Upplýsingar vegna COVID-19

Nýjustu upplýsingarnar um COVID-19 má finna á covid.is og á vef embættis landlæknis.
Information about COVID-19 in Icelandic, Arabic, English, Spanish, Farsi, Kurdish, Polish and Sorani

Allar stofnanir Ísafjarðarbæjar fylgja leiðbeiningum stjórnvalda um hvernig bregðast skuli við COVID-19 faraldrinum og hafa gripið til ráðstafana í samræmi við þær. Frá og með 5. október hafa sóttvarnir verið auknar á ný og mælst er til þess að fólk sem sækir þjónustu til sveitarfélagsins nýti sér rafrænar lausnir og síma eins og kostur er. Á þessari síðu má finna helstu upplýsingar um þessar ráðstafanir, auk upplýsinga frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Síðan verður uppfærð eftir þörfum.

 


Gildandi takmarkanir frá og með 5. október

‍Gildandi takmörkun samkvæmt auglýsingu á samkomum vegna farsóttar nær frá og með 5. október 2020 (kl. 00.00) og gildir til og með 19. október 2020 (kl. 23.59). Stjórnvöld endurmeta þörf á takmörkuninni eftir því sem efni standa til, þ.e. hvort unnt sé að aflétta henni fyrr eða hvort þörf sé á að framlengja gildistíma hennar. Takmörkun á samkomum tekur til landsins alls.

Áfram verða gerðar sömu kröfur og áður um sótthreinsun og þrif almenningsrýma.

‍Helstu ráðstafanir í gildi:

 • ‍Fjöldatakmörkun. Takmörkun á fjölda einstaklinga sem kemur saman miðast við 20 fullorðna, hvort sem er í einkarýmum eða í opinberum rýmum. Þetta á m.a. við um:

  • Ráðstefnur, málþing, útifundi o.þ.h.

  • Kennslu, fyrirlestra og prófahald.

  • Skemmtanir, svo sem tónleika, menningarviðburði, leiksýningar, bíósýningar, íþróttaviðburði og einkasamkvæmi.

  • Kirkjuathafnir, svo sem giftingar, fermingar og aðrar trúarsamkomur.

 • Fjöldatakmörkun, almenn nálægðartakmörkun og grímuskylda á ekki við um börn fædd 2005 eða síðar.

 • Á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi mega ekki fleiri en 20 manns vera á sama tíma inni í sama rými. Tryggja skal að enginn samgangur sé milli rýma.

 • Verslunum er heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu svo framarlega sem hægt sé að tryggja 1 metra á milli fólks. Verslanir sem eru yfir 1.000 m2 að stærð mega hleypa til viðbótar einum viðskiptavini inn fyrir hverja 10 fm2 sem eru umfram þessa 1.000 fm2. Hámarksfjöldi viðskiptavina er þó alltaf 200.

 • Við útfarir mega allt að 50 manns vera viðstaddir.

 • Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópferðabifreiðar, innanlandsflug, farþegaferjur og störf viðbragðsaðila, svo sem lögreglu, slökkviliðs, hjálparliðs almannavarna og heilbrigðisstarfsfólks. Enn fremur gildir ákvæðið ekki um störf Alþingis og þegar dómstólar fara með dómsvald sitt.

  Mikilvægt er að kynna sér leiðbeiningar um rými utanhúss og innandyra vegna COVID-19.

 • Almenn nálægðartakmörkun. Á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi á að hafa a.m.k. 1 metra á milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum. Í starfsemi þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli einstaklinga þarf að nota andlitsgrímu sem hylur bæði nef og munn. Þetta á t.d. við um í heilbrigðisþjónustu, á hárgreiðslustofum og nuddstofum, í innanlandsflugi og -ferjum, í leigubifreiðum og hópbifreiðum sem og í almenningssamgöngum. Mikilvægt er að kynna sér leiðbeiningar um notkun andlitsgríma.

 • Fjölda- og nálægðartakmörkun í skólum. Reglur um fjöldatakmörkun og nálægðartakmörkun gilda ekki um börn sem fædd eru árið 2005 og síðar. Takmörkun á skólastarfi tekur til leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, framhaldsfræðslu og háskóla, hvort sem um er að ræða opinbera eða einkarekna skóla. Þetta á einnig við um aðrar menntastofnanir, svo sem frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og íþróttastarf.

 • Starfsfólk á leikskólum og grunnskólum skal gæta 1 metra nándarreglu þegar andlitsgrímur eru ekki notaðar. Ekki mega vera fleiri en 30 einstaklingar fæddir 2004 eða fyrr í hverju rými. Þetta á einnig við um frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og íþróttastarf í grunnskólum.

