Hátíðarræða á 17. júní 2022

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, sjúkraþjálfari, fyrrum framkvæmdastjóri HSV og handhafi starfsmerkis UMFÍ flutti hátíðarræðu á Sjúkrahústúninu á 17. júní.

Gleðilega þjóðhátíð, góðir áheyrendur!

„Undir kvöld á sjórinn það til að slétta úr sér eins og hann hafi allt í einu breyst í nýlakkaða borðplötu, og slær á hann glampa af síðustu geislum sólarinnar áður en hún hverfur á bak við fjallsbrúnina. Engin hræring sést lengur á kyrru yfirborðinu nema ef til vill sundrák eftir sjófugl, og annað veifið birtast uppitök fiskanna rétt í svip. Svo dökknar sjávarflöturinn skyndilega um leið og sólin er horfin, og þá glitrar á silfraðar gárur hér og hvar.“

Svona lýsir Njörður P. Njarðvík logninu hér í Skutulsfirði í bók sinni Í flæðarmálinu. Njörður ólst upp hér í firðinum og nær í bókum sínum að koma mjög vel í orð þeirri stemmningu sem býr í náttúrunni í okkar lognkyrra firði í skjóli fjallanna.

Þar sem lognið á lögheimili.

Kyrrð og friður í fallegum firði. Kyrrð og friður í fallegu landi.

Hversu mikill forréttindahópur erum við Ísfirðingar og Íslendingar allir, að búa við aðstæður sem þessar. Því miður eru ekki allir í svo góðri stöðu. Á þessari stundu, árið 2022 geysa stríð. Einræðisherrar, fantar og illmenni svífast einskins fyrir meiri völd og meiri auð. Pissukeppni í veldisvexti, náttúra, mannvirki og mannslíf einskins virði. Þessi kona vestur á Ísafirði getur ekki skilið hvað það er sem knýr valdhafa til að senda þegna sína til nágrannaríkja að drepa menn, konur og börn.

Afleiðingin er hækkað verð á nauðsynjum.

Afleiðingin er fyrirsjáanlegur matvælaskortur í heiminum.

Afleiðingin er fólk á flótta.

Afleiðingin er nístandi sorg, eymd og vonleysi.

Heimsbyggðin fylgist með, vanmáttug og að því er virðist úrræðalaus í að stöðva þessa illsku. Sem betur fer hafa nokkrir stríðshrjáðir einstaklingar fengið skjól hér í faðmi fjalla blárra og er þakkarvert hve fljótt Ísafjarðarbær og sjálfboðaliðar hafa brugðist við og útbúið heimili fyrir flóttafólkið. Vonandi finnur það hér, frið og bata, hvort sem það verður hafið eða fjöllin eða fólkið á þessum stað sem hjálpar og gefur félagslegan og andlegan stuðning. Nærumhverfið er mikilvægt og getur skipt sköpum. Fólkið í kringum okkur og þeirra félagsskapur og úrræði, en einnig andrúmsloftið á staðnum og náttúran í kringum okkur.

Að dveljast út í náttúrunni hefur jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu. Það hafa íslenskar og erlendar rannsóknir sýnt fram á. Við Ísfirðingar búum við einstaka aðstöðu til að fara út í náttúruna að leika, þjóta eða njóta og er gaman að sjá hve bæjarbúar eru duglegir að nýta sér það. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá elsta aldurshópinn ganga um hér á Torfnessvæðinu með sínar göngugrindur og stafi.

Göngustígurinn meðfram hraðbrautinni er mikið notaður af öllum aldurshópum sem og slóðar fyrir ofan eyrina og inn í Tungudal. Einnig er stígurinn hér að norðanverðu skemmtilegur og spennandi viðbót er nýr stígur sem nú er verið að leggja niður á Bökkum. Þar með verður stutt í að göngustígar hringi eyrina og þannig hægt að njóta útsýnis bæði til hafs og fjalla. Það er ekki úr vegi að nota þetta tækifæri og þakka fyrir hve vel Ísafjarðarbær hefur sinnt snjómokstri á helstu göngustígum bæjarins. Það er er þakkarvert því útivera og hreyfing utandyra er ekki síður mikilvæg á veturnar þegar færð getur verið erfið.

En við lifum víst ekki af náttúrunni einni saman, eða hvað?

