Bæjarstjórn - 335. fundur - 12. desember 2013

 

 

Fjarverandi aðalfulltrúar: Guðný Stefanía Stefánsdóttir, í hennar stað Ingólfur Þorleifsson, Albertína F. Elíasdóttir, í hennar stað Marzellíus Sveinbjörnsson.

 

Dagskrá:

 

I Tillaga frá 820. fundi bæjarráðs Ofanflóðamannvirki neðan Gleiðarhjalla
II Tillaga frá 820. fundi bæjarráðs Hækkun útsvarsálagningar
III

Úthlutun byggðarkvóta á Suðureyri

Erindi smábátasjómanna á Suðureyri 1/12
IV Fjárhagsáætlun 2014 seinni umræða
V Fundargerð(ir) bæjarráðs 2/12 og 9/12
VI " hafnarstjórnar 26/11
VII " íþrótta- og tómstundarnefndar 21/11 og 4/12
VIII " umhverfisnefndar 4/12

 

I.              Tillaga til 335. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 12. desember 2013.

          Til máls tóku: Gísli Halldór Halldórsson, forseti og Daníel Jakobsson, bæjarstjóri. 

 

Bæjarráð, 820. fundur 2. desember 2013.

8.    Ofanflóðamannvirki neðan Gleiðarhjalla. 2011-10-0068.

 

„Með vísan til þess gildandi hættumats fyrir Ísafjarðarbæ og samþykktrar tillögu um gerð varnarvirkja á svæðinu, sbr. m.a. erindi Ísafjarðarbæjar dags. 28. júní sl. til eigenda fasteignarinnar Seljalandsvegar 102, Ísafirði og þess að viðræður um kaup á fasteigninni hafa reynst árangurlausar, neytir bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar heimildar sinnar samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 49/1997 og tekur hér með fasteignina Seljalandsveg 102, Ísafirði, ásamt öllu sem henni fylgir og fylgja ber, þ.m.t. lóðarréttindum, eignarnámi. Þar sem ágreiningur er um fjárhæð eignarnámsbóta er ákvörðun um þær vísað til matsnefndar eignarnámsbóta í samræmi við 4. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Ísafjarðarbær áskilur sér rétt til að taka umráð hins eignarnumda í samræmi við ákvæði 14. gr. laga nr. 11/1973.“ 

 

Tillaga bæjarráðs samþykkt 9-0.

 

II.           Tillaga til 335. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 12. desember 2013. 

Til máls tók: Gísli Halldór Halldórsson, forseti.

 

Bæjarráð, 820. fundur 2. desember 2013.

9.    Hækkun útsvarsálagningar. 2012-07-0029.

 

Lagður er fram tölvupóstur Karls Björnssonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 29. nóvember 2013, þar sem gerð er grein fyrir heimild til að hækka leyfilegt hámarksútsvar af tekjum manna á árinu 2013 vegna tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga.

Bæjaráð leggur það til við bæjarstjórn að útsvar verði 14,52% vegna breytinga á málefnum fatlaðra.

 

Tillaga bæjarráðs samþykkt 9-0.

 

III.        Úthlutun byggðakvóta á Suðureyri. 2013-09-0024.

          Til máls tóku: Gísli Halldór Halldórsson, forseti, og Sigurður Pétursson.

 

Forseti las upp bréf frá þeim tólf smábátasjómönnum sem bæjarstjórn bárust.

 

Forseti lagði fram svohljóðandi tillögu meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar að svari:

 

„Bæjarstjórn þakkar erindi smábátasjómanna á Suðureyri og fagnar öllum hugmyndum sem orðið geta til úrbóta.

Bæjarstjórn hefur lagt á það áherslu í ákvörðunum um byggðakvóta að hann nýtist til að efla atvinnulíf á hverjum stað með sem áhrifamestum hætti. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að hann nýtist vinnslu í landi. Reynslan bendir til þess að bátar sem fá úthlutað byggðakvóta en eru ekki með veiðireynslu séu ólíklegri en aðrir til að landa öllum þeim byggðakvóta sem þeir eiga rétt til, enda líklegt að þeir þurfi að leigja sér andlagið. Það getur svo aftur leitt til þess að ekki komi allur sá byggðakvóti að landi sem byggðin hefur fengið vilyrði fyrir, hann falli niður óveiddur eða frestist.

