Bæjarstjórn - 308. fundur - 1. mars 2012

 

 

Dagskrá:

I.   Tillaga frá 739. fundi bæjarráðs. - Samgönguáætlun 2011-2022. 2012-02-0026.
II.   Tillaga frá 365. fundi félagsmálanefndar. - Skipurit fjölskylduskrifstofu Ísafjarðarbæjar.  2012-02-0048.
III.   Tillaga til 308. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. - Áhorfendastúka við Torfnesvöll á Ísafirði.  2011-06-0053.
IV. Fundargerð(ir) bæjarráðs 20/2. og 27/2.
V. " atvinnumálanefndar 23/2.
VI. " félagsmálanefndar 14/2. 
VII. " íþrótta- og tómstundanefndar 22/2.
 VIII. " umhverfisnefndar 22/2.
IX. " þjónustuhóps aldraðra 3/2.

 

I.          Tillaga til 308. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 1. mars 2012.

                Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti og Sigurður Pétursson.  

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar 739. fundur 27. febrúar 2012.

5.         Bréf nefndasviðs Alþingis. - Samgönguáætlun 2011-2022.  2012-02-0026.

Lagt fram bréf nefndasviðs Alþingis frá 3. febrúar sl., er varða beiðni um umsögn á tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011-2022.  Skilafrestur er til 29. febrúar n.k.

Bæjarráð vísar bókun umhverfisnefndar frá 370. fundi 4. dagskrárlið til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 1. mars n.k., með viðeigandi breytingum á texta.

 

Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun 2011-2022,  393. mál. - umsögn.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur nauðsynlegt að byggðum á Vestfjörðum verði komið í heilsársvegasamband nú þegar og leggur áherslu á að Dýrafjarðargöng og vegur yfir Dynjandisheiði verði sett á fjögurra ára samgönguáætlun og í framkvæmd.

Væri það í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar Ísafjarðar frá 18. október 1954, sem var eftirfarandi: "Bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkir að skora á Alþingi að veita þegar á næsta ári það ríflegt fé til að Vestfjarðarvegur um Barðaströnd, að Ísafirði komist í vegasamband þá leið, eigi síðar en á árinu 1956 [...] Bæjarstjórn heitir á alla þingmenn Vestfirðinga að veita þessu máli allt það lið sem þeir mega.“

Jafnframt verði vetrarþjónusta á þjóðvegi 61 færð til fyrri vegar þannig að leiðinni milli Ísafjarðar og Reykjavíkur sé haldið opinni alla daga vikunnar.

Þá telur bæjarstjórn mikilvægt, að gert verði átak í að útrýma einbreiðum brúm, en óásættanlegt er að enn séu einbreiðar brýr í sveitarfélaginu það er  í Dýrafirði, Önundarfirði og Arnarfirði.

Nauðsynlegt er að halda áfram uppbyggingu á Ísafjarðarflugvelli þannig að hægt sé að halda þaðan uppi flugsamgöngum við Grænland auk þess að enn vantar ljósabúnað til að hægt sé að fljúga næturflug.

Bent er á að fé til hafnarframkvæmda og sjóvarna er ekki í samræmi við fyrirætlanir Ísafjarðarbæjar.

Þá leggur bæjarstjórn áherslu á að Alþingi beiti sér fyrir því, að aðgengi að háhraðatengingum og nútíma fjarskiptaþjónustu verði tryggð um land allt, en ekki bara sum staðar eins og hefur verið.

            Tillaga bæjarráðs samþykkt 9-0.

 

II.        Tillaga til 308. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 1. mars 2012.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti og Guðfinna Hreiðarsdóttir.

 

Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar 365. fundur 14. febrúar 2012.

3.         2012010013 - Skipurit fjölskyldusviðs Ísafjarðarbæjar.

Lögð fram tillaga að nýju skipuriti fyrir fjölskyldusvið Ísafjarðarbæjar.

Félagsmálanefnd leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að skipuritið verði samþykkt.

            Tillaga félagsmálanefndar samþykkt 9-0.

 

III.       Tillaga til 308. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 1. mars 2012. 

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Eiríkur Finnur Greipsson, Arna Lára Jónsdóttir, Gísli H. Halldórsson, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Jóna Benediktsdóttir, Sigurður Pétursson, Guðfinna Hreiðarsdóttir, Kristján Andri Guðjónsson og Kristín Hálfdánsdóttir.  

