Vika 44: Dagbók bæjarstjóra 2023

Kvikmyndataka í Neðstakaupstað á Ísafirði.
Kvikmyndataka í Neðstakaupstað á Ísafirði.

Vikan hefur að mestu snúist um fjárhagsáætlun ársins 2024 en hún var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn á fimmtudaginn. Fundur bæjarráðs fór að mestu í þessa vinnu auk þess sem haldinn var vinnufundur bæjarfulltrúa.

Bæjarfulltrúar hafa verið mjög samstíga í því að taka á rekstri bæjarins sem skiptir gríðarlega miklu máli í svona verkefni. Útgangspunktur í okkar vinnu hefur verið að gera rekstur bæjarins sjálfbæran. Við erum markvisst að vinna með fjárhagslegu markmiðin sem við settum okkur 2022. Þau eru leiðarljós í okkar vinnu. Miðað við framlagða áætlun þá erum við á réttri leið.

Það er margt jákvætt að gerast í okkar samfélagi og mikill vöxtur í atvinnulífinu. Þegar gengur vel í atvinnulífinu þá gengur vel í rekstri Ísafjarðarbæjar. Frá því að fjárhagsáætlun var lögð fram fyrir ári síðan hefur íbúum fjölgað um 55. Ánægjuleg fjölgun. Fasteignamat í Ísafjarðarbæ hefur hækkað um 101% frá 2018.

Það eru mörg jákvæð teikn í fjárhagsáætlun ársins. Gert er ráð fyrir að rekstur A-hluta árið 2024 verði jákvæður sem nemur 105 m.kr. Ég man ekki eftir því að það hafi gerst áður og á ég nokkrar áætlanir að baki (það stefnir reyndar í að þessu ári verði lokað með afgangi). Þessu til samanburðar var 210 m.kr. tap árið 2022. Það er líka gert ráð fyrir að samstæðan verði rekin með afgangi sem nemur 372 m.kr.

Gerð var tillaga um að lækka fasteignaskatta úr 0,56% í 0,54% sem var samþykkt. Það er verið að gera kerfisbreytingu á hvernig vatns- og fráveitugjöld eru innheimt. Nú taka þau ekki lengur mið af fasteignamati heldur verður nú innheimt fastagjald og fermetragjald. Sem er sanngjarnara.

Sundabakki á Ísafirði. Vinnutæki við nýjan hafnarkant.
Nýi hafnarkanturinn á Sundabakka.

Það er gert ráð fyrir talsverðum framkvæmdum á næsta ári. Höfnin er fyrirferðamest eins og fyrri ár, og vonandi næst að klára Sundabakkann. Önnur stór framkvæmd er Torfnesið en þar þurfum við að klára báða fótboltavellina og leggja nýjan útikörfuboltavöll. Þetta mun umbylta allri aðstöðu. Það er auðvitað fullt af öðrum verkefnum sem á að fara í.

Það á eftir að vinna töluvert í áætluninni milli umræðna en stóru línurnar eru komnar.

Vikan fór ekki eingöngu í fjárhagsáætlunarvinnu.

Stjórn Byggðasafn Vestfjarða fundaði um linur næsta árs.

Haldinn var upphafsfundur í verkefninu Gott að eldast sem Ísafjarðarbær tekur þátt í með Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Bolungarvík og Vesturbyggð. Þar er stóra verkefnið að samþætta heimahjúkrun og heimaþjónustu.

Arna og Axel á fundi með nemendum. Þau eru í skólastofu og sitja við nokkur borð sem hefur verið raðað saman í hring.hring
Arna og Axel með nemendum MÍ.

Við Axel sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs fengum boð um að mæta á kynningu hjá nemum í áfanganum atvinnulíf og nýsköpun hjá Menntaskólanum á Ísafirði. Þau kynntu fyrir okkur ýmsar hugmyndir í skipulagsmálum sem þau hafa verið að vinna að. Þau voru hvött til að senda hugmyndirnar sínar inn til bæjarins því skoðanir ungs fólk skipta máli. Ísafjarðarbær er með fimm mál til umsagnar í Skipulagsgáttinni, til að mynda miðbæjarskipulagið þar sem fólk getur sent inn sínar athugasemdir og skoðanir.

Arna Lára með Kristjáni Frey fyrir utan Kjarvalsstaði í Reykjavík.
Með Kristjáni Frey rokkstjóra.

Ég átti fund með Kristjáni Frey rokkstjóra í borginni. Þar ræddum við ýmis praktísk mál er varðar Aldrei fór ég suður. Það stefnir í svakalega 20 ára afmælishátíð um páskana. Þetta er án efa stærsta helgi/vika ársins í Ísafjarðarbæ. Það sem ein hátíð hefur gert fyrir einn bæ!

Skjáskot af mynd af fundi stýrihóps Samfylkingarinnar um atvinnu og samgöngur.

Vikuna kláraði ég svo á vinnufundi með stýrihópi Samfylkingarinnar um atvinnu og samgöngur.