Bæjarstjórn - 393. fundur - 2. febrúar 2017

 

 

Dagskrá:

1.  

Sjókvíaeldi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi - drög að tillögu að matsáætlun - 2016090039

 

Umsögn 470. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar og 960. fundar bæjarráðs á tillögu að matsáætlun á sjókvíaeldi Arnarlax í Ísafjarðardjúpi, framleiðsla á 10.000 tonnum af laxi á ári.

 

Til máls tók: Kristján Andri Guðjónsson, forseti.

Forseti bæjarstjórnar leggur til að bæjarstjórn taki undir eftirfarandi bókun skipulags- og mannvirkjanefndar og geri ekki athugasemd við framkomna tillögu að matsáætlun:

"Skipulags- og mannvirkjanefnd gerir ekki athugasemd við framkomna tillögu að matsáætlun.

Nefndin ítrekar enn og aftur að afleitt sé að enga stefnumörkun stjórnvalda sé að finna um sjókvíaeldi á Vestfjörðum, fremur en annars staðar á landinu. Óheppilegt er að veita leyfi þar sem burðarþol Ísafjararðdjúps liggur ekki fyrir og samlegðaráhrif eldis á svæðinu gagnvart lífríkinu eru ekki ljós. Því verður að telja það forgangsatriði að klára rannsóknir á burðarþoli Ísafjarðardjúps.
Að frumkvæði sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands var unnin nýtingaráætlun fyrir Arnarfjörð og er það mjög miður að ríkisvaldið hafi ekki séð ástæðu til að samsvarandi vinna fari fram á strandsvæði Ísafjarðardjúps, því í þessu tilfelli hefði slík áætlun verið til mikilla bóta.
Skipulags- og mannvirkjanefnd vill því ítreka þá skoðun sína að æskilegt er að sveitarfélög ráði skipulagi strandsjávar út að 1 sjómílu frá grunnlínu."

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.
Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

2.  

Skólamál á Flateyri - 2016110039

 

Tillaga 960. fundar bæjarráðs um að staðfesta erindisbréf fulltrúa í starfshóp um leik- og grunnskóla á Flateyri.

Jafnframt lagði bæjarráð til við bæjarstjórn að Nanný Arna Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi verði fulltrúi bæjarstjórnar og Unnur Björk Arnfjörð, skólastjóri Grunnskóla Önundarfjarðar, verði fulltrúi skóla- og tómstundasviðs.

 

Til máls tóku: Kristján Andri Guðjónsson, forseti, Arna Lára Jónsdóttir og Gunnhildur Elíasdóttir.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.
Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

3.  

Hestamannafélagið Hending - kröfugerð vegna reiðvallar - 2016050078

 

Tillaga 960. fundur bæjarráðs að samkomulagi við Hestamannafélagið Hendingu ásamt viðauka.

 

Til máls tóku: Kristján Andri Guðjónsson, forseti, Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Jónas Þór Birgisson, Kristín Hálfdánsdóttir, Marzellíus Sveinbjörnsson og Gunnar Jónsson.

Kristján Andri Guðjónsson, forseti leggur fram eftirfarandi breytingartillögu:
"Forseti leggur til að tillögunni verði frestað til næsta fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þar sem samningur við Vegagerðina um bætur vegna aðstöðunnar að Búðartúni er ekki tilbúinn."