 

2011-06-0053.

Tillaga frá meirihluta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar varðandi áhorfendastúku við Torfnesvöll á Ísafirði.   

,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að ganga til samninga við HSV, um byggingu stúku á Torfnesvelli á Ísafirði, sem tryggt getur heimaleiki BÍ/Bolungarvíkur á Ísafirði í sumar. Gengið verði út frá að framlag bæjarins komi ekki til greiðslu fyrr en á nýju fjárhagsári.  

Jafnframt óskar bæjarstjórn eftir viðræðum við Bolungarvíkurkaupstað, um aðkomu þeirra að málinu.“

 

Eiríkur Finnur Greipsson lagði fram svohljóðandi breytingatillögu ásamt greinargerð við ofangreinda tillögu meirihluta bæjarstjórnar.

,,Gengið verði út frá að framlag bæjarins verði um kr. 5 milljónir og komi ekki til greiðslu fyrr en á nýju fjárhagsári.“

 

Greinargerð:                                                           

Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar skilur vel mikilvægi þess að í bænum séu öflugir meistaraflokkar í fremstu röð í hópíþróttum, enda þjónar það þeim tilgangi að vera ungu fólki og öðrum bæjarbúum til fyrirmyndar.

KSÍ hefur sett það sem skilyrði að við knattspyrnuvelli séu 300 aðskilin sæti svo hægt sé að leyfa þar leiki í 1. deild. Meirihlutinn telur eðlilegt að Ísafjarðarbær komi að lausn málsins en að skilyrði KSÍ eigi hinsvegar að uppfylla með lágmarkstilkostnaði.

Undanfarin ár hefur sú stefna legið fyrir í Ísafjarðarbæ að HSV leggi stefnuna um áherslur og forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Með það vinnulag til hliðsjónar er eðlilegt að vilyrði um fjárframlag Ísafjarðarbæjar í tengslum við stúkubyggingu séu til HSV og þeim falið að leita hagkvæmustu og bestu leiðanna til að leysa þetta mál.“

 

Arna Lára Jónsdóttir lagði fram svohljóðandi tillögu frá Í-lista undir þessum lið dagskrár.

,,Fjárhagsstaða Ísafjarðarbæjar er mjög þröng, eins og fram kemur í fjárhagsáætlun yfirstandandi árs og drögum að 3ja ára áætlun bæjarins. Þess vegna telur bæjarstjórn sér ekki fært við núverandi aðstæður að skuldbinda bæjarsjóð fyrir margra milljóna útgjöldum, til framkvæmda við áhorfendastúku við íþróttavöllinn á Torfnesi.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar lýsir sig reiðubúna til viðræðna við HSV um lausn málsins, sem taki mið af núverandi fjárhagsaðstæðum, sem einkennast af niðurskurði á mörgum sviðum, skerðingu þjónustu á leikskólum, sundstöðum og víðar, uppsögnum starfsfólks og launalækkunum og hækkun gjalda.“

Undirritað af Sigurði Péturssyni, Örnu Láru Jónsdóttur, Kristjáni Andra Guðjónssyni og Jónu Benediktsdóttur.

            Breytingatillaga meirihluta bæjarstjórnar samþykkt 5-4.                                                                            

            Tillaga meirihluta með breytingatillögunni samþykkt 5-4.

            Tillaga Í-lista kom ekki til atkvæðagreiðslu.

 

Bókun bæjarfulltrúa Í-lista vegna byggingar áhorfendastúku við Torfnesvöll lögð fram af Örnu Láru Jónsdóttur.

,,Vinna við fjárhagsáætlun 2012 var okkur bæjarfulltrúum oft á tíðum ansi erfið, þar sem taka þurfti margar sársaukafullar ákvarðanir, sem snerta grunnþjónustu sveitarfélagsins.  Þjónusta var skorin niður á all flestum sviðum, laun lækkuð, dregið var úr þjónustu, starfsfólki sagt upp og gjöld voru hækkuð.

Við bæjarfulltrúar Í-listans  tókum þátt í þessari vinnu og samþykktum svo fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 nú í desember sl.. Í þessari vinnu kom bygging áhorfendastúku til umræðu og var það mat allra bæjarfulltrúa á þeim tíma að ekki væri hægt að leggja til fjármagn  til verkefnisins í ljósi afar þröngrar fjárhagsstöðu.

