Tónlistarskóli Ísafjarðar er sjötugur í dag

Tónlistarskóli Ísafjarðar er sjötugur í dag, en hann var stofnaður þennan dag árið 1948 fyrir tilstuðlan Tónlistarfélags Ísfjarðar. Helsti hvatamaður að stofnun skólans var Jónas Tómasson, tónskáld, organisti og bóksali, sem hafði áður stofnað fyrsta tónlistarskóla landsins sem starfaði milli 1911 og 1918.

Í tilefni afmælisins verður nemendum boðið til veislu klukkan 17 í dag þar sem þeir æfa saman afmælissöng og hlusta á stutta dagskrá þar sem fram koma kórar skólans. Á morgun verður grunnskólanemendum sem stunda nám við skólann boðið upp á spunagleði í Hömrum, tónleikasal skólans.

Aðal hátíðarhöldin verða síðan á laugardag þegar bæjarbúum, nærsveitamönnum og öllum sem áhuga hafa verður boðið uppá að fagna tímamótunum með nemendum og starfsfólki skólans. Lúðrasveit TÍ mun fara um bæinn og blása inn veisluna, en hátíðarhöldin í Hömrum hefjast klukkan 11.45 með lúðraþyt af svölum Tónlistarskólans. Gestum verður boðið uppá tónlistardagskrá þar sem m.a. verður frumflutt lag TÍ eftir Halldór Smárason við texta Steinþórs B. Kristjánssonar. Fram koma nemendur og kennarar Tónlistarskólans, Kvennakór Ísafjarðar og Sunnukórinn. Opnuð verður sögusýning sem tengist starfi Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarfélag Ísafjarðar síðustu áratugi.

Þeirri dagskrá lýkur klukkan 14.30, en hálftíma síðar hefjast Heimilistónar, þar sem fjölmargir bæjarbúar opna heimili sín milli klukkan 15 og 17 og bjóða uppá tónlistardagskrá heima í stofu. Fram koma nemendur Tónlistarskólans, heimilisfólk og gestir.

Ísafjarðarbær óskar stjórnendum, starfsfólki, nemendum og velunnurum Tónlistarskóla Ísafjarðar hjartanlega til hamingju með afmælið. Megi starfið verða jafn ríkt og gjöfult næstu 70 ár og það hefur verið hingað til.