Act alone í fullum gangi

Act Alone, einleikjahátíð með meiru, er nú í fullum gangi á Suðureyri og verða fjölmargir viðburðir í boði á helginni. Dagskrá og allar frekari upplýsingar má nálgast á actalone.net, en í dag hefjast leikar með myndlistarsýningu í gangi Suðureyrarlaugar.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Ísafjarðarbær styrkja hátíðina, en einstaka viðburðir hennar eru í boði fyrirtækja á svæðinu sem gerir það að verkum að ókeypis er á þá alla.

Annars er dagskrá helgarinnar sem hér segir:

Föstudagur 10. ágúst

 

Compassion Planet

Myndlistarsýning

Kl.17.00 gangurinn í sundlaugarparadís Suðureyrar

Í boði: Málningarbúðin Ísafirði

Því er spáð er að ísbjörninn gæti verið útdauður árið 2100 og að tveir þriðju megi þegar vera útdauðir árið 2050. Allt vegna hlýnun jarðar. Ísbjörninn er að missa sitt búsvæði vegna daglegs lífs okkar:

Langar heitar sturtur eftir stressandi dag. Drekka kaffi. Vökva plönturnar. Endurvinna (eða ekki). Hafa bílinn stöðugt í gangi, svo að rassinum þínum verði ekki of kalt eftir að þú hefur verslað í Costco. Hleðsla á Samsung tölvuna og iPhone. Ef ég væri ísbjörn, væri ég þá að spá í þessum hlutum?

Listamaður: Sólveig Edda Vilhjálmsdóttir

 

Pain Tapestry

Leiksýning á ensku

Kl.19.00 í félagsheimilinu

Sýningartími: 45 mín

Í boði: Bolungarvík

Hann keyrir gamlan Chrysler yfir eyðimörkina

til að afhenda dularfullan pakka.

 

Næturfundir á vegamóteli og pakkinn sjálfur fá hann til að draga í efa efnið sem veruleiki hans er spunninn úr.

Dökkur húmor, heimur töfrum hulinn og óvæntar söguflettur er baksvið The Pain Tapestry, skrifað af ensk-armenska skáldinu Baret Magarian.  Baret hefur skrifað sem blaðamaður fyrir The Times, The Guardian, The Independent, The Observer og skáldskap í World Literature today.  Hans fyrsta skáldsaga The Fabrications hefur fengið frábæra dóma í Bandaríkjunum og á Bretlandi.

Leikari: Páll Sigþór Pálsson

Höfundur: Baret Magarian

Lýsing/Hljóð/Mynd: Haukur Valdimar Pálsson

Leikstjórn: Rúnar Guðbrandsson

 

FUBAR

Danssýning

Kl. 20.30 í félagsheimilinu

Sýningartími: 75 mín

Í boði: Súðavík

FUBAR er dansverk eftir Siggu Soffíu unnið í samstarfi við Jónas Sen tónlistarmann, Helga Má Kristinsson myndlistarmann og Hildi Yeoman tískuhönnuð. Sýningin er blanda af uppistandi, dansi, söng og tónlist.

FUBAR fékk frábærar viðtökur gagnrýnenda um allt land auk tveggja tilnefninga til Grímuverðlaunanna 2017: Jónas Sen fyrir tónlist ársins og Sigga Soffía sem dansari ársins.

Dansari/Höfundur: Sigga Soffía

Tónlist: Jónas Sen

 

Helga Möller

Tónleikar

Kl. 22.00 í félagsheimilinu

Tónlistartími: 55 mín

Í boði: Hótel Ísafjörður

Um leið og við heyrum nafnið Helga Möller förum við strax Í hátíðarskap og svo tekur bara við Dans, dans, dans. Söngdífan hefur svo sannlega og það fyrir löngu sungið sig inní hjörtu landsmanna. Ekki bara það heldur komið þeim í stuð með slögurum á borð við Í útilegu, Ljúfa líf, Þú og ég, Ort í sandinn að ógleymdum sjálfum Gleðibankanum. Það er ekki bara næsta víst heldur öruggt að það verður einstök diskóstemning hér í kveld.