Jónas Þór Birgisson, Kristín Hálfdsánsdóttir og Martha Kristín Pálmadóttir, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram eftirfarandi bókun:
"Undirritaðir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fordæma vinnubrögð Í-listans í máli er varðar fyrirhugaða byggingu á reiðskemmu. Upphaf málsins má rekja til reiðvallar sem sannanlega var í eigu bæjarins eins og önnur íþróttamannvirki í bæjarfélaginu. Fyrir milligöngu bæjarins hefur lengi legið fyrir vilji Vegagerðarinnar til að greiða 20 milljónir í bætur vegna umrædds reiðvallar sem renna myndu til uppbyggingar á nýjum velli án þess að forsvarsmenn Hestamannafélagsins Hendingar hafi viljað fallast á það. Eftir s.k. samningaviðræður við forsvarsmenn hestamannafélagsins hefur Í-listinn ákveðið að til viðbótar ofangreindum fjármunum muni Ísafjarðarbær leggja til 30 milljónir og jarðefni að verðmæti 8 milljónir í framkvæmdir í þágu hestamannafélagsins. Þannig ætlar Í-listinn að gerast minnihlutaeigandi í hlutafélagi með vægast sagt óljósan rekstrargrundvöll með tilheyrandi ófyrirséðri fjárhagslegri áhættu fyrir bæjarbúa.
Samningur um þennan gjörning var fyrst kynntur fyrir HSV. Þar næst var hann lagður fram á fundi íþrótta- og tómstundanefndar án þess að fulltrúar þar hefðu haft tækifæri á að kynna sér samninginn fyrir fundinn. Að þessu loknu kom samningurinn loks á formlega dagskrá bæjarráðs. Á þeim fundi féllust fulltrúar Í-listans á að líklega væri rétt að afla einhverra áætlana um byggingarkostnað og rekstraráætlanir fyrirhugaðrar reiðskemmu en ekki hafði verið unnið að neinum slíkum gögnum á því stigi þótt augljóslega hafi þá þegar verið búið að taka ákvörðun í málinu.
Mikilvægt er í umsýslu með almannafé að fyrir liggi skýrar leikreglur. Því hefur verið unnið eftir því innan bæjarkerfisins að fylgja áætlun í samstarfi við HSV um uppbyggingu íþróttamannvirkja í bæjarfélaginu. Reiðskemmu er hvergi að finna í þeim áætlunum. Hvað varðar framlög til íþróttafélaga hefur verið unnið út frá því að gerður sé uppbyggingarsamningur við viðkomandi félag. Jafnframt hlýtur að vera æskilegt að fyrir liggi einhver gögn um starfsemi félagsins eins og fjöldi iðkenda og upplýsingar um barna- unglingastarf. Engin slík gögn eru til staðar varðandi Hendingu en vissulega er gert ráð fyrir að gera uppbyggingarsamning á árinu 2018. Á því sama ári á bæjarsjóður hins vegar þegar að hafa lagt fram ofangreindar 38 milljónir og tryggt 20 milljónir frá Vegagerðinni.
Augljóst er að þessar samningaviðræður, ef samningaviðræður skyldi kalla, við Hendingu voru þegar komnar í gang þegar síðasta fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun voru lagðar fram en þar er engu að síður ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna samnings af þessu tagi. Öll vinnubrögð við þessa samningsgerð eru með hreinum ólíkindum en augljóst er að fulltrúum Í-listans finnst engin ábyrgð fylgja því að ráðstafa fjármunum bæjarbúa. Í raun má segja að Í-listinn sé að gefa út opinn tékka á bæjarsjóð, svo illa unninn og óvandaður er samningurinn. Viðhorfið virðist vera að þetta sé allt í lagi það er einhver annar sem borgar. Málið er bara að þessi einhver annar er bara við, íbúarnir í bænum okkar.
En þetta mál er frá upphafi illa unnið og ólýðræðislegum aðferðum beitt og allt gert til að keyra málið eins hratt í gegn um kerfið og mögulegt er, sama hvort heldur á við samskipti við minnihluta bæjarstjórnar eða tilheyrandi fagnefnd bæjarins.
Vel má segja að vinnubrögin minni helst á aðferðir nýkjörnins forseta ónefnds lands."

Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram eftirfarandi bókun:
"Samningar við Hestamannafélagið Hendingu hafa því miður dregist úr hófi og hafa félagsmenn þeirra verið aðstöðulausir allt of lengi. Þess vegna er mjög mikilvægt að semja sem fyrst um viðunandi aðstöðu til þess að hestamenn geti sinnt íþrótt sinni með eðlilegum hætti. Er það einmitt í takt við uppbyggingarsamning Ísafjarðarbæjar og HSV sem samþykktur var árið 2013 en þar var talað um í 3 ára áætlun að ljúka ætti samningum við Hestamannafélagið Hendingu og einnig hefur þessi samningur sem liggur nú fyrir verið lagður fyrir HSV sem hefur gefið honum jákvæða umsögn. Ég lýsi yfir ánægju að skriður hafi komið á málið en mjög margar spurningar, varðandi útfærslu og upphæðir sem bærinn þarf að láta af hendi, kvikna við skoðun á þeim drögum sem fyrir liggja. Miðað við reynslu okkar af framkvæmdum og samningum sem Ísafjarðarbær hefur tekið þátt í undanfarið svosem í Hjúkrunarheimilinu Eyri verðum við bæjarfulltrúar að gaumgæfa vel þær fjárhagslegu skuldbindingar sem bærinn leggur í. Fjármagnið eru auðvitað af skornum skammti og margvíslegar framkvæmdir eru á borðinu sem kalla á fjármagn."

