Skipulags- og mannvirkjanefnd

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
625. fundur 08. febrúar 2024 kl. 10:00 - 12:30 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir formaður
  • Guðmundur Ólafsson varaformaður
  • Jóna Símonía Bjarnadóttir aðalmaður
  • Anton Helgi Guðjónsson aðalmaður
  • Steinunn Guðný Einarsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Helga Þuríður Magnúsdóttir verkefnastjóri
  • Guðmundur Rafn Kristjánsson verkefnastjóri
Fundargerð ritaði: Helga Þuríður Magnúsdóttir verkefnastjóri
Dagskrá

1.Hönnun Gamli Gæsló Ísafirði - 2022120021

Á 1272. fundi bæjarráðs, þann 5. febrúar 2024, voru lögð fram til kynningar ný hönnunargögn vegna gamla gæsló þar sem komið er til móts við íbúa, varðandi hliðrun aparólunnar fjær íbúðarhúsum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna að formlegri samþykkt málsins og vísar erindinu til skipulags- og mannvirkjanefndar til lokaafgreiðslu. Bæjarráð felur bæjarstjóra að taka saman umframkostnað vegna þessara breytinga og leggja fyrir bæjarráð.

Jafnframt er lagður fram tölvupóstur Andreu Gylfadóttur, dags. 10. janúar 2024, þar sem hún kynnir sín sjónarmið varðandi aparólu á Eyrartúni.
Skipulags- og mannvirkjanefnd fagnar að tekist hafi að sætta sjónarmið við íbúa og samþykkir framlagða tillögu.

Nefndin þakkar Andreu Gylfadóttur fyrir erindið en bendir á að nú er búið að sætta sjónarmið íbúa varðandi staðsetningu aparólu.

Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:

„Nefndarmaður Framsóknar telur það jákvætt að fundin sé lausn með nærliggjandi lóðum og nágrönnum. Aftur á móti er það umhugsunarvert fyrir stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar hvernig málið hefur þróast og ljóst að skoða þarf vel ferlið til þess að sóa ekki tíma og fjármunum að nauðsynjalausu eins og raunin er í þessu máli.“

2.Áform um breytingu á raforkulögum, umsagnarbeiðni - 2024010208

Lögð fram umsagnarbeiðni úr samráðsgátt stjórnvalda, dagsett 25. janúar 2024, vegna áforma um breytingu á raforkulögum til að stuðla að auknu raforkuöryggi.

Með þessu frumvarpi er ráðgert að útfæra nánar skyldur aðila á raforkumarkaði, þ.e. vinnsluaðila, flutningsfyrirtækisins og söluaðila.
Einnig eru til skoðunar heimildir stórnotenda til að selja ónotaða orku inn á kerfið.

Umsagnarfrestur er til 8. febrúar 2024.
Lagt fram til kynningar.

3.Áform um stækkun á aflgetu Úlfsárvirkjunar í Dagverðardal. Umsagnarbeiðni - 2024010207

Lögð fram umsagnarbeiðni frá Skipulagsstofnun, vegna áforma um stækkun á aflgetu Úlfsárvirkjunar, tilkynning til ákvörðunar um matsskyldu, dags. 25. janúar 2024.

Vatnsnotkun fyrir aflaukningu er um 0,120 m3/sek. Hámarksvatnsnotkun eftir aflaukningu verður 0,280 m3/sek við full afköst. Getur virkjunin þá framleitt um 460 kW.

Umsagnafrestur er til 23. febrúar 2024.
Skipulags- og mannvirkjanefnd lítur svo á að þar sem ekki er þörf á frekari framkvæmdum við þessa aflaukningu hafi þetta þar með lítil áhrif á umhverfi virkjunarinnar.

Starfsmanni falið að vinna umsögn.

4.Stefnisgata 8, Suðureyri. Ósk um breytingu á hverfisvernd í aðalskipulagi - 2024010184

Lagður fram tölvupóstur dags. 11. janúar 2024 frá Þórði Bragasyni f.h. Útgerðarfélagsins Vonarinnar ehf., lóðarhafa við Stefnisgötu 8 á Suðureyri, vegna óska um að fallið verði frá hverfisvernd í gildandi aðalskipulagi.
Skipulags- og mannvirkjanefnd getur ekki fallist á þessa ósk þar sem nefndin telur mikilvægt að vernda sérkenni eldri byggðar á Suðureyrarmölum eins og kemur fram í aðalskipulagi og deiliskipulagi.