Sú aðferð sem notuð var þegar helmingi byggðakvótans var deilt jafnt á alla báta var hugsuð til þess að opna þeim sem ekki höfðu veiðireynslu leið inn í byggðakvótann og þar með tækifæri til að byggja upp sína reynslu. Hinsvegar var sá háttur tekinn upp af sjávarútvegsráðuneytinu á sama tíma að leyfa það að afli af strandveiðum yrði talinn til veiðireynslu í byggðakvóta og þar með var nýliðum opnuð leið inn í byggðakvótann. Taldi bæjarstjórn af þessum sökum ekki ástæðu til þess að viðhafa þessa aðferð áfram.“

 

Gísli Halldór Halldórsson, forseti ber tillöguna til atkvæða

 

Tillagan samþykkt 9-0.

 

IV.        Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2014 – Síðari umræða. 2013-06-0033.

          Til máls tóku: Gísli Halldór Halldórsson, forseti, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Arna Lára Jónsdóttir, Sigurður Pétursson, Kristín Hálfdánsdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Kristján Andri Guðjónsson.

 

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, lagði fram frumvarp að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2014, ásamt gjaldskrá og greinargerð, til síðari umræðu og gerði grein fyrir frumvarpinu í stefnuræðu sinni.

 

Bæjarstjóri gerði eftirfarandi breytingartillögu við efnahagsreikning Ísafjarðarbæjar 2014:

1)      Eignarhlutur í félögum í samanteknum A og B hluta 31.12.2014 verði kr. 401.377,- í stað kr. 528.948,-.

2)      Óinnheimtar skatttekjur í samanteknum A og B hluta 31.12.2104 verði kr. 200.878,- í stað kr. 0,-.

3)      Eiginfjárreikningar í samanteknum A og B hluta 31.12.2014 verði kr. 641.564,- í stað kr. 769.135,-.

4)      Viðskiptaskuldir í samanteknum A og B hluta 31.12.2014 verði kr. 126.489,- í stað kr. 39.100,-.

5)      Skuldir við lánastofnanir í samanteknum A og B hluta 31.12.2014 verið kr. 109.418,- í stað kr. 3.000,-.

6)      Aðrar skammtímaskuldir í samanteknum A og B hluta 31.12.2014 verði kr. 108.129,- í stað kr. 101.129,-.

 

Breytingartillaga Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, samþykkt 9-0.

 

Að lokinni umræðu um fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir starfsárið 2014, ásamt gjaldskrá og greinargerð, var gengið til atkvæðagreiðslu um áætlunina í heild sinni með áorðnum breytingum við afgreiðslu einstaka tillagna.

 

Rekstraráætlun 2014, með greinargerð og viðaukum að teknu tilliti til breytinga milli fyrri og síðari umræðu borin upp til atkvæðagreiðslu.

Rekstraráætlun 2014 þannig breytt samþykkt 9-0.

 

Gjaldskrár Ísafjarðarbæjar og stofnana, er dreift var með dagskrá 335. fundar bæjarstjórnar, borin upp til atkvæðagreiðslu.

Gjaldskrárnar samþykktar 9-0.

 

Efnahagsreikningur 31. desember 2014, yfirlit um sjóðstreymi árið 2014 og áætlun um fjárfestingar á árinu 2014 borin upp til atkvæða í einu lagi. 

Efnahagsreikningur 2014 þannig breyttur samþykktur 9-0.

 

Bæjarfulltrúar Í-listans lögðu fram svohljóðandi bókun:

 

„Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2014 hefur nú verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Fjárhagsáætlun var lögð fram sameiginlega af meiri- og minnihluta og eru það vinnubrögð sem við í Í-listanum teljum farsæl fyrir sveitarfélagið.

Við teljum að markmið okkar og áherslur um forgangsröðun í þágu barnafjölskyldna hafi náð fram að ganga í fjárhagsáætluninni.  Við lögðum  fram þrjár tillögur í undirbúningi fjárhagsáætlunar í þessu samhengi; Í fyrsta lagi að leggja skólum bæjarfélagsins til fjárhæð til að mæta kostnaði við kaup á stílabókum, skriffærum, vasareiknum og öðrum smáverkfærum sem nemendur þurfa á að halda til að geta sinnt námi sínu. Í öðru lagi að gerð verði fýsileikakönnun á  af því að kaupa færanlega kennslustofu til að setja við leikskólann Sólborg og í þriðja lagi að aftur yrði tekin upp afsláttur á leikskólagjöldum fyrir fimm ára börn á leikskólanum. Auk þess lögðum við til að vinnufundi bæjarstjórnar að ekki yrði hækkaðar gjaldskrár á fræðslu- og félagsmál. Þessar tillögur fengur allar brautargengi í fjárhagsáætlun nema sú að veita foreldrum fimm ára börnum afslátt af leikskólagjöldum. Bæjarfulltrúar Í-listans telja það vera ánægjulegt að bæjarstjórnin skuli vera sammála um þessa forgangsröðun.

