Úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál

Þann 1. desember 2022 kærði Kristinn H. Gunnarsson, ritstjóri Bæjarins besta, Ísafjarðarbæ til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna synjunar á aðgengi að gögnum vegna fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023 og framkvæmdaáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2023-2033, alls sex skjölum sem lögð voru fyrir bæjarstjórn á 501. fundi bæjarstjórnar þann 3. nóvember 2022.

Hinn 8. nóvember 2023 kvað úrskurðarnefndin upp eftirfarandi úrskurðarorð:

Ákvörðun Ísafjarðarbæjar, dags. 4. nóvember 2022, um synjun á beiðni Kristins H. Gunnarssonar um aðgang að skjölunum „Framkvæmdaáætlun 2023-2033. Heild“ og „Minnisblað framkvæmdaáætlun með fjárhagsáætlun 2.11.22“ er felld úr gildi og lagt fyrir Ísafjarðarbæ að taka beiðnina til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.
Ákvörðun Ísafjarðarbæjar er staðfest að öðru leyti.

Nefndin féllst á rök Ísafjarðarbæjar um að fjögur skjalanna sem óskað var eftir væru vinnugögn í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga og að ekki bæri að afhenda þau.

Hins vegar benti nefndin á að það gætu verið rök fyrir því að veita almenningi aðgang að tilteknum vinnugögnum, en skv. 3. tl. 3. mgr. 8. gr. laganna ber að afhenda vinnugögn ef þar koma fram upplýsingar um atvik máls sem ekki koma fram annars staðar. Tvö af umbeðnum skjölum falla þar undir að mati nefndarinnar og var Ísafjarðarbæ því óheimilt að synja að fullu beiðni um aðgang að þeim og lagt fyrir sveitarfélagið að taka beiðnina upp að nýju.

Við nýja afgreiðslu málsins var tekin ákvörðun um að senda kæranda skjölin tvö en synja aðgangi að tilteknum fjárhagslegum upplýsingum í skjölunum á grundvelli 5. tl. 10. gr. upplýsingalaga, þar sem heimilt er að takmarka afhendingu vegna fyrirhugaðra ráðstafana eða prófa á vegum hins opinbera ef þau yrðu þýðingarlaus eða skiluðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði.

Fjárhagslegu upplýsingarnar í skjölunum eru því að miklu leyti yfirstrikaðar. Upplýsingarnar sem veittur er aðgangur að eru vegna verkefna sem er lokið eða útboð hafa farið fram vegna á árinu 2023, miðað við afgreiðslutíma beiðninnar þann 9. nóvember 2023.

Ísafjarðarbær telur mikilvægt að fá niðurstöðu í þennan réttarágreining. Nauðsynlegt er fyrir bæjarfulltrúa að geta rætt og unnið með vinnugögn starfsmanna í fjárhagsáætlunargerð, sem er eitt stærsta verkefni allra sveitarfélaga árlega. Ísafjarðabær fagnar því staðfestingu kærunefndarinnar á að umrædd fjögur skjöl teljist vinnugögn, og að heimilt sé að yfirstrika upplýsingar í þeim tveimur skjölum sem sveitarfélaginu bar að afhenda að öðru leyti.