Við afgreiðslu bæjarstjórnar við tillögu skipulags- og mannvirkjanefndar á lóðarúthlutun lóða við Stefnisgötu 8 og 10 á Suðureyri, þann 19. september 2023, var eftirfarandi bókað: „Skipulags- og mannvirkjanefndin bendir umsækjanda á að á svæðinu er hverfisvernd í gildi og skulu mannvirki sem byggð verða taka mið af þeim kvöðum.“

5.Ósk um skipulagsbreytingar við Mjólká - 2022110031

Lögð fram tillaga að breytingum á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 við Mjólká, vegna áforma Orkubús Vestfjarða ohf. um stækkun virkjunar, afhendingu á grænni orku og byggingu á nýrri bryggju, uppdráttur og greinargerð, dags. 2. febrúar 2024, unnið af Verkís ehf. Jafnframt er lögð fram samantekt umsagna sem bárust við vinnslutillögu sem var í kynningu frá 14. nóvember til 12. desember 2023. Frestur til umsagna og ábendinga við tillögugerðina var til 12. desember 2023.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila auglýsingu á breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 við Mjólká, í samræmi við 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

6.Ósk um skipulagsbreytingar við Mjólká - 2022110031

Lögð fram tillaga að breytingum á deiliskipulagi við Mjólká, vegna áforma Orkubús Vestfjarða ohf. um stækkun virkjunar, afhendingu á grænni orku, uppdráttur og greinargerð, dags. 2. febrúar 2024, unnið af Verkís ehf. Jafnframt er lögð fram samantekt umsagna sem bárust við vinnslutillögu sem var í kynningu frá 14. nóvember til 12. desember 2023.

Markmið með deiliskipulagsbreytingunni er að heimila aukna nýtingu vatnsafls á vatnasviði Mjólkár og þar með auka raforkuframleiðslu Mjólkárvirkjunar og bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum, skapa aðstöðu fyrir afgreiðslu á endurnýjanlegu eldsneyti við Mjólkárvirkjun ásamt því að lágmarka rask vegna skipulagsbreytinganna.

Frestur til umsagna og ábendinga við tillögugerðina var til 12. desember 2023.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Mjólkárvirkjunar í samræmi við 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

7.Menntaskólinn á Ísafirði, Torfnesi. Breyting á deiliskipulagi - 2024010231

Lagður fram tölvupóstur, dags. 24. janúar 2024, frá Framkvæmdasýslunni- Ríkiseignum f.h. mennta- og barnamálaráðuneytisins, með ósk um stækkun á byggingarreit Menntaskólans á Ísafirði vegna stækkunar á verknámsaðstöðu Menntaskólans á Torfnesi.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila vinnu við breytingar á deiliskipulagi við Torfnes.
Breytingar snúa að lóð Menntaskólans og lóð leikskólans Sólborgar vegna mögulegra byggingaráforma.

8.Hlíðarvegur 50, 400. Umsókn um stofnun byggingarlóðar - 2023110126

Lagðar fram athugasemdir vegna lóðarinnar Hlíðarvegs 50 á Ísafirði, dags. 20. desember 2023, sem barst á grenndarkynningartíma, vegna stofnunar lóðarinnar.
Jafnframt lögð fram tillaga að mæliblaði lóðarinnar.
Skipulags- og mannvirkjanefnd fjallaði um athugasemdir sem bárust á grenndarkynningartíma á fundi nefndar þann 11. janúar 2024 og var starfsmanni falið að vinna lóðarblað til að koma til móts við framkomnar athugasemdir.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að lóðin við Hlíðarveg 50, á Ísafirði, verði stofnuð í samræmi við framlagt mæliblað tæknideildar dags. 2. febrúar 2024.

Nefndin felur starfsmanni tæknideildar að svara athugasemdum.

9.Seljalandsvegur 73, Ísafirði. Grenndarkynning - 2023120102

Á 622. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar þann 18. desember 2023, heimilaði nefndin grenndarkynningu áforma við Seljalandsveg 73 á Ísafirði fyrir eigendum við Seljalandsveg 71 og 75 og eigendum við Miðtún 23, 25 og 27, skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Frestur til að skila athugasemdum við grenndarkynninguna var til 28. janúar 2024.

Nú er lagðar fram athugasemdir við áformin frá eigendum við Miðtún 23 og 25 ásamt eigendum Seljalandsvegar 75 dags. 10. janúar 2024 sem lúta að því að nú þegar hefur húsið verið stækkað, götulínu verið riðlað og hún þrengd. Með áformum yrði útsýni skert, þrengt að nálægðum húsum og götumynd raskað enn frekar ásamt því að nýtingarhlutfall verði hærra en er nú í þessu hverfi.
Lagðar fram athugasemdir vegna grenndarkynningar á byggingaráformum við Seljalandsveg 73 á Ísafirði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur undir þau sjónarmið að framkvæmdin raski götumynd enn frekar en orðið hefur og felur byggingarfulltrúa að ræða við umsækjanda sem og nágranna. Málið verður lagt fyrir að nýju.

Þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag í efri byggð Ísafjarðar beinir nefndin því til bæjarstjórnar að hefja þá vinnu sem fyrst til að móta skilmála hverfisins.

10.Túngata 14, Suðureyri. Umsókn um endurnýjun á lóðarleigusamningi - 2024020001

Lögð fram umsókn frá þinglýstum eiganda fasteignar við Túngötu 14 á Suðureyri, dags. 31. janúar 2014, vegna endurnýjunar á lóðarleigusamningi. Jafnframt lagt fram mæliblað tæknideildar dags. 2. febrúar 2024.
Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að samþykkja endurnýjun á lóðarleigusamningi undir fasteignina við Túngötu 14 á Suðureyri.

Fundi slitið - kl. 12:30.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?