Dagbók bæjarstjóra 2024: Vika 11

Varðskipið Þór við bryggju á Ísafirði.
Varðskipið Þór við bryggju á Ísafirði.

Dagbók bæjarstjóra dagana 11.-17. mars 2024.

Eftir svikavorið á síðustu helgi er kominn stormur og stefnir í verulega vont veður á morgun með appelsínugulri viðvörun. Varðskipið Þór lagðist við höfn á Ísafirði í gær og gott er að vita af honum. Við vonum auðvitað að allt fari vel en allur er varinn góður.

Vikunni varði ég að stórum hluta í Reykjavík en landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var haldið á fimmtudaginn og svo prjónaði ég nokkra fundi og ráðstefnu í kringum það. Fulltrúar Ísafjarðarbæjar á landsþingi, þau Gylfi, Nanný og Steinunn ásamt mér, byrjuðu á því að eiga fund með Þórdísi Kolbrúnu fjármála- og efnahagsráðherra og þingmanni Norðvesturkjördæmis vegna hjúkrunarheimilisins Eyrar. Leigutekjur duga ekki fyrir rekstri fasteignarinnar, og hafa ekki gert frá upphafi, þannig að verulegur uppsafnaður halli er á rekstrinum. Við erum að leita leiða út úr því ástandi.

Ég átti góðan fund með Teiti, aðstoðarmanni mennta- og barnamálaráðherra og tveimur sérfræðingum í ráðuneytinu um skólaþróunarverkefni sem okkur langar að skoða.

Frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í Hörpu. Á sviðinu eru Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og fundarstjóri.

Landsþingið hófst með nokkurri eftirvæntingu ef svo mætti segja en í aðdraganda þess birtist grein í Morgunblaðinu frá nokkrum oddvitum Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélögum þar sem þeir kvarta yfir vinnubrögðum formanns Sambandsins (sem ég tek ekki á nokkurn hátt undir og finnst alveg með ólíkindum að draga persónu Heiðu formanns sérstaklega út fyrir sviga). Allt fór þetta vel fram. Þingið var að hluta helgað viðbrögðum samfélaga við hamförum enda margt gengið á undanfarin ár.

Strax eftir landsþing var aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga haldin. Þar gaf ég kost á mér aftur til stjórnarsetu en með mér í stjórninni eru þau Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar og Þingeyringur, Guðmundur Baldvin fyrrum formaður bæjarráðs á Akureyri, Halldóra Káradóttir fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og svo var Fannar bæjarstjóri Grindavíkur að koma nýr inn.

Málþing á vegum sveitarfélaga á köldum svæðum. Katrín Jakobsdóttir er í pontu. Fyrir aftan hana er myndum varpað á tjald. Í fundarsal situr fólk við hringborð.

Á föstudaginn var haldið málþing á vegum sveitarfélaga á köldum svæðum undir yfirskriftinni Er íslensk orka til heimabrúks – Staðan í orkumálum með áherslu á íbúa og sveitarfélög. Þar voru fjölmörg áhugaverð erindi og, þar á meðal hélt Elías Jónatansson orkubússtjóri stórfínt erindi um þá stöðu sem okkar fjórðungur er í, og þau tækifæri sem gætu verið til staðar til að leysa þá alvarlegu stöðu. Okkur vantar nýjar línur til skipta út 47 ára gömlum tréstaurum, það þarf að framleiða inn á kerfið og stjórnvöld verða að stíga inn til að leysa úr pattstöðunni.

En vikan var ekki bara í Reykjavík heldur var líka fundur í bæjarráði í upphafi vikunnar. Ég tók einnig þátt í fundi um svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs en eins og nafnið kemur til kynna þá eru öll sveitarfélögin á Vestfjörðum að vinna saman að þeirri áætlun. Ég átti líka fund með Sunnu formanni hverfisráðs Önundarfjarðar og Hrönn verkefnisstjóra á Flateyri um málefni fjarðarins.