 • Skólastarf á framhaldsskólastigi og háskólastigi er heimilt svo framarlega að nemendur og starfsfólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli og hámarksfjöldi nemenda í hverri kennslustofu fari ekki yfir 30. Í sameiginlegum rýmum skóla er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndum hópa ef notaðar eru andlitsgrímur.

 • Fjölda- og nálægðartakmörkun í íþróttum. Snertingar eru heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 1 metra nálægðartakmörkun í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Hins vegar skal virða 1 metra nálægðartakmörkun í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Aðrir, meðal annars þjálfarar, starfsmenn og sjálfboðaliðar, skulu einnig virða 1 metra nálægðartakmörkun. Allt að 50 einstaklingum er heimilt að koma saman á æfingum og í keppnum. Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum innandyra en utandyra mega allt að 100 áhorfendur mæta að því gefnu að þeir sitji í númeruðum sætum sem skráð eru á nafn og noti andlitsgrímur. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda.

 • Þær íþróttagreinar sem ekki heyra undir ÍSÍ (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands) skulu setja sér leiðbeiningar eða fylgja sömu leiðbeiningum og sambærilegar íþróttagreinar innan ÍSÍ.
  Fjölda- og nálægðartakmörkun í sviðslist, tónlist og við kvikmyndatökur. Snertingar og nálægð undir 1 metra eru heimil í sviðslistum, tónlist, við kvikmyndatökur og í sambærilegri starfsemi. Þar sem sérstök smithætta er fyrir hendi, svo sem á kóræfingum, skal eftir fremsta gætt að 1 metra nálægðartakmörkun og eftir atvikum viðhöfð meiri fjarlægð ef unnt er.

 • Heimilt er að hafa allt að 50 einstaklinga á sviði og 100 gesti í hverju rými á viðburðum að því gefnu að allir gestir sitji í númeruðum sætum sem skráð eru á nafn. Gestir eiga að nota andlitsgrímu.

 • Hjúkrunarheimili og aðrar heilbrigðisstofnanir. Heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimili og aðrar sambærilegar stofnanir eiga að setja sér reglur um starfsemi sína, til að mynda um heimsóknir utanaðkomandi á heimilin og stofnanirnar.

 • ‍Takmarkanir á starfsemi vegna sérstakrar smithættu. Skemmtistaðir, krár og spilasalir eiga að vera lokaðir. Aðrir veitingastaðir, þar sem áfengisveitingar eru heimilaðar mega ekki hafa opið lengur en til 23.00 alla daga vikunnar og eiga að fylgja gildandi fjöldatakmörkun og nándarreglu. Ekki er heimilt að veita tímabundið leyfi fyrir skemmtunum, svo sem dansleikjum, brennum eða öðrum viðburðum sem ætla má að dragi að sér hóp fólks eftir kl. 23.00.

 • Húsnæði líkamsræktastöðva eiga að vera lokaðar almenningi.

 • Gestafjöldi á sund- og baðstöðum má vera helmingur af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda.

Verslanir, opinberar byggingar og þjónustufyrirtæki sem eru opin almenningi þurfa að:

 • tryggja aðgang að handsótthreinsi fyrir almenning og starfsmenn við innganga og í grennd við yfirborð sem margir snerta s.s. snertiskjái og afgreiðslukassa
 • sinna vel þrifum og sótthreinsun yfirborða sem margir snerta eins oft og unnt er
 • minna almenning og starfsmenn á einstaklingssóttvarnir með merkingum og skiltum

Sundlaugar og veitingastaðir þurfa að tryggja að gestir geti haft 1 metra bil á milli sín í öllum rýmum með fjöldatakmörkun í samræmi við stærð hvers rýmis.

Starfsemi sem í eðli sínu felur í sér að gestir noti sameiginlegan búnað s.s. íþróttastarf, líkamsræktarstöðvar, spilakassar og spilasalir geri hlé á starfsemi eða sótthreinsi slíkan búnað milli notenda.

Söfn, skemmtistaðir og aðrir opinberir staðir geri hlé á starfsemi sé ekki hægt að tryggja að farið sé eftir fjöldatakmörkun eða að bil milli ótengdra aðila sé yfir 2 metrum.

Opnunartími skemmti- og vínveitingastaða verði áfram til kl. 23:00.

Sjá nánar á covid.is.

Ráðstafanir Ísafjarðarbæjar

Skóla- og tómstundasvið

Skólar:

Í grunn- og leikskólum bæjarins verður leitast við að halda áfram uppbyggilegu skólastarfi en hert á öllum vörnum og viðbúnaði gagnvart Covid-19. Stöðugt skal minnt á eins metra regluna og persónulegar sóttvarnir.

Upplýsingar um viðbúnað og aðgerðir má finna á vef hvers skóla. Athugið að ráðstafanir geta breyst snögglega og dag frá degi.