Rekstur Ísafjarðarbæjar er enn þungur þrátt fyrir mörg jákvæð jákvæð merki og bætta rekstrarafkomu. Þessi niðurstaða er afrakstur þeirra miklu vinnu og niðurskurðar sem bæjarstjórnin fór sameiginlega í á árunum 2010 og 2011. Mestu skiptir nú að sýna aðhald í rekstri og standa við samþykkta fjárhagsáætlun.“

 

V.           Fundargerðir bæjarráðs.

            Til máls tóku: Gísli Halldór Halldórsson, forseti, Sigurður Pétursson, Jóna Benediktsdóttir, Ingólfur Þorleifsson, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Kristján Andri Guðjónsson.

 

Fundargerðin 2/12. 820. fundur.

Fundargerðin er í ellefu liðum.

 

Fundargerðin 9/12. 821. fundur.

Fundargerðin er í tólf liðum.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

 

VI.        Hafnarstjórn.

            Til máls tók: Gísli Halldór Halldórsson, forseti.

 

Fundargerðin 26/11. 168. fundur.

Fundargerðin er í fimm liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

VII.     Íþrótta- og tómstundanefnd.

            Til máls tóku: Gísli Halldór Halldórsson, forseti og Jóna Benediktsdóttir.

 

Fundargerðin 21/11. 144. fundur.

Fundargerðin er í fjórum liðum.

 

Fundargerðin 4/12. 145. fundur.

Fundargerðin er í þremur liðum.

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

 

VIII.  Umhverfisnefnd.

            Til máls tóku: Gísli Halldór Halldórsson, forseti og Jóna Benediktsdóttir.

 

Fundargerðin 4/12. 404. fundur.

Fundargerðin er í tíu liðum.

 

Jóna Benediktsdóttir, Arna Lára Jónsdóttir og Sigurður Pétursson lögðu fram svohljóðandi bókun 2013-11-0070:

 

„Undirritaðir bæjarfulltrúar Í-listans í Ísafjarðarbæ lýsa yfir vonbrigðum með að til standi að fella úr gildi nýlega samþykkt lög um náttúruvernd. Verði lögin felld úr gildi minnka til muna líkur á því að náttúra Íslands verði látin njóta vafa þegar til stendur að fara í framkvæmdir sem geta haft alvarleg óafturkræf áhrif á umhverfi og náttúru landsins. það hlýtur að vera skylda sérhvers stjórnvalds að sjá til þess að aðgerðir sem snúast um nýtingu náttúruauðlinda séu sjálfbærar og minnki ekki möguleika framtíðar til að lifa af kostum landsins líkt og gert er á okkar dögum.“

Fundargerðin lögð fram til staðfestingar.

Fundargerðin staðfest 9-0.

 

IX.        Tillaga til 335. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 12. desember 2013. 

            Til máls tóku: Gísli Halldór Halldórsson, forseti, Sigurður Pétursson, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri og Kristján Andri Guðjónsson.

 

2.      Smiðjan Þingeyri. 2012-09-0037.

Lagðir eru fram minnispunktar frá fundi stjórnar Byggðasafns Vestfjarða 6. nóvember 2013, auk fylgigagna.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Byggðasafnið taki Smiðjuna yfir.

 

Forseti bæjarstjórnar leggur til að tillögunni verði breytt og verði samþykkt á eftirfarandi hátt:

„Forseti leggur til að Byggðasafn Vestfjarða taki Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar á Þingeyri yfir í samræmi við minnispunkta frá fundi stjórnar Byggðasafns Vestfjarða 6. nóvember 2013.“

 

Tillaga forseta samþykkt 9-0.

 

Samþykkt var að síðari fundur bæjarstjórnar verði felldur niður, aðeins verði einn fundur bæjarstjórnar í janúar, þann 16. janúar 2014.

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og undirrituð.  Fundi slitið kl. 18:50.

 

Þórdís Sif Sigurðardóttir, ritari 

Gísli Halldór Halldórsson, forseti bæjarstjórnar. 

Kristín Hálfdánsdóttir.                                                        

Steinþór Bragason.

Ingólfur Þorleifsson                                                             

Marzellíus Sveinbjörnsson.

Sigurður Pétursson.                                                              

Arna Lára Jónsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir.                                                           

Kristján Andri Guðjónsson.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?