Gott sumar hjá vinnuskólanum

Frá vinnuferð í Raggagarð í Súðavík.
Frá vinnuferð í Raggagarð í Súðavík.

Vinnuskóli Ísafjarðarbæjar var starfræktur frá 6. júní til 2. ágúst í sumar og líkt og fyrri ár er óhætt að segja að starfið hafi gengið vel. Unglingar sveitarfélagsins unnu af elju og voru til fyrirmyndar auk þess sem samstarf við stofnanir og félög gekk framar vonum.

Hlutverk vinnuskólans er að undirbúa unglingana undir vinnu á hinum almenna vinnumarkaði og þar er lögð sérstök áhersla á samskiptareglur, ástundun, vinnusemi og virðingu gagnvart vinnu, yfirmönnum og íbúum svæðisins. Í sumar voru alls 74 unglingar skráðir í vinnuskólann þar sem flestir unnu í almennri deild en nokkrir í sérverkefnum, s.s. við að aðstoða á leikja- og siglinganámskeiðum, á leikskólum, í íþróttamannvirkjum og á fótboltaæfingum.

Helstu verkefni unglinga í almennri deild voru á vegum Ísafjarðarbæjar og má þar nefna ruslatínslu og umhirðu á beðum bæjarins. Stærstur hluti verkefna var á Ísafirði en hópar frá vinnuskólanum fóru einnig í verkefni á Flateyri, Suðureyri, Þingeyri, í Hnífsdal og í kirkjugarðinn í Engidal. Þá fengu unglingarnir fræðslu sem undirbýr þá undir vinnu á almennum markaði, m.a. frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga auk fræðslutíma undir handleiðslu yfirmanna vinnuskólans.