Grunnskólinn á Ísafirði

Grunnskólinn á Suðureyri

Grunnskólinn á Þingeyri

Grunnskóli Önundarfjarðar

Leikskólinn Eyrarskjól

Leikskólinn Grænigarður

Leikskólinn Laufás

Leikskólinn Sólborg/Tangi

Leikskólinn Tjarnarbær

Velferðarsvið 

Þar sem velferðarsvið Ísafjarðarbæjar fer með þjónustu við fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða er með undirliggjandi sjúkdóma hefur verið ákveðið að draga úr mögulegri smithættu með því að takmarka þjónustu við viðkvæma hópa.

 • Skrifstofa velferðarsviðs er læst en veitt er símtalsþjónusta og eftir atvikum einstaklingsviðtöl á skrifstofu samkvæmt samkomulagi. Gætt verður að smitvörnum.
 • Öldrunarþjónusta: Dagdeildir á Hlíf og Suðureyri verða lokaðar á meðan á neyðarstigi almannavarna stendur. Það gildir einnig um vinnustofu á Þingeyri.
 • Heimaþjónusta: Heimaþjónusta er í lágmarki og einungis veitt þar sem brýna nauðsyn ber til. Starfsfólk er með maska og hanska og fer ekki inn á heimili þar sem einstaklingar eru í sóttkví.
 • Þjónusta við fatlað fólk: Þjónustan hefur verið endurskipulögð á grundvelli neyðarstigs. Skammtímavistun og Hvesta eru opnar en þjónustan er hólfaskipt, þ.e. að sem fæstir starfsmenn umgangist hvern þjónustuþega.
 • Matarþjónusta: Hólfaskipt er í matsal á Hlíf. Fólk sem ekki býr á Hlíf en hefur mætt í mat fær matinn sendan heim á meðan á neyðarstigi stendur.
 • Ferðaþjónusta aldraðra og fatlaðra: Þjónustan er veitt en gætt er sérstaklega að smitvörnum.

Minnt er á stuðningsþjónustu við eldri borgara. Þeir sem hafa þörf á aðstoð við matarinnkaup eru beðnir um að hafa samband við Hafdísi Gunnarsdóttur í síma 450 8000 eða á netfangið hafdisgu@isafjordur.is.

Sundlaugar og safnahús

Sundlaugar sveitarfélagsins verða opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi.

Í Safnahúsi takmarkast fjöldi í hverju rými við 20 manns. Bókasafnið er opið og opnunartími helst óbreyttur. Þjónustan verður aðallega varðandi útlán og skil. Ekki er reiknað með að fólk dvelji á safninu. Hægt er að framlengja lán á leitir.is, senda tölvupóst á bokalan@isafjordur.is eða fá aðstoð í síma 450-8220. Öllu viðburðahaldi er frestað eins og stendur.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 og fá þar nánari upplýsingar um hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið. Veikir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að koma ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma. Einkenni sýkingarinnar líkjast helst flensu; hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta.

Fylgjast má með fréttum á vef heilbrigðisstofnunarinnar.

Aðgerðaráætlun Ísafjarðarbæjar

Samþykkt hefur verið aðgerðaráætlun Ísafjarðarbæjar sem ætlað er að mæti annars vegar þjónustuþegum í skólum og leikskólum og hins vegar atvinnufyrirtækjum sem lenda í greiðsluvanda. Er þetta fyrsta útgáfa aðgerðaráætlunar og mun hún taka breytingum eftir því hver áhrif faraldursins verða og hve lengi hann varir.

Aðgerðaráætlun Ísafjarðarbæjar vegna COVID 19 – fyrsta útgáfa

Viðbragðsáætlun

Gefin hefur verið út viðbragðsáætlun Ísafjarðarbæjar við heimsfaraldri af völdum inflúensa, þar á meðal COVID-19.
1. útgáfa - 12. mars 2020
2. útgáfa - 1. apríl 2020 (uppfærðar upplýsingar í 3., 4. og 6. kafla).

Bakvarðasveit

Ísafjarðarbær óskar eftir því að þeir sem hafa tök á að taka að sér störf þar sem sinnt er þjónustu við aldraða, börn og fatlaða, skrái sig í bakvarðasveit í velferðarþjónustu.

Nánari upplýsingar

Stöðufundur 20. apríl

20. apríl var haldinn stöðufundur um COVID-19 í Ísafjarðarbæ. Upptöku af fundinum má nálgast hér.

Fréttir

Allar fréttir og tilkynningar frá Ísafjarðarbæ vegna COVID-19 má finna hér fyrir neðan.

Gagnlegir tenglar:

COVID-19 og persónuvernd
COVID-19 á auðlesnu máli
Dragðu úr sýkingarhættu (veggspjald)
Ráðgjöf vegna COVID-19 og mannamóta
Upplýsingasíða Sambands íslenskra sveitarfélaga

Var efnið á síðunni hjálplegt?