Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 15

Dýpkunarskipið Hein í Ísafjarðarhöfn.
Dýpkunarskipið Hein í Ísafjarðarhöfn.

Dagbók bæjarstjóra dagana 8.-14. apríl 2024.

Dagbókin fór í smá lægð í kringum páskana en það var auðvitað allt í gangi. Skíðavikan og Aldrei fór ég suður heppnuðust einstaklega vel og allir hoppandi kátir. Held að margir íbúar hafi þurft nokkra daga til að jafna sig eftir hátíðarhöldin og allan gestaganginn. Allt þetta fólk sem kom að því að skipuleggja og græja og gera svona frábæra viðburði eiga þakkir skilið. Takk fyrir allt!

Bæjarlífið heldur áfram sinn vanagang. Skemmtiskipavertíðin hófst um helgina með viðkomu Aidu Sol í Ísafjarðarhöfn. Dýpkunin gengur vel enda er dýpkunarskipið Hein afar öflugt. Mér er sagt að rennan inn Sundin verði dýpkuð í vikunni áður en skipið fer. Nú ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að taka á móti stóru skipunum.

Vikan þaut áfram. Á vettvangi bæjarkerfisins er það helsta að frétta að bæjarstjórn er búin að samþykkja nýja stefnu í móttöku skemmtiferðaskipa sem gildir til ársins 2027, en hluti af henni eru fjölmargir aðgerðir sem hafa það markmið að bæta upplifun gesta og stuðla að sátt við íbúa. Þar eru meðal annars kynnt til sögunnar viðmið um hámarksfölda farþega og tekur viðbúnaður hafna Ísafjarðarbæja og annarra aðila mið af áætluðum fjölda gesta í höfn.

Forsvarsfólk lögreglu, sveitarfélaga, Vestfjarðastofu og Menntaskólans á Ísafirði sitja við borð í fundarsal á fjórðu hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði og undirrita viljayfirlýsingu.

Ég sat samráðsfund Lögreglunnar á Vestfjörðum undir yfirskriftinni Öruggari Vestfirðir sem snýr að þverfaglegu samráði gegn ofbeldi. Fundurinn endaði á sameiginlegri viljayfirlýsingu um að vinna saman gegn ofbeldi. Þarna voru saman komnir helstu aðilar sem að málaflokknum koma út frá mismunandi sjónarhornum.

Fundargestir á Fjórðungsþingi í Bryggjusal Edinborgarhússins á Ísafirði.

Fjórðungsþing Vestfirðinga að vori var haldið á Ísafirði í vikunni en mesti tíminn fór í að ræða svæðisskipulag og sóknaráætlun Vestfjarða. Ráðgjafafyrirtækið Urbana stýrir þessari vinnu og kom það til fundar við sveitarstjórnarmenn.

Fundargestir í fundarsal á fjórðu hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði á fundi um uppbyggingu skíðasvæða. Innst í salnum eru Ragnar Högni og Hafdís.

Ragnar Högni forstöðumaður skíðasvæðisins og Hafdís sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs stóðu fyrir góðum og gagnlegum fundi um uppbyggingu skíðasvæðanna. Þar var komið saman sérstaklega áhugasamt fólk um skíðasvæðið ásamt Skíðafélagi Ísfirðinga, en markmiðið var að koma að stað umræðu um hvar best væri að byrja og búta niður það stóra verkefni.

Hópmynd af þátttakendum á ungmennaþingi. Um 50 ungmenni standa í tröppum fyrir utan Menntaskólann á Ísafirði

Ungmennaþing fór fram í Menntaskólanum á Ísafirði þar sem 50 ungmenni á aldrinum 13-18 ára víðsvegar frá Vestfjörðum komu saman. Ég fékk tækifæri til ávarpa þau eða réttara sagt spjalla við þau um stjórnmál og mikilvægi þátttöku ungs fólks. Það var sérstaklega gaman að hitta ungmennin og heyra hvað þau eru áhugasöm um búsetu og samfélag. Fólk framtíðarinnar.

Ég hlustaði á kynningu á fjarskiptaáætlun Vestfjarða á vegum Vestfjarðastofu. Búið er að vinna umfangsmikla vinnu á stöðu fjarskiptamála og nú er það okkar að fylgja þessu eftir og tryggja að hér á Vestfjörðum sé almennilegt fjarskiptasamband, ekki síst öryggisins vegna.

Ég átti fundi með formönnum hverfisráða Flateyrar og Súgandafjarðar.

Úr göngubraut Fossavatnsgöngunnar.

Annars er stutt hátíðanna á milli. Fossavatnsvikan framundan og við eigum von á fjölmörgum gestum sem ætla að spreyta sig á fjölmennustu almenningsskíðagöngu á Íslandi.