Bæjarstjórn - 359. fundur - 19. mars 2015

 

 

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, er fjarverandi. Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarritari, gegnir hlutverki staðgengils bæjarstjóra.

 

Í byrjun fundar bar forseti upp tvær tillögur að málum sem tekin yrðu á dagskrá með afbrigðum.

 

Forseti leggur til að tekin verði á dagskrá undir 10. lið tillaga sjálfstæðisflokks um ályktun vegna ómskoðana við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

 

Tillaga forseta samþykkt 9-0.

 

Forseti leggur til að tekin verði á dagskrá undir 11. lið tillaga um lánsumsókn til Lánasjóðs sveitarfélaga.

 

Tillaga forseta samþykkt 9-0.

 

 

Dagskrá:

1.  

Notendastýrð persónuleg aðstoð fyrir fatlað fólk - 2014110066

 

Lagt fram bréf dags. 21. nóvember 2014 frá Sif Huld Albertsdóttur, verkefnastjóra Byggðasamlags Vestfjarða, ásamt drögum að reglum Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks varðandi þjónustuformið notendastýrð persónuleg aðstoð fyrir fatlað fólk (NPA). Óskað er eftir umsögn félagsmálanefndar um reglurnar.

Félagsmálanefnd gerir ekki athugasemdir við efnislegt innihald reglna Byggðasamlags Vestfjarða um málefni fatlaðs fólks varðandi þjónustuformið notendastýrð persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk (NPA) og leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að reglurnar verði samþykktar. Félagsmálanefnd bendir á að skýra þarf orðalag þegar fjallað er um verkefnahóp, teymi fagfólks og félagsþjónustusvæði.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Forseti ber tillögu félagsmálanefndar til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

2.  

Hvalárvirkjun og hringtenging raforku um Djúp - 2015030065

 

Tillaga Í-listans til bæjarstjórnar að ályktun.
„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar skorar á Landsnet og ríkisstjórn Íslands að bæta raforkuöryggi og jafna samkeppnisstöðu Vestfjarða með hringtengingu háspennulína um Djúp, milli Ísafjarðar og Hólmavíkur. Með því og tengipunkti inn á línuna innarlega í Ísafjarðardjúpi má tryggja að það afl, sem Hvalárvirkjun kemur til með að framleiða, verði til hagsbóta fyrir samfélag og atvinnulíf á Vestfjörðum. Jafnframt myndi það tryggja að tengigjald virkjunarinnar yrði eðlilegt og hóflegt.“

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Sigurður Jón Hreinsson, Jónas Þór Birgisson, Kristín Hálfdánsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Daníel Jakobsson, Kristján Andri Guðjónsson og Marzellíus Sveinbjörnsson.

Greinargerð:

Raforkuöryggi, raforkugæði og möguleikar á aukinni raforkunotkun eru nokkrar af grundvallarforsendum fyrir uppbyggingu nútímasamfélaga. Íslensk stjórnvöld settu sér markmið fyrir nokkrum árum, um að samfélög á Íslandi standi jafnfætis í þessum efnum.
Ástand raforkukerfisins á Vestfjörðum er hinsvegar þannig að það mun að óbreyttu áfram verða dragbítur á samfélagsþróun í fjórðungnum, enda ekki þess eðlis að það geti laðað til sín atvinnustarfsemi sem reiðir sig á þessa þrjá þætti. Af þeim sökum búa Vestfirðingar ekki við sömu aðstæður og aðrir landsmenn hvað möguleika til atvinnuuppbyggingu varðar. Í frumathugunum Landsnets á tengingarmöguleikum Hvalárvirkjunar kemur fram að tenging virkjunarinnar við Ísafjörð sé kerfislega besta lausnin, sem bætir spennugæði, eykur áreiðanleika og gefur góða möguleika á aukningu álags á því svæði. Hringtenging um Djúp er svo eitt af þremur forgangsatriðum í áliti sem ráðgjafarhópur skipaður af iðnaðarráðherra 2009, skilaði af sér í febrúar 2013.
Nú eru til skoðunar þrír virkjanakostir á svæðinu á milli Ófeigsfjarðar og Nauteyrar, samanlagt með framleiðslugetu yfir 500 GWh á ári. Óeðlilegt verður að teljast að Landsnet standi í vegi fyrir hugsanlegum framkvæmdum og sjálfsagðri uppbyggingu á Vestfjörðum með því að ætla að setja nánast allan kostnað við lagningu raflínanna á virkjunaraðila. Það er á ábyrgð stjórnvalda að gera úrbætur á vanþróuðu flutningskerfi raforku á Vestfjörðum og standa með þeim hætti við eigin markmið.