Flytjandi: Helga Möller

Undirleikari: Ásgeir Ásgeirsson

 

Jón Jónsson

Tónleikar

Kl. 23.15 í félagsheimilinu

Tónlistartími: 55 mín

Í boði: Múr og stimplun

Þeir eru margir gleðigjafarnir. Einn af þeim er án efa popparinn og fyrrum knattspyrnu peyinn Jón Ragnar Jónsson. Eða bara Jón Jónsson einsog við þekkjum hann. Þó ungur að árum sé, er lagalistinn þegar orðinn langur og inniheldur hvern smellinn á fætur öðrum. Alltof langt mál að telja það allt upp hér nægir og að nefna Ljúft að vera til, Gefðu mér allt sem þú átt, Feel for you, Lost, Sooner or later. Þetta veður bara fjör.

Flytjandi: Jón Jónsson

 

Þegar hann sefur er hann að vinna

Einþáttungur

Kl. 24.25 í félagsheimilinu

Sýningartími: 20 mín

Í boði: Hótel Ísafjörður

Verkið fjallar um mann sem þjónar heiminum í svefni og þá sem þjóna þeim sem sofa í vöku.

Leikari/flutningur: Ragnar Ísleifur Bragason

Höfundur: Ingibjörg Magnadóttir

Ljósmynd: Saga Sigurðardóttir

 

Laugardagur 11. ágúst

 

Vera og vatnið

Danssýning

Kl. 13.00 í félagsheimilinu

Sýningartími: 25. mín

Í boði: Klofningur

Verkið   fjallar   um   veruna   Veru og  tilraunir   hennar   og   upplifanir   í   veðri   og   vindum.   Hún rennur til í klakapolli, flýr undan rigningu, lendir í bæði stormi og snjókomu.  Sýningin er 25 mínútur og eftir hana er áhorfendum boðið upp á svið til að skoða leikmyndina og hitta Veru.

Vera og vatnið var útnefnd Barnasýning ársins á Grímuverðlaunahátíð Sviðslistasambandsins 2016.

Flytjandi: Snædís Lilja Ingadóttir

Höfundar: Tinna Grétarsdóttir, Sólrún Sumarliðadóttir, Guðný Hrund Sigurðardóttir og Snædís Lilja Ingadóttir.

Danshöfundur: Tinna Grétarsdóttir

Tónskáld: Sólrún Sumarliðadóttir

Leikmyndahönnuður: Guðný Hrund Sigurðardóttir

 

Ebbusögur

barnaleikrit

Kl. 14.30 við félagsheimilið

Sýningartími: 25 mín 

Í boði: Klofningur

Ebba er spaugileg og hress sögukona. Í fyrsta skipti segir sögur dagsins því þetta er einmitt frumsýning á nýju barnaleikrit. Þetta verður sko gaman.

 

Fimmþúsundkallinn

Kl: 16.00 Félagsheimilið

Sýningartími:

Í boði: Háskólasetur Vestfjarða

Hvað gerist ef ungur drengur fær skyndilega fimmþúsund krónur að gjöf frá fátækri fiskikonu að nafni Lúrdus ?

Höfundur/Leikari/Lýsing/Leikstjórn: Gunnar Smári Jóhannesson

 

Orðin

Tónleikhúsverk

Kl. 17.00 Félagsheimilið

Sýningartími: 40. mín.

Í boði: Landsbankinn

Orðin er tónleikhúsverk fyrir einn flytjanda, þ.e. verk á mörkum leiklistar og tónlistar sem hvorki lýtur lögmálum óperunnar eða söngleiksins. Verkið er fyrir rödd, víólu og rafhljóð, en er samt sem áður skrifað fyrir eina manneskju, Kristínu Þóru Haraldsdóttur. Kristín Þóra gerir allt sem gera þarf á sviðinu, hún syngur, talar, kveður, leikur, spilar á víólu og stýrir rafhljóðum.

Textinn er samansettur úr völdum ljóðum og ljóðabrotum úr ljóðabókinni Öll fallegu orðin eftir Lindu Vilhjálmsdóttur. Ljóðabókin Öll fallegu orðin lýsir hugarástandi konu sem syrgir látinn elskhuga sinn og finnst hún sitja eftir með ósögð orð.

Verkefnið var styrkt af Musica Nova, Nýsköpunarsjóði tónlistar árið 2014. Verkið hefur tvívegis verið flutt á Íslandi auk þess sem Kristín Þóra hefur flutt brot úr verkinu á tónleikaferðum sínum um Bandaríkin.

