllum sveitarfélögum vegna þeirra verkefna sem þau sinna,
- útbúa fyrirmyndir að vinnslusamningum,
- útbúa fyrirmynd að upplýstu samþykki, ákveða orðalag, afturköllun samþykkis og í hvaða tilvikum þarf upplýst samþykki
- samræma vinnubrögð opinberra skjalasafna."
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, og Daníel Jakobsson.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

20.Vistaskipti listamanna í Ísafjarðarbæ og Linköping - 2017030081

Tillaga 998. fundar bæjarráðs frá 11. desember sl., um að samþykkja tillögu atvinnu- og menningarmálanefndar um styrk að upphæð kr. 500.000,- vegna vistaskipta listamanna í Ísafjarðarbæ og Linköping á árinu 2019.
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, og Arna Lára Jónsdóttir.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 6-0.
Jónas Þór Birgisson, Kristín Hálfdánsdóttir og Daníel Jakobsson sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

21.Breyting á nafni fjölskyldusviðs - 2017110070

Tillaga 422. fundar félagsmálanefndar frá 28. nóvember sl., um að nafni fjölskyldusviðs verði breytt í velferðarsvið. Jafnframt leggur nefndin til að nafni hennar verði breytt úr félagsmálanefnd í velferðarnefnd Ísafjarðarbæjar.
Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti og Gunnhildur Elíasdóttir.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

Fundi slitið - kl. 17:00.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?