Forseti ber tillögu Í-listans til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

3.  

Umhverfisvottaðir Vestfirðir - 2011070061

 

Lögð er fram framkvæmdaáætlun Fjórðungssambands Vestfirðinga fyrir árin 2015-2016 um umhverfisvottunarferli sveitarfélaga á Vestfjörðum ásamt sameiginlegri stefnu sveitarfélaga á Vestfjörðum um sjálfbæra þróun í umhverfislegu og félagslegu tilliti.
Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til við bæjarstjórn að áætlunin verði samþykkt og eftir henni unnið.

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Kristján Andri Guðjónsson og Daníel Jakobsson.

Forseti ber tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

4.  

Endurskoðun bæjarmálasamþykktar Ísafjarðarbæjar - 2012120018

 

Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar, leggur fram tillögu að breyttri samþykkt um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar til annarra umræðu, vegna breytinga á nefndum Ísafjarðarbæjar. Forseti leggur til að tillögurnar verði samþykktar af bæjarstjórn.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Forseti ber tillögu forseta til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

5.  

20 ára afmæli Ísafjarðarbæjar og 150 ára kaupstaðarafmæli Ísafjarðar - 2014080069

 

Lagt er fram minnisblað Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur, bæjarritara, dags. 12. mars sl., með tillögu um stofnun starfshóps til undirbúnings kaupstaðarafmælis Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að forsætisnefnd skipi starfshópinn ásamt völdum starfsmönnum.

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Kristján Andri Guðjónsson, Þórdís Sif Sigurðardóttir, staðgengill bæjarstjóra og Marzellíus Sveinbjörnsson.

Forseti ber tillögu bæjarráðs til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

6.  

Deiliskipulag Torfnesi - 2015030035

 

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að hafist verði handa við endurskoðun gildandi deiliskipulags íþróttasvæðis á Torfnesi. Til umræðu eru endurbætur á knattspyrnuvelli ásamt girðingum sem núverandi deiliskipulag tekur ekki til. Einnig er brýnt að færa inn mannvirki sem byggð hafa verið án deiliskipulags eftir grenndarkynningu. Við gerð deiliskipulagsins verði tekið tillit til þeirra hugmynda sem lengi hafa verið til umræðu um nýtingu svæðisins og gildandi deiliskipulag tiltekur að hluta. Jafnframt þarf samhliða deiliskipulagsvinnu að gæta að framtíðarlausn frárennslismála, bæði frá svæðinu og ofan þess.

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Arna Lára Jónsdóttir, Daníel Jakobsson, Sigurður Jón Hreinsson, Kristín Hálfdánsdóttir, Marzellíus Sveinbjörnsson, Kristján Andri Guðjónsson, Jónas Þór Birgisson og Gunnhildur Björk Elíasdóttir.

Arna Lára Jónsdóttir leggur fram eftirfarandi breytingartillögu Í-lista.
Bæjarstjórn felur skipulagsfulltrúa að gera yfirlit yfir aðstæður og fyrirhugaðar framkvæmdir sem talið er að kalli á deiliskipulagsbreytingu á íþróttasvæðinu á Torfnesi. Gera skal ráð fyrir að komið verði upp upphituðum gervigrasvelli á svæðinu. Ekki er gert ráð fyrir að fjölnota íþróttahús eða sundlaug verði byggð á Torfnesi á næstu árum og því óþarfi að vinna deiliskipulag hvað það varðar. Samráð skal haft við sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs og HSV um þarfirnar sem tengjast gervigrasvellinum og jafnvel um nýtingu gamla gervigrasvallarins til næstu ára. Að því búnu getur bæjarstjórn tekið afstöðu til þarfarinnar fyrir breytingar á deiliskipulagi.

Forseti ber breytingatillögu Í-lista upp til atkvæða.
Tillagan samþykkt 5-0.

 

   

7.  

