Skipulags- og mannvirkjanefnd - 469. fundur - 11. janúar 2017

 

Dagskrá:

1.  

Sjókvíaeldi í ísafjarðardjúpi - Háafell - 2016020056

 

Skipulagsstofnun óskar umsagnar Ísafjarðarbæjar á frummatsskýrslu um allt að 6.800 tonna framleiðslu á laxi í sjókvíum á vegum Háafells, í Ísafjarðardjúpi. Umsögn óskast send Skipulagsstofnun fyrir 9. janúar 2017

Erindið var áður á dagskrá á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar þann 21. desember og var afgreiðslu frestað.

 

Það er sérhverju samfélagi, stóru sem smáu, nauðsynlegt að geta nýtt aðliggjandi auðlindir sér og íbúum sínum til hagsbóta. Í því samhengi skiptir gríðarlega miklu máli að sú auðlindanýting skapi störf á svæðinu og auki hagsæld íbúanna, fyrirtækjanna og samfélaganna í heild.
Á þeim forsendum hafa sveitarfélög á Vestfjörðum í fjölda ára haldið á lofti þeirri kröfu að skipulagsvald sveitarfélaga nái til fjarða, flóa og allt að eina mílu út fyrir grunnlínupunkta.
Fyrir allnokkrum árum hófst vinna við strandsvæðaskipulag í Ísafjarðardjúpi að frumkvæði sveitarfélaga og Fjórðungsambands Vestfirðinga. Sú vinna hefur hinsvegar legið í dvala í þónokkurn tíma vegna fjárskorts og áhugaleysis ríkisvaldsins.
Því má segja að það skorti heildstæða áætlun sem mótar framtíðarsýn í fiskeldi við Ísafjarðardjúp. Heildarskipulag sem gerir grein fyrir markmiðum og ákvörðunum viðkomandi stjórnvalda um framtíð fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Hver er framtíðarsýnin, hvaða markmið eru sett, hver eru áætluð viðmið og hvernig á að framfylgja stefnu. Einnig hafa bæjaryfirvöld áhyggjur af því að að ekki liggi fyrir umhverfismat á heildarálagi fiskeldis, þar sem sammögnunaráhrif alls fiskeldis í Ísafjarðardjúpi eru metin. Hversu víðtæk eru áhrif fiskeldis, s.s. langtímaáhrif og áhrif á stærri svæði. Hver eru samlegðaráhrif margra fiskeldisleyfa og afleidd áhrif s.s. efnahagslega, félagslega og umhverfislega.
Í frummatsskýrslu Háafells er gert ágætlega grein fyrir hvaða áhrif framkvæmdin getur haft á áðurnefnda þætti. Áætlað er að starfsemi Háafells verði að verulegu eða öllu leiti innan sveitarfélaga á svæðinu og efnahagsleg og samfélagsleg áhrif verða því umtalsverð og jákvæð. Umhverfisáhrif verða einhver, en eins og segir í skýrslunni að verulegu leiti afturkræf og mögulegt að lágmarka með mótvægisaðgerðum.
Í ljósi þess sem hér hefur verið tínt til gerir skipulags og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar ekki athugasemd við Frummatsskýrslu Háafells vegna 6800 tonna framleiðslu á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi.

Inga Steinunn Ólafsdóttir vék af fundi við afgreiðslu erindis.

 

   

2.  

Sjókvíaeldi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi - drög að tillögu að matsáætlun - 2016090039

 

Skipulagsstofnun óskar umsagnar Ísafjarðarbæjar um tillögu að matsáætlun sjókvíaeldis Arnarlax,um er að ræða framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í Ísafjarðardjúpi. Umsögn óskast send Skipulagsstofnun fyrir 20. janúar 2017.

 

Skipulags- og mannvirkjanefnd frestar afgreiðslu erindis.

 

   

3.  