Sigurður J. Hreinsson, bæjarfulltrúi Í-listans leggur fram eftirfarandi bókun:
"Það verða að teljast vægast sagt sérkennilegar sögutúlkanir, sem birst hafa í bókunum minnihlutans í bæjarráði á síðasta fundi sem og í málflutningi sjálfstæðismanna á þessum fundi bæjarstjórnar. Það er því við hæfi að hér verði einnig sett fram sjónarmið hestamanna í þessu máli. Að Ísafjarðarbær hafi verið talinn eigandi íþróttamannvirkjanna að Búðartúni, hefur ekkert með það að gera að Ísafjarðarbær, eða forveri hans Ísafjarðarkaupstaður, hafi á einhverjum tíma sett fjármagn eða vinnuframlag í gerð þeirra. Og raunar fer því víðsfjarri, því hestamenn lögðu sjálfir á sig gríðarlega vinnu og tilkostnað að koma þessum mannvirkjum upp. Var það svo í fjölda ára að einstaklingar í félaginu voru í fjárhagslegum ábyrgðum fyrir stórum upphæðum og á engum tíma hljóp bæjarfélagið undir þann bagga. Eina ástæða þess að bærinn er talinn eigandi mannvirkjanna er fyrsta málsgrein 7. gr. laga nr 64 frá 1998; Íþróttalög og er svohljóðandi: „Bygging íþróttamannvirkja í þágu skóla og til almenningsnota er í verkahring sveitarfélaga nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum." Þegar svo kom upp sú staða að Vegagerðin sýnir áhuga á að taka svæði Hendingar á Búðartúni undir framkvæmdasvæði vegna Óshlíðarganga, gerir Ísafjarðarbær mörg og alvarleg mistök.
- Afhendir Vegagerðinni svæðið áður en búið er að semja um bætur fyrir mannvirkin og glatar þar með algerlega samningsstöðu sinni gagnvart Vegagerðinni.
- Afhendir Vegagerðinni svæðið án þess að hestamenn séu á nokkurn hátt varaðir við og fá því ekki að fjarlægja þær eignir sem þó var mögulegt að taka af svæðinu.
- Neitar alfarið að hestamenn komi nálægt samningaviðræðum um bætur vegna framkvæmdanna.
- Viðurkennir óháða matsmenn sem eiga að meta verðmæti mannvirkjanna, en hafnar niðurstöðu þeirra.
Það verður því að segjast að bæjarstjórinn fyrrverandi, sem er gerandi í þessu máli, bíti höfuðið af skömminni með því að halda því fram í ræðu og riti að Hestamannafélagið Hending hafi sýnt Ísafjarðarbæ óbilgirni og ósanngirni. Vel má halda því fram að með slíkri framsetningu sé málinu snúið á hvolf, því ef einhver aðili hefur sýnt óbilgirni eða ósangirni er það Ísafjarðarbær og bæjarstjórinn fyrrverandi. Með samkomulagi því sem hér er til afgreiðslu hafa báðir samningsaðilar slakað verulega á sínum ýtrustu kröfum. Í samkomulaginu horfa báðir aðilar til framtíðar og sýna vilja til að skapa frambærilega aðstöðu til iðkunar hestaíþrótta í Skutulsfirði. Það er vilji samningsaðila að rjúfa þá kyrrstöðu sem verið hefur undanfarinn áratug í uppbyggingu á svæði hestamanna í Engidal og að þar eflist starf hestamanna. Því eins og allir vita bætir blómlegt íþróttalíf lífsgæði íbúanna."

Forseti ber breytingartillöguna upp til atkvæða.
Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

4.  

1. viðauki við fjárhagsáætlun 2017 - 2017010064

 

Tillaga 961. fundar bæjarráðs við bæjarstjórn að samþykkja 1. viðauka við fjárhagsáætlun. Viðaukinn varðar hækkun á tekjuviðmiðum afslátta ellilífeyrisþega og öryrkja vegna fasteignagjalda 2017 og styrk til Hafstjörnunnar vegna unglingalandsmóts Landsbjargar.

 

Til máls tók: Kristján Andri Guðjónsson, forseti.

Forseti ber tillöguna upp til atkvæða.
Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

5.  

Bæjarráð - 960 - 1701017F

 

Fundargerð 960. fundar bæjarráðs sem haldinn var 23. janúar sl., fundargerðin er í 27 liðum.

 

Til máls tók: Kristján Andri Guðjónsson, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

6.  

Bæjarráð - 961 - 1701020F

 

Fundargerð 961. fundar bæjarráðs sem haldinn var 30. janúar sl., fundargerðin er í 13 liðum.

 

Til máls tók: Kristján Andri Guðjónsson, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

7.  

Fræðslunefnd - 376 - 1701011F

 

Fundargerð 376. fundar fræðslunefndar sem haldinn var 19. janúar sl., fundargerðin er í 4 liðum.

 

Til máls tók: Kristján Andri Guðjónsson, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

8.  

Skipulags- og mannvirkjanefnd - 470 - 1701013F

 

Fundargerð 470. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar sem haldinn var 18. janúar sl., fundargerðin er í 4 liðum.

 

Til máls tók: Kristján Andri Guðjónsson, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

9.  

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 40 - 1701008F

 

Fundargerð 40. fundar umhverfis- og framkvæmdanefndar sem haldinn var 24. janúar sl., fundargerðin er í 4 liðum.

 

Til máls tóku: Kristján Andri Guðjónsson, forseti, Kristín Hálfdánsdóttir og Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:50

 

Gunnar Jónsson

 

Kristján Andri Guðjónsson

Jónas Þór Birgisson

 

Arna Lára Jónsdóttir

Martha Kristín Pálmadóttir

 

Marzellíus Sveinbjörnsson

Sigurður Jón Hreinsson

 

Kristín Hálfdánsdóttir

Gunnhildur Björk Elíasdóttir

 

Gísli Halldór Halldórsson

Þórdís Sif Sigurðardóttir

 

 

Er hægt að bæta efnið á síðunni?