COVID-19: Tilkynning frá skóla- og tómstundasviði

15. mars: Enn hefur tilkynningin verið uppfærð, nú varðandi Dægradvöl.

13. mars: Athugið að tilkynningin hefur verið uppfærð hvað varðar upplýsingar um GÍ, Dægradvöl og Sólborg.

Ágætu íbúar,

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum í dag hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að virkja heimildir sóttvarnalaga sem felur m.a. í sér að skólahald verður takmarkað tímabundið auk þess sem sett hefur verið á samkomubann sem gildir frá og með mánudeginum 16. mars kl 00:01 til og með 13. apríl kl. 00:01. Með samkomubanni er átt við skipulagða viðburði þar sem fleiri en 100 manns koma saman.

Upplýsingar um viðbrögð hvers skóla verða settar á heimasíður þeirra en hér verður í stuttu máli farið yfir hvað gildir í hverjum skóla. Hlekki á síðurnar má finna neðst á þessari síðu.

Skólahald í leik- og grunnskólum á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri verður með óbreyttum hætti, en áfram verður öllum fyrirmælum til minnka smitleiðir fylgt.

Á leikskólanum Sólborg/Tanga á Ísafirði verður umgengi milli hópa takmörkuð en að öðru leyti verður starf skólans óbreytt.  Mánudaginn 16. mars verður lokað til klukkan 11 til að skipuleggja breytingarnar.

Grunnskólinn á Ísafirði er stærsti skóli sveitarfélagsins og þar þarf að gera sérstakar ráðstafanir til að fara eftir fyrirmælum heilbrigðisráðherra. Þessar ráðstafanir verða kynntar á heimasíðu skólans auk þess sem foreldrar fá sendan tölvupóst með upplýsingum. Mánudaginn 16. mars verður starfsdagur í GÍ en þar er skipulagsvinna vegna breytinganna er það viðamikil að nauðsynlegt er að allir starfsmenn taki þátt í því.

Dægradvöl mun einnig þurfa að bregðast við aðstæðunum og fá foreldrar sendan póst með upplýsingum á sunnudaginn, 15. mars. Starfsdagur verður mánudaginn 16. mars. Foreldrar hafa fengið póst með upplýsingum.

Áfram verður opið fyrir almenning á skíðasvæðum, íþróttahúsum og sundlaugum en þeim tilmælum beint til íbúa að fylga ráðum embættis landlæknis hvað varðar varnir gegn smitum þar sem annars staðar.

Allar nýjar upplýsingar birtast eftir því sem þær berast á upplýsingasíðu Ísafjarðarbæjar vegna COVID-19.

Ísafirði 13. mars 2020
Stefanía Ásmundsdóttir
sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar

Grunnskólinn á Ísafirði

Grunnskólinn á Suðureyri

Grunnskólinn á Þingeyri

Grunnskóli Önundarfjarðar

Leikskólinn Eyrarskjól

Leikskólinn Grænigarður

Leikskólinn Laufás

Leikskólinn Sólborg/Tangi

Leikskólinn Tjarnarbær