Hönnun við Sundhöll Ísafjarðar - 2015020087

 

Í-listi leggur til að haldin verði samkeppni um hönnun á Sundhöll Ísafjarðar og umhverfi hennar við Austurveg. Skipulags- og byggingarnefnd og íþrótta- og tómstundanefnd komi að forvinnu og þarfagreiningu fyrir samkeppnina. Sérstök áhersla verði lögð á útipotta og endurbætur aðstöðu í víðu samhengi. Aðgengi, klefar, gufa og almenn íþróttaaðstaða yrðu til skoðunar í þessu samhengi og allt húsið og umhverfi þess.

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Daníel Jakobsson, Þórdís Sif Sigurðardóttir, staðgengill bæjarstjóra, Sigurður Jón Hreinsson, Gunnhildur Björk Elíasdóttir, Jónas Þór Birgisson, Kristín Hálfdánsdóttir, Marzellíus Sveinbjörnsson og Arna Lára Jónsdóttir

Marzellíus Sveinbjörnsson leggur fram eftirfarandi bókun Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks við tillögu Í-lista.
Við bæjarfulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar teljum að ekki eigi að fara í samkeppni um hönnun á Sundhöll Ísafjarðar. Betra væri að fara fyrst í forkönnun, og ákveða síðan framhaldið eftir þá könnun. Aðgengi að Sundhöllinni er mjög takmarkað, klefar eru mjög litlir, gufubaðsaðstaða er ófullnægjandi, aðstaða fyrir fatlaða er engin, starfsmannaaðstaða er á undanþágu auk þess er laugin ekki lögleg keppnislaug. Ekki verður séð að þessi vandamál verði leyst nema með ærnum tilkostnaði enda mjög dýrt að breyta uppkomnum byggingum.
Einnig viljum við ítreka þá skoðun okkar að það eigi að fara í einu og öllu eftir ályktun íþrótta- og tómstundanefndar frá 156. fundi, og einnig bókunum meirihluta nefndarmanna á 157. fundi þar sem kveðið er á um að skipuleggja Torfnessvæðið í heild sinni til framtíðar. Það er í fullu samræmi við uppbyggingaráætlun íþróttamannvirkja sem var unnin í samráði við HSV. Það að fara í deiliskipulagsvinnu „eftir því sem þörf krefur" eins og kemur fram í bókun bæjarstjóra á síðasta fundi íþrótta- og tómstundanefndar, nr. 157, til að útbúa nýjan gervigrasvöll á aðalvellinum á Torfnesi, teljum við að sé ekki ásættanlegt. Tillöguna skortir heildarsýn og lýsir samhengislausum vinnubrögðum.

Arna Lára Jónsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun við bókun Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.
Tillaga Í-listans tekur á flestum þeim atriðum sem bókun Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gengur út á, þ.m.t. aðgengi, klefum, gufu og almennri aðstöðu. Jafnframt er kveðið á um að samstarf verði haft við íþrótta- og tómstundanefnd og skipulags- og mannvirkjanefnd um forvinnu og þarfagreiningu.

Daníel Jakobsson leggur fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks við bókun Í-lista.
Tillaga Í-listans tekur á engan hátt á flestum þeim atriðum sem nefnd eru í bókun okkar.
Bókun okkar gengur út á að fleiri kostir en endurbætur á Sundhöllinni við Austurveg verði kannaðir áður en ákvörðun verður tekin um að fara í endurbætur á henni.

Forseti ber tillögu Í-listans til atkvæða.

Tillagan samþykkt 5-4.

 

   

8.  

Samráðsvettvangur varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu - 2015020087

 

Íþrótta- og tómstundanefnd tekur undir orð HSV um samráðsvettvang sveitarfélaga varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að slíkum samráðsvettvangi verði komið á fót.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Forseti ber tillögu íþrótta- og tómstundanefndar til atkvæða.

Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

9.  

Hjúkrunarheimili á Ísafirði - 2011120009

 

Vegna umræðna um hvenær má vænta þess að hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði verði tekið í notkun, þá óska bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir formlegu svari frá bæjarstjóra um hvernig fundir með Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og í Velferðarráðuneytinu um málefni Eyrar, hafi gengið.

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Þórdís Sif Sigurðardóttir, staðgengill bæjarstjóra, Daníel Jakobsson, Marzellíus Sveinbjörnsson, Kristín Hálfdánsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir, Jónas Þór Birgisson, Sigurður Jón Hreinsson og Gunnhildur Björk Elíasdóttir.