Flytjandi: Kristín Þóra Haraldsdóttir

Texti: Linda Vilhjálmsdóttir

Tónlist: Þórunn Gréta Sigurðardóttir

 

Kristín Ómarsdóttir

Upplestur

Kl. 19.00 í félagheimilinu

Lestursstund: 35 mín

Í boði: Vestfirska forlagið

Kristín Ómarsdóttir býr og starfar í Reykjavík. Hún er einstaklega fjölhæft skáld ritar ljóð, skáldsögur sem leikverk. Kristín hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna, má þar nefna Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1999 fyrir skáldsöguna Elskan mín ég dey. Leikrit hennar, Ástarsaga 3 var tilnefnt til Leiklistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 1998. Hún hlaut íslensku leiklistarverðlaunin Grímuna árið 2005 fyrir leikritið Segðu mér allt; bókmenntaverðlaun DV árið 1998 fyrir Elskan mín ég dey; Bókmenntaverðlaun íslenskra kvenna árið 2008 fyrir Sjáðu fegurðina þína; og ljóðverðlaunin Maístjarnan árið 2017 fyrir kóngulær í sýningargluggum.

 

Útnefning bæjarlistamanns Ísafjarðarbæjar 2018

Kl. 19.55 í félagsheimilinu

 

Griðastaður

Leiksýning

Kl. 20.00 í félagsheimilinu

Sýningartími: 60 mín

Í boði: Íslandsbanki                 

Griðastaður er einleikur um dauðleikann, fjöldaframleiðslu húsgagna, Billy-hillur, bældar tilfinningar, mömmur, sænskar grænmetisbollur, fyrrverandi kærustur, krúttlegar skjaldbökur, einsemd, sniðugar kryddhillur, dauðann, Nockeby-sófa, lífið, sorgina og fleira. Allir deyja leikfélag þakkar Ikea kærlega fyrir sýndan stuðning.

Á sviði: Jörundur Ragnarsson

Handrit og leikstjórn: Matthías Tryggvi Haraldsson

Dramatúrgía: Eydís Rose Vilmundardóttir og Jökull Smári Jakobsson

Tónlist: Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir

 

Ómar Ragnarsson – Ómar á ljúfum og léttum nótum

Grín og glens

Kl. 21.30 í félagsheimilinu

Grínstund: 60 mín

Í boði: Landsbankinn

Dagskrá í tali og tónum með uppistandi, eftirhermum og fjölbreyttum söngvum, fjöldasöng og ljóðalestri, meðal annars af safnplötunni „Hjarta landsins,- náttúran og þjóðin."

 

Siggi Björns

Tónleikar

Kl. 23.00 í félagsheimilinu

Tónlistartími: 55 mín

Í boði: Arnarlax

Siggi Björns er einn af kraftmestu skemmtikröftum sem þjóðin á og Evrópusambandið varðveitir fyrir okkur.

Hann hefur spilað og sungið fyrir fólk um allan heim. Bísast með gítarinn um allar byggðar heimsálfur og látið þjakað fólk og þjáð í afkimum Asíu geisla af gleði. Hann hefur líka fengið stolt og gleðiríkt fólk í Reykhólasveit til að fella tár yfir tónum.

Siggi er Flateyringur sem samið hefur fjölda laga og fjalla textar hans gjarnan um þorpið og lífið í þorpinu sem var.

Hann mun spila eigin lög og segja sögur um lögin á milli. Þar er af nógu að taka því Siggi er sagnabrunnur sem fer vel með efnið og glæðir það meira lífi en norðaustan ágjöfin getur gert...

 

Guðmóðirin

Einleikur

Kl. 24.15 í félagsheimilinu

Sýningartími: 60 mín

Í boði: Múr og stimplun

Guðmóðirin fjallar um Lóu 26 ára, einhleypa konu, sem gerir fátt annað en að koma sér í vandræði á meðan hún reynir að halda sársaukanum, sem hún hefur burðast með í mörg ár, niðri. 

Leikari: Ebba Sig

Höfundar: Ebba Sig, Gunnhildur Þorkelsdóttir

Leikstjórn: Gunnhildur Þorkelsdóttir