Upplýsingar vegna COVID-19

Nýjustu upplýsingarnar um COVID-19 má finna á covid.is og á vef embættis landlæknis.
Information about COVID-19 in Icelandic, Arabic, English, Spanish, Farsi, Kurdish, Polish and Sorani

Allar stofnanir Ísafjarðarbæjar fylgja leiðbeiningum stjórnvalda um hvernig bregðast skuli við COVID-19 faraldrinum og hafa gripið til ráðstafana í samræmi við þær. Á þessari síðu má finna helstu upplýsingar um þessar ráðstafanir, auk upplýsinga frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Síðan verður uppfærð eftir þörfum.

 


Hertum aðgerðum á norðanverðum Vestfjörðum aflétt 11. maí

Fjöldamörk samkomubanns miðast við 50 einstaklinga í sama rými, í stað 20 áður. Reglur um tveggja metra fjarlægð haldast óbreyttar gagnvart fullorðnum sem ekki búa á sama heimili. ALlar takmarkanir gagnvart börnum á leik- og grunnskólaaldri, bæði varðandi fjölda- og fjarlægðarmörk, falla niður.

Skólahald í leik- og grunnskólum fer fram með eðlilegum hætti og án takmarkana.

Aðrar menntastofnanir starfa miðað við 50 einstaklinga fjöldamörk og tveggja metra fjarlægðarmörk.

Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri fer fram með eðlilegum hætti og án takmarkana.

Annað skipulagt íþróttastarf, s.s. hjá fullorðnum verður heimilt með ákveðnum takmörkunum:

  • Snertingar eru óheimilar og gæta skal tveggja metra fjarlægðarmarka.
  • Utandyra mega að hámarki sjö æfa saman í hópi á svæði sem nær 2000 fermetrum.
  • Innandyra mega fjórir æfa saman í rými sem er að minnsta kosti 800 fermetrar.
  • Öll notkun búnings- og sturtuklefa innandyra er bönnuð.
  • Notkun á sameiginlegum búnaði skal haldið í lágmarki og sótthreinsað vel og reglulega.
  • Sundæfingar mega fara fram og þá að hámarki sjö einstaklingar í einu, sem mega nota búningsaðstöðu sundlauga.

Frá og með 11. maí er takmörkunum á almenningssamgöngum aflétt.

Nánari upplýsingar má finna hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Aðgerðaráætlun

Samþykkt hefur verið aðgerðaráætlun Ísafjarðarbæjar sem ætlað er að mæti annars vegar þjónustuþegum í skólum og leikskólum og hins vegar atvinnufyrirtækjum sem lenda í greiðsluvanda. Er þetta fyrsta útgáfa aðgerðaráætlunar og mun hún taka breytingum eftir því hver áhrif faraldursins verða og hve lengi hann varir.

Aðgerðaráætlun Ísafjarðarbæjar vegna COVID 19 – fyrsta útgáfa

Viðbragðsáætlun

Gefin hefur verið út viðbragðsáætlun Ísafjarðarbæjar við heimsfaraldri af völdum inflúensa, þar á meðal COVID-19.
1. útgáfa - 12. mars 2020
2. útgáfa - 1. apríl 2020 (uppfærðar upplýsingar í 3., 4. og 6. kafla). 

Bakvarðasveit

Ísafjarðarbær óskar eftir því að þeir sem hafa tök á að taka að sér störf þar sem sinnt er þjónustu við aldraða, börn og fatlaða, skrái sig í bakvarðasveit í velferðarþjónustu.

Nánari upplýsingar

Stöðufundur 20. apríl

20. apríl var haldinn stöðufundur um COVID-19 í Ísafjarðarbæ. Upptöku af fundinum má nálgast hér.

Ráðstafanir Ísafjarðarbæjar

Skóla- og tómstundasvið

Skólar:

Upplýsingar um viðbúnað og aðgerðir má finna á vef hvers skóla. Athugið að ráðstafanir geta breyst snögglega og dag frá degi. Þann 11. maí hefst skólahald aftur með eðlilegum hætti í öllum skólum í sveitarfélaginu.