Gísli Halldór Halldórsson sendi eftirfarandi svar við fyrirspurn bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.
Fundur bæjarstjóra og formanns byggingarnefndar hjúkrunarheimilis í velferðaráðuneytinu var haldinn miðvikudaginn 18. mars klukkan 14:00 og var hann ákveðinn þann 27. febrúar síðastliðinn í samráði við ráðuneytið. Þar kom fram að ásetningur ráðuneytisins er að rekstur á hjúkrunarheimilinu Eyri hefjist svo skjótt sem verða má eftir að það hefur verið afhent. Föstudaginn 20. mars er áformaður fundur innan ráðuneytis með ráðherra þar sem rætt verður hvort milliganga sveitarfélagins um reksturinn er nauðsynleg eða hvort hann verður milliliðalaust milli ráðuneytis og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Samskipti við HsVest hafa eftir áramót að mestu verið við hjúkrunarforstjóra og hafa farið fram í bréfaskiptum/tölvupósti. Eitthvað hafa hlutir skýrst í þeim samskiptum. Aðaláherslan hefur verið á búnaðarþörf hjúkrunarheimilisins, en einnig hefur verið rætt um aðstöðu starfsfólks, þó seint sé. Bæjarstjóri og formaður byggingarnefndar eru sammála hjúkrunarforstjóra um að þörf sé á skilningi velferðaráðuneytis á að búnaður verði að fullu fjármagnaður ef rétt er að sá búnaður sem fyrir er á öldrunardeild nýtist ekki, en um það hefur verið skipst á skoðunum við ráðuneytið. Starfsmaður Framkvæmdasýslu mun þessa dagana fara yfir búnaðinn sem þar er fyrir.
Viljayfirlýsing HsVest liggur fyrir, frá því 12. apríl 2013, um að stofnunin muni sjá um rekstur hjúkrunarheimilisins í eigin nafni og að starfsfólkið verði starfsfólk HsVest. Aðilar eru ásáttir um að greiðslur fyrir reksturinn miðist við gildandi daggjöld eða nánara samkomulag við velferðarráðuneytið.
Það virðist því ekki ástæða til að ætla annað en að HsVest standi við yfirlýst áform sín um að hefja rekstur svo fljótt sem auðið er þegar hjúkrunarheimilið verður fullbúið, sem áætlað er að verði í júní næst komandi, malbikun á aðkeyrslu ætti að ljúka í júlí.
Bæjarstjóri fundaði með framkvæmdastjóra HsVest fyrir áramótin síðustu. Ekki hefur verið talið rétt að funda að nýju með stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða fyrr en að loknum fundinum með ráðuneytinu. Áformað er að fá fund með stjórnendum HsVest í dymbilviku.
Samningsmarkmið bæjarstjóra er að Ísafjarðarbær niðurgreiði ekki að nokkru leyti rekstur hjúkrunarrýma á Eyri.

Daníel Jakobsson leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.
Bæjarfulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, lýsa yfir þungum áhyggjum af aðgerðaleysi bæjaryfirvalda í Ísafjarðarbæ um málefni hjúkrunarheimilis.
Bygging hjúkrunarheimilis er á lokametrum. Enn á eftir þó eftir að ganga frá rekstrar- og búnaðarkaupasamningi við velferðarráðuneytið sem er forsenda þess að hægt sé að semja við HsVest um rekstur heimilisins. Ekkert hefur gerst í þessu máli á þessu kjörtímabili þrátt fyrir að gríðarlegir hagsmunir bæjarins séu í húfi þegar að kemur að þessum samningum.
Það að bæjarstjóri sé á sínum fyrsta fundi um málið í velferðarráðuneytinu í dag 273 dögum eftir að Í-listinn tók við stjórn bæjarins er algjörlega óásættanlegt. Undirritaðir hvetja oddvita Í-listans til að taka þetta mál föstum tökum þannig að tryggð verði farsæl lausn í þessu máli.

