Vika 3: Dagbók bæjarstjóra 2023

Í heimsókn í Menntaskólanum á Ísafirði.
Í heimsókn í Menntaskólanum á Ísafirði.

Dagbók bæjarstjóra dagana 16.-22. janúar 2023.

Það má segja að vikan hafi verið hálfgerð innivika. Það eru ekki margar vikunar sem ég hef varla farið af skrifstofunni en þetta var ein þeirra.

Ég var svolítið í því að greiða leið fólks í vikunni, eins og svo oft áður. Það er sem betur fer þannig að margir vilja setjast niður með bæjarstjóra og ræða málin.
Það var líka þó nokkuð um fundi. Nefndin um raforkumál og þjóðgarð fundaði á Teams til að skipuleggja vinnuna framundan. Við erum á þeim stað að taka saman þær upplýsingar sem við höfum aflað okkur og móta tillögur, en við erum komin með nokkuð góða mynd af stöðunni.

Ég átti fund í Menntaskólanum með Heiðrúnu skólameistara, Hildi aðstoðarskólameistara og Þresti sviðstjóra, auk Gauta og Sirrýjar úr skólanefndinni til að ræða nýtt verknámshús. Uppbygging skólahúsnæðis á framhaldsskólastigi er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga, ríkið borgar 60% og sveitarfélögin á Vestfjörðum reiða svo fram hin 40%. Komin er mikil þörf á nýju verknámshúsi og er hluti af iðngreinum kenndur í ósamþykktu húsnæði. Á fundinum kom fram að nemendum í iðnnámi er að fjölga í samanburði við bóknám, sem eru góðar fréttir.

Við Bryndís bæjarritari og Edda fjármálastjóri tókum þátt í stjórnsýsluúttekt á Ísafjarðarbæ. Það gekk eftir því sem ég best veit að mestu leyti vel. Við vorum meðal annars spurðar að því hvort Ísafjarðarbær hefði fengið á sig stjórnssýsluákæru á síðasta ári. Því svöruðum við neitandi, sem satt er, en viti menn... eftir hádegi sama daga barst okkur stjórnsýsluákæra vegna reglna um byggðakvóta. Meira um það síðar. Aldrei lognmolla.

Ég sit í verkefnisstjórn nýsköpunar og þróunarverkefna á Flateyri. Umsóknarfrestur rann út 17. janúar sl. og bárust 25 umsóknir. Nú tekur við lestur og mat umsókna. Ég hef góða reynslu af því úr fyrra starfi hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.


Rannveig Jónsdóttir við opnun sýningarinnar Á víð og dreif.

Ég sótti listasýninguna Á víð og dreif sem opnaði í Safnahúsinu á Ísafirði á föstudaginn. Þetta er fyrsta sýning Rannveigar Jónsdóttur sem hóf störf fyrir skömmu hjá Listasafni Ísafjarðar. Safnkostur Listasafnsins er um 180 verk sem mörg hver prýða veggi í opinberum byggingum í Ísafjarðarbæ, til að mynda á bæjarskrifstofunum og í Vestrahúsinu. Verkin hafa hangið á sínum stöðum í tugi ára og eru orðin hluti af hversdagsleikanum. Það var áhugavert að sjá verkin á nýjum stað sem fékk mig til að sjá þau í nýju ljósi. Sýningin samanstendur af sex málverkum eftir þjóðþekkta listamenn síðustu aldar; Jóhannes S. Kjarval, Karl Kvaran, Kristján Davíðsson og Nínu Tryggvadóttur ásamt einum skúlptúr eftir hugmyndalistamanninn Kristján Guðmundsson. Mæli með að kíkja á sýninguna.


Frambjóðendur Í-listans 2014. Sigurður Hafberg er lengst til hægri.


Nemendur við Grunnskóla Önundarfjarðar útbjuggu þetta minningarborð um Sigga Habb.

Við Nanný fórum á Flateyri og fylgdum kærum félaga, Sigga Hafberg, til grafar. Hann var einn af máttarstólpum Flateyrar. Atorkusamur, hugmyndaríkur, bjartsýnn og hvetjandi. Hann bar hag Flateyrar og Önundarfjarðar ávallt fyrir brjósti, allt fram á síðasta dag. Hann var í framboði fyrir Í-listann fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2010 og 2014. Það var gaman að vera í framboði með Sigga enda hafði hann gaman að spá í spilin og spöglera. Siggi sat lengi í hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar auk þess að sinna kjörstjórnarstörfum. Siggi var með sterkan frumkvöðlakraft og var einhvern veginn allt í öllu. Eitt af síðustu verkefnum hans var að koma upp skautasvelli við skólann á Flateyri þar sem hann kenndi til margra ára. Ég heyrði í vikunni að fólk væri farið að kalla svellið Siggasvell, það finnst mér vel til fundið. Siggi skilur eftir sig stórt skarð, og er missir Tobbu og fjölskyldunnar mikill, og samfélagsins alls. Við huggum okkur við minningar um fjölhæfan samfélagsfrumkvöðul og eftirminnilegan mann.