Nýlega var ég í veislu í höfuðborginni þar sem ég fyrirfram þekkti ekki nema 7 af um 50 gestum. Ítrekað fékk ég spurninguna:

„Og þú býrð á Ísafirði?“ Og ítrekað svaraði ég: „Já já, þar á ég foreldra og bræður, mitt tengdafólk og stóran frændgarð. Það er nú gott að vera innan um fólkið sitt“. Síðar fór ég að velta fyrir mér þessu svari mínu. Hversvegna bý ég á Ísafirði? Er það sem sagt návistin við fjölskylduna sem er mér mikilvægust? En starfið mitt og samstarfsfólkið? Hvað með fjöllin sem mér þykir svo vænt um og elska að þvælast um hvort sem er á skíðum eða fótgangandi. Eða sjóinn sem ég vill helst hafa nærri, aðallega til að horfa á samt. Eflaust er þetta allt samofið, ég deili jú náttúruáhuganum með stórfjölskyldunni.

Þessi þankagangur leiddi hugann að því hvað börnin mín horfa til þegar þau ákveða sína búsetu. Vissulega skiptir atvinna stóru máli. Okkar unga fólk þarf að hafa störf að snúa til þegar þau hafa hleypt heimdraganum og menntað sig. Mögulega hefur covid faraldurinn haft þann jákvæða þátt í för með sér að fyrirtæki og stofnanir sjá að í mörgum störfum þarf búseta nærri vinnustað ekki að vera skilyrði fyrir ráðningu. Margskonar tæknilausnir eiga að gera okkur kleift að búa á Ísafirði þó starfið sé á höfuðborgarsvæðinu eða út í heimi. En það er fleira sem unga fólkið okkar horfir til. Hér þarf einnig að vera húsnæði í boði, knattspyrnuhús, leikskólapláss fyrir börnin og gott mannlíf.

Nú er lag. Svo virðist sem loksins séu Vestfirðir að fá meðbyr. Talað er í milljörðum þegar nefndar eru fjárfestingar í ferðaþjónustu í fjórðungnum. Íbúafjöldi er orðinn stöðugri, gott ef ekki er fjölgun í sumum sveitarfélögum. Okkur vantar fólk í flest störf. Ég vil til dæmis nota tækifærið og auglýsa eftir sjúkraþjálfara, lækni, hjúkrunarfræðingum og ljósmóður. Svona ef þið þekkið mögulega einhverja með náttúruþrá og Ísafjarðarblæti.

Hér er nefnilega nokkuð gott að búa, svona oftast og yfirleitt. Það veit unga fólkið sem hingað flytur til að stunda nám í Háskólasetri Vestfjarða og fyllir þannig að nokkru leiti upp í það skarð sem skapast þegar okkar unga fólk fer burt í leit að námi, reynslu og upplifun. Aðkomnu nemendurnir leggja einnig sitt af mörkum til samfélagsins hér. Vinna á kaffi- og veitingahúsum, skíðasvæðinu og í ferðaþjónustu. Syngja með kórum, stunda íþróttir og styrkja skemmtanalífið. Einhverjir verða eftir og setjast hér að um lengri eða skemmri tíma.

Það er nefnilega sama hvaðan gott kemur.

Ég er líka eilíflega þakklát fyrir það erlendu einstaklinga sem hingað hafa komið og sest að. Þeir auðga og bæta bæjarbraginn með sinni reynslu og sýn. Bara í mínu nánast umhverfi höfum við hann Daníel Badu sem kennir ísfirskum börnum listina að spila fótbolta. Eddu Bangon sem öðrum fremur hefur kynnt okkur fyrir dásemdum tælenskrar matargerðar. Grazynu Wielgosz sem annast mömmu og aðra íbúa Eyrar af einstakri alúð og Beötu Joó, já hvar værum við ef við hefðum ekki fengið hana elsku Beu hingað til okkar?

Mögulega fer nú að verða komið nóg af þessum Ísafjarðarrembingi mínum, en fyrst ég er byrjuð þá er vert að minnast á að líklega á enginn bær í heiminum jafnmarga ólympíufara og við Ísfirðingar – miðað við höfðatölu. En frá ólympíuleikunum í Osló 1952 og til dagsins í dag höfum við átt 21 ólympíufara, nú síðast í febrúar þegar Snorri Einarsson keppti í skíðagöngu á Ólympíuleikunum í Kína. Og við erum með tvo efnilega skíðamenn sem verða að teljast líklegir til að bætast í þennan úrvalshóp með þátttöku á leikunum á Ítalíu 2026.

Og í júlí munum við Ísfirðingar, og Hnífsdælingar, eiga fulltrúa í úrslitum EM í fótbolta sem fram fer í Englandi. Þá mun Guðrún Arnardóttir leika í treyju númer 18 fyrir Íslands hönd. Ég hvet alla til að fylgjast með þeim frábæra íþróttamanni og öðrum íslenskum knattspyrnukonum spila næstkomandi 10., 14. og 18. júlí.

Að öllu sögðu, þá held ég að ef við Dorrit Moussaieff tækjum á tal saman þá værum við sammála um að Ísafjörður er stórasti bær í heimi.

Stöndum saman, tölum saman, verum vinir. Áfram Ísafjörður!