Skjólskógar - Skógrækt á landbúnaðarlandi jarðarinnar Bakka - 2017010026

 

Sæmundur Þorvaldsson, f.h. Skjólskóga, sækirum leyfi til þess að skipuleggja skógrækt á landbúnaðarlandi jarðarinnar Bakka í Brekkudal, Dýrafirði, þannig að markalína skógræktarsvæðis og hverfisverndarsvæðis H1 í Aðalskipulagi, taki mið af aðstæðum á svæðinu s.s. náttúrulegum línum í landslagi.

 

Það er mat skipulags- og mannvirkjanefndar að áform Skjólskóga um skipualgagningu skógræktar á svæðum sem liggja á mörkum hverfisverndarsvæðisins, eins og kemur fram í erindi Skjólskóga sé ásættanleg og vel til þess fallið að fella skógrækt inn í það náttúrulega umhverfi sem fyrir er. Beinar og ónáttúrulegar línur eins og birtast í Aðalskipulagi og sýna mörk svæðis sem njóta verndar, eru á engan hátt æskilegar til þess að stýra því nákvæmlega hvar má planta trjáplöntum og hvar ekki.
Skipulags- og mannvirkjanefnd heimilar því Skjólskógum að vinna skógræktaráætlanir á þeim forsendum sem fram koma í erindinu.

 

   

4.  

Skeiði B - Umsókn um lóð - 2017010027

 

Einar Halldórsson, f.h. G.E. Vinnuvéla ehf., sækir um lóð við Skeiði B, skv. umsókn dags. 5. jan 2016 og meðfylgjandi uppdrætti.

 

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að G.E. Vinnuvélar, fái lóð inn á Skeiði við Götu B, Ísafirði skv. uppdrætti með þeim reglum sem í gildi eru og settar kunna að verða. Lóðarumsókn fellur úr gildi hafi teikningar ekki borist Ísafjarðarbæ innan 6 mánaða og framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá úthlutun.

 

   

5.  

Mávagarður Viðlegustöpull - Umsókn um framkvæmdarleyfi - 2016120059

 

Guðmundur Magnús Kristjánsson, hafnarstjóri hafna Ísafjarðarbæjar, sækir um framkvæmdaleyfi vegna viðlegustöpuls sem fyrirhugaður er á Mávagarði. Meðfylgjandi gögn eru umsókn dags. 22.12.2016, ásamt útboðs og verklýsingu, dagsettri í jan. 2017 ásamt teikningum og teikningaskrá.
Skipulags- og byggingarfulltrúi vísar umsókn til skipulags- og mannvirkjanefndar með vísan í 3. gr. reglugerðar
772/2012 um framkvæmdaleyfi.

 

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimiluð verði útgáfa framkvæmdaleyfis vegna viðlegustöpuls við Mávagarð.

 

   

6.  

Fyrirspurn - Gautur Ívar Halldórsson fyrirspurn um land til afnota. - 2017010031

 

Gautur Ívar Halldórsson og Þórhallur Snædal leggja inn eftirfarandi fyrirspurn dags. 29.12.2016 þar sem óskað er eftir afnotasamningi til 25 ára fyrir frístundahúsabyggð á svæði sem merkt er I9 í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020. Um er að ræða ódeiliskipulagt svæði í ofanverðum Dagverðardal.

 

Skipulags- og mannvirkjanefnd hafnar erindi á þeim forsendum að framtíð svæðisins er óráðin.

 

   

7.  

Tunguskeiði - Óveruleg breyting á deiliskipulagi. - 2017010033

 

Miðað við núverandi forsendur deiliskipulags við Tunguskeið, er nýtingarhlutfall iðnaðarlóða 0.2 sem í dag er of lágt miðað við fyrirhugaða nýtingu á svæðinu.

 

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að gerð verði óveruleg breyting á iðnaðaðar og athafnalóðum í deiliskipulagi Tunguskeiðs,sem felur í sér hækkun á nýtingarstuðli.

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:45

 

Sigurður Jón Hreinsson

 

Magni Hreinn Jónsson

Sigurður Mar Óskarsson

 

Lína Björg Tryggvadóttir

Ásgerður Þorleifsdóttir

 

Inga Steinunn Ólafsdóttir

Brynjar Þór Jónasson

 

Axel Rodriguez Överby

Er hægt að bæta efnið á síðunni?