Grunnskólinn á Ísafirði

Grunnskólinn á Suðureyri

Grunnskólinn á Þingeyri

Grunnskóli Önundarfjarðar

Leikskólinn Eyrarskjól

Leikskólinn Grænigarður

Leikskólinn Laufás

Leikskólinn Sólborg/Tangi

Leikskólinn Tjarnarbær

Íþróttamannvirki:

Öllum íþróttahúsum og sundlaugum hefur verið lokað. Þá hefur skíðalyftum og -skálum einnig verið lokað. Gönguskíðaspor eru áfram troðin meðan veður leyfir en fólk beðið um að gæta þess að halda hæfilegri fjarlægð á göngusvæðunum.

Þann 16. apríl var ákveðið að loka vallarsvæði á Torfnesi.

Í takt við rýmkun samkomubanns 4. maí og 11. maí hefur fyrirkomulagi skipulagðs íþróttastarfs verið uppfært

Tilkynning um íþróttastarf barna og fullorðinna (30. apríl).

Árskort í sundlaugar og líkamsræktaraðstöðu íþróttahúsa verða framlengd um þann tíma sem lokunin stendur yfir.

18. maí verða sundlaugar opnaðar aftur, með fjöldatakmörkunum.

Velferðarsvið 

Þar sem velferðarsvið Ísafjarðarbæjar fer með þjónustu við fólk sem er í viðkvæmri stöðu eða er með undirliggjandi sjúkdóma hefur verið ákveðið að draga úr mögulegri smithættu með því að takmarka þjónustu við viðkvæma hópa.

  • Félagsstarf eldri borgara á Ísafirði, Suðureyri og Flateyri verður lokað frá og með 26. mars.
  • Takmarkanir eru á starfi dagdeilda aldraðra á Ísafirði sem kynntar hafa verið notendum þjónustunnar og aðstandendum þeirra.
  • Takmarkanir eru á starfi í hæfingarstöðinni Hvestu á Ísafirði sem kynntar hafa verið notendum þjónustunnar og aðstandendum þeirra.

Minnt er á stuðningsþjónustu við eldri borgara. Þeir sem hafa þörf á aðstoð við matarinnkaup eru beðnir um að hafa samband við Hafdísi Gunnarsdóttur í síma 450 8000 eða á netfangið hafdisgu@isafjordur.is.

Umhverfis- og eignasvið

Strætó:
Fjölmennustu ferðum milli Ísafjarðar, Flateyrar og Þingeyrar hefur verið skipt upp þannig að nú ganga tveir bílar í stað eins. Þrif í bifreiðum hafa verið aukin.

Frá og með þriðjudeginum 14. apríl verður akstri SVÍ í Skutulsfirði, þ.e. milli Ísafjarðar, Hnífsdals og Holtahverfis tímabundið hætt.

Áætlað er að akstur hefjist aftur þegar slakað verður á samkomubanni og mun það þá vera tilkynnt sérstaklega.

Áfram verður boðið upp á akstur milli Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar og Ísafjarðar en með fjöldatakmörkunum. Hingað til hafa komið upp aðstæður þar sem fleiri farþegar hafa ætlað að nýta sér ferð en heimilt er en SVÍ hafa reynt eftir fremsta megni að koma til móts við þá farþega með því að bjóða upp á aukaferðir og verður sá háttur áfram hafður.

Akstur skólabíls fer aftur af stað, með sama fyrirkomulagi og var fyrir páska, þegar skólahald hefst að nýju í Grunnskólanum á Ísafirði, þann 4. maí.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 og fá þar nánari upplýsingar um hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið. Veikir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að koma ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma. Einkenni sýkingarinnar líkjast helst flensu; hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir og þreyta.

Ákveðið hefur verið að setja á heimsóknarbann á allar deildir HVEST frá og með fimmtudeginum 12. mars. Eftir 11. maí gildir enn sú regla að enginn má koma inn á stofnunina nema eiga pantaðan tíma. Fylgjast má með fréttum á vef heilbrigðisstofnunarinnar.

Uppfærðar upplýsingar frá 8. maí

Fréttir

Allar fréttir og tilkynningar frá Ísafjarðarbæ vegna COVID-19 má finna hér fyrir neðan.

Gagnlegir tenglar:

COVID-19 og persónuvernd
COVID-19 á auðlesnu máli
Dragðu úr sýkingarhættu (veggspjald)
Ráðgjöf vegna COVID-19 og mannamóta
Upplýsingasíða Sambands íslenskra sveitarfélaga

Var efnið á síðunni hjálplegt?