Breyttar reglur um úthlutun styrkja til menningarmála

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á 478. fundi sínum þann 24. júní sl. tillögu menningarmálanefndar um nýjar reglur um úthlutun styrkja til menningarmála.

Í nýjum reglum hefur m.a. grein um styrkhæfi verið gerð skýrari. Helsta breytingin frá eldri reglum er þó að kveðið er á um að styrkjum skuli úthlutað einu sinni á ári, að vori, í stað þess að úthluta tvisvar, að vori og hausti. Fjármagnið sem áætlað er í menningarstyrki á hverju ári verður því öllu úthlutað í einu en tillaga að árlegri upphæð er lögð fram af menningarmálanefnd í vinnu við fjárhagsáætlunargerð að hausti.

Reglurnar munu taka gildi 1. janúar 2022 en þangað til gilda eldri reglurnar. Því verður fyrirhuguð úthlutun menningarstyrkja haustið 2021 á sínum stað.