Arna Lára Jónsdóttir leggur fram eftirfarandi bókun fyrir hönd Í-lista.
Það er fráleitt að halda því fram að aðgerðarleysi bæjaryfirvalda sl. mánuði sé um að kenna að ekki hafi komist á samningur milli bæjaryfirvalda og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um rekstur hjúkrunarheimilsins Eyrar. Fyrri meirihluti hafði ekki árangur sem erfiði að ná samningum um reksturinn og voru þó búin að reyna í tvö ár.
Fulltrúar Í-listans eru fullvissir um að bæjarstjóri hafi sinnt málinu af kostgæfni og telja þennan málflutning Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna leið til gera málið tortryggilegt.
Eftir fund bæjarstjóra og formanns nefndar um byggingu hjúkrunarheimilis með starfsmönnum velferðarráðuneytisins 19.mars sl. er tilefni til bjartsýni um að samningar náist. Velferðarráðuneytið er algerlega sammála bæjaryfirvöldum Ísafjarðarbæ um að það er mikill akkur fyrir Heilbrigðisstofnun Vestfjarða að fá inn í sinn rekstur 30 hjúkrunarrými í stað 19 og sá ekkert nema tækifæri fyrir stofnunina, eins og við heimamenn höfum iðulega haldið fram.


Þórdís Sif Sigurðardóttir, staðgengill bæjarstjóra, vék af fundi kl 18:55.

 

   

10.  

Ómskoðun hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða - 2015030024

 

Mál tekið á dagskrá með afbrigðum.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram eftirfarandi tillögu að ályktun.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar því að Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi tryggt að áfram sé hægt að bjóða upp á öflugt mæðraeftirlit og ómskoðanir í Ísafjarðabæ og nágrenni til framtíðar.

 

Til máls tóku Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti og Kristín Hálfdánsdóttir.

Forseti ber tillögu sjálfstæðisflokks til atkvæða.
Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

11.  

Lánasjóður - ýmis erindi 2012/2015 - 2012020099

 

Mál tekið á dagskrá með afbrigðum.

Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 400.000.000 kr. til 15 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Er lánið tekið til að fjármagna byggingu hjúkrunarheimilis og aðrar framkvæmdir samkvæmt fjárhagsáætlun 2015 sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Þórdísi Sif Sigurðardóttur, kt. 180378-4999 veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Ísafjarðarbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Forseti ber tillöguna til atkvæða.
Tillagan samþykkt 9-0.

 

   

12.  

Bæjarráð - 877 - 1503005F

 

Fundargerð 877. fundar bæjarráðs, sem haldinn var 9. mars sl., fundargerðin er í 8 liðum.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

13.  

Bæjarráð - 878 - 1503010F

 

Fundargerð 878. fundar bæjarráðs sem haldinn var 16. mars sl., fundargerðin er í 19 liðum.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

14.  

Félagsmálanefnd - 395 - 1503001F

 

Fundargerð 395. fundar félagsmálanefndar sem haldinn var 3. mars sl., fundargerðin er í 7 liðum.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

15.  

Hafnarstjórn - 178 - 1503009F

 

Fundargerð 178. fundar hafnarstjórnar sem haldinn var 10. mars sl., fundargerðin er í 4 liðum.

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Kristján Andri Guðjónsson og Daníel Jakobsson.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

16.  

Íþrótta- og tómstundanefnd - 157 - 1503013F

 

Fundargerð 157. fundar íþrótta- og tómstundanefndar sem haldinn var 16. mars sl., fundargerðin er í 3 liðum.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

17.  

Skipulags- og mannvirkjanefnd - 430 - 1503007F

 

Fundargerð 430. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar sem haldinn var 11. mars sl., fundargerðin er í 8 liðum.

 

Til máls tóku: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti, Marzellíus Sveinbjörnsson, Daníel Jakobsson og Sigurður Jón Hreinsson.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

18.  

Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 11 - 1502016F

 

Fundargerð 11. fundar umhverfis- og framkvæmdanefndar sem haldinn var 12. mars sl., fundargerðin er í 3 liðum.

 

Til máls tók: Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

   

 

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:30

 

Nanný Arna Guðmundsdóttir

 

Kristján Andri Guðjónsson

Jónas Þór Birgisson

 

Arna Lára Jónsdóttir

Daníel Jakobsson

 

Marzellíus Sveinbjörnsson

Sigurður Jón Hreinsson

 

Kristín Hálfdánsdóttir

Gunnhildur Björk Elíasdóttir

 

Þórdís Sif Sigurðardóttir

Hjördís Þráinsdóttir

 

 

Er hægt að bæta efnið á síðunni?