Gjaldskrá úrgangsmála 2023

Umhverfis- og framkvæmdanefnd hefur vísað nýrri samþykkt um meðhöndlun úrgangs og gjaldskrá úrgangsmála fyrir árið 2023 til samþykktar í bæjarstjórn. Eins og fram hefur komið eru breytingar á fyrirkomulagi sorphirðu hjá öllum sveitarfélögum landsins fram undan, vegna lagabreytinga sem taka gildi 1. janúar 2023. Hluti lagabreytinganna snýr að því að sveitarfélögum ber að tryggja að greitt sé í samræmi við magn og tegund úrgangs sem til fellur hjá íbúum og það þýðir að nokkrar breytingar verða á gjaldskrá sorphirðu milli ára.

Samkvæmt fyrrnefndum lagabreytingum eru meginreglur um innheimtu sveitarfélaga m.a. eftirfarandi:

  • Innheimta skal gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs, þar með talið heimilis- og rekstrarúrgang sem safnað er á lóðum íbúa og rekstraraðila eða á grenndar-, söfnunar- og móttökustöðvum.
  • Skylt er að innheimta gjald sem næst raunkostnaði sérhvers aðila og kallast „Borgað þegar hent er“ (e. Pay as you throw).
  • Innheimta skal gjald sem næst raunkostnaði fyrir tiltekna þjónustu, s.s. með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs eða aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangsins.
  • Kostnaður við uppsetningu og rekstur nauðsynlegra innviða er hluti af kostnaði sem innifalinn er í gjaldi fyrir meðhöndlun úrgangs, til dæmis innviðir til söfnunar og flutnings úrgangs og innviðir til endurvinnslu eða annarrar endurnýtingar úrgangs.

Kostnaður sorphirðu og -förgunar og forsendur gjaldtöku

Áætlaður heildarkostnaður sorphirðu og sorpförgunar árið 2023 er 109 miljónir króna. Leyfilegt er að rukka að hámarki 50% þess kostnaðar sem fastan kostnað eða 54,5 m.kr. Í álagningu 2022 voru 1616 fastanúmer sem höfðu heilt fast gjald vegna sorpförgunar og 226 sem höfðu hálft fast gjald (sumarhús/takmörkuð ívera). Tekjur af sorpförgun 2022 voru samanlagt 67% af heildarkostnaði við sorphirðu og sorpförgun.

Út frá þessum forsendum og lagaskyldu nýju laganna um að óheimilt er fyrir sveitarfélög að greiða með málaflokknum, verður nýtt gjald 31.500 kr. fyrir árið 2023 til að 50% kostnaðar sé innheimtur í föstum kostnaði (í stað 67% áður). Það er 17% lækkun frá gjaldinu eins og það er árið 2022 þar sem gjald fyrir sorpförgun er 37.900 kr. Þá mun gjaldið skipta um nafn og heitir hér eftir „Rekstur grenndar- og söfnunarstöðva og annar fastur kostnaður“.

Hinn hluti sorpgjalda er svo kallaður breytilegur kostnaður og þar byggir gjaldtaka á því að borgað verði í samræmi við magn úrgangs sem til fellur. Til þess að mæla magnið verður innheimt eftir stærð og fjölda íláta við hverja fasteign.

Ílátin í sveitarfélaginu hafa verið kortlögð og verður innheimt eftir núverandi ílátunum eftir áramót. Síðar á árinu verða í boði fleiri stærðir íláta og íbúum þannig gefinn kostur á því að stjórna sínum ílátum sjálfir og hafa áhrif á lækkun eigin kostnaðar.

Samanburður á gjaldskrám 2022 og 2023

Samkvæmt núgildandi gjaldskrá skiptist gjald í tvennt; sorphirðu og sorpförgun.

Söfnun, förgun, móttaka og flokkun sorps 2022

 

Sorpgjöld á heimili

Árgjald

Sorphirða

19.900 kr.

Sorpförgun

37.900 kr.

Sorpförgun fyrir sumarbústaði og íbúðarhúsnæði með takmarkaða íveru vegna snjóflóðahættu

18.950 kr.

Í gjaldskrá 2023 skiptist sorpgjald í fast gjald og breytilegt gjald, og hið síðara ákvarðast af stærð og fjölda sorpíláta. Gjaldskráin verður því mun ítarlegri en áður. Íbúar munu geta valið stærð á tunnum síðar á árinu 2023.

Flokkurinn „Önnur gjöld“ bætist einnig við gjaldskrá. Þar undir falla gjöld til að standa undir kostnaði ef breyta eða bæta þarf við ílátum eða ef óskað er eftir aukalosun. Þá verður rukkað fyrir skrefagjald ef tunna er meira en 15 metra frá lóðamörkum fyrir sorphirðubíl. Gjöldin taka ekki gildi fyrr en 1. október 2023.

Söfnun, förgun, móttaka og flokkun sorps 2023

 

Sorpgjöld á heimili – fast gjald

Árgjald

Rekstur grenndar- og söfnunarstöðva og annar fastur kostnaður

31.500 kr.

Rekstur grenndar- og söfnunarstöðva og annar fastur kostnaður sumarhús/takmörkuð ívera

15.750 kr.

Sorpgjöld á heimili – breytilegt gjald

Árgjald

Blandaður úrgangur og lífrænn úrgangur, 240 l ílát

22.350 kr.

Blandaður úrgangur, 120 l ílát (verður í boði síðar á árinu 2023)

20.370 kr.

Blandaður úrgangur, 240 l ílát

29.100 kr.

Blandaður úrgangur, 660 l ílát

80.000 kr.

Blandaður úrgangur, 1100 l ílát (aðeins í undanþágutilvikum)

133.200 kr.

Lífúrgangur, 120 l ílát (verður í boði síðar á árinu 2023)

11.200 kr.

Lífúrgangur, 240 l ílát

22.350 kr.

Pappír og plast, 120 l ílát (verður í boði síðar á árinu 2023)

10.430 kr.

Pappír og plast, 240 l ílát

14.900 kr.

Pappír og plast, 660 l ílát

41.000 kr.

Pappír og plast, 1100 l ílát (aðeins í undanþágutilvikum)

68.300 kr.

Önnur gjöld Gjald

Skrefagjald, meira en 15 metra frá sorphirðubíl (frá 1.10.2023)

50% álag per tunnu

Breytingakostnaður við ílát (frá 1.10.2023)

3.500 kr.

Endurnýjunargjald tunnu 240 l með flutningi á staðfang (skv. gjaldskrá verktaka)

15.000 kr.

Aukahirðing

6.350 kr.