Þetta var ein af þeim forsendum sem við, bæjarfulltrúar Í-listans, settum sem skilyrði til samþykktar fjárhagsáætlunar. Við töldum ekki forsvaranlegt að leggja fjármagn í slíkt verkefni þegar vegið er að grunnþjónustunni með þeim hætti sem við gerðum með samþykkt fjárhagsáætlunar. Sú skoðun okkar stendur þrátt fyrir ístöðuleysi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar kemur að fjármálum bæjarins.

Lögð voru fram drög að þriggja ára áætlun sveitarfélagsins nú um miðjan febrúar.

 

Sú áætlun ber engin merki þess að hagur bæjarsjóðs sé að vænkast að einhverju ráði, samt sem áður ætlar meirihluti bæjarstjórnar að skrifa gúmmitékka til byggingar áhorfendastúku. Sú ákvörðun er ekki tekin með hag bæjarbúa og bæjarsjóðs að leiðarljósi. Á tímum þröngrar fjárhagsstöðu er enn mikilvægara en áður, að sýna festu í fjármálum bæjarins og þá ábyrgð vorum við bæjarfulltrúar Í-listans tilbúin að axla.

Þess vegna eru það okkur mikil vonbrigði að bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu tilbúnir að víkja frá þeirri samstöðu sem myndaðist við gerð fjárhagsáætlunar í lok síðasta árs og samþykkja framkvæmd sem ekki er til fjármagn fyrir.

Yfirvöld knattspyrnumála í landinu verða að gera sér grein fyrir því hvaða ár er. Þau geta ekki stillt sveitarfélögum upp að vegg og svipt knattspyrnuáhugafólk réttindum af heimavöllum, með óraunhæfum og óþörfum kröfum um fjárfrekar framkvæmdir, þegar sár þörf er á framlögum til annarra þátta íþrótta- og tómstundamála eða á öðrum sviðum.

Það er vel skiljanlegt að mikill áhugi sé fyrir því að byggja áhorfendastúku og búa til góða umgjörð í kringum knattspyrnuna.  Við bæjarfulltrúar Í-listans erum reiðubúin til að eiga viðræður við HSV og BÍ/Bolungarvík til að tryggja heimaleiki félagsins.“

Undirritað af Örnu Láru Jónsdóttur, Kristjáni Andra Guðjónssyni, Jónu Benediktsdóttur og Sigurði Péturssyni.

 

IV.       Bæjarráð.   

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Arna Lára Jónsdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Kristján Andri Guðjónsson, Eiríkur Finnur Greipsson, Sigurður Pétursson, Gísli H. Halldórsson og Daníel Jakobssyni, bæjarstjóri.

 

Fundargerðin 20/2.  738. fundur.

Fundargerðin er í ellefu liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

Fundargerðin 27/2.  739. fundur.

Fundargerðin er í fimmtán liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

V.         Atvinnumálanefnd.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Sigurður Pétursson og Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Fundargerðin 23/2.  112. fundur.

Fundargerðin er í fjórum liðum.

Fundagerðin lögð fram til kynningar.

 

VI.       Félagsmálanefnd.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Guðfinna Hreiðarsdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri og Sigurður Pétursson.

 

Fundargerðin 14/2.  365. fundur.

Fundargerðin er í þrettán liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

VII.     Íþrótta- og tómstundanefnd.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Jóna Benediktsdóttir og Gísli H. Halldórsson.

 

Fundargerðin 22/2.  130. fundur.

Fundargerðin er í tveimur liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

VIII.    Umhverfisnefnd.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Sigurður Pétursson og Gísli H. Halldórsson.

 

Fundargerðin 22/2.  370. fundur.

Fundargerðin er í sex liðum.

Fundargerðin staðfest í heild sinni 9-0.  

 

IX.       Þjónustuhópur aldraðra.

Fundargerðin 3/2.  69. fundur.

Fundargerðin er í fjórum liðum.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og undirrituð.  Fundi slitið kl. 19:55.

 

Þorleifur Pálsson, ritari.

Albertína Elíasdóttir, forseti bæjarstjórnar.

Eiríkur Finnur Greipsson.                                                       

Gísli H. Halldórsson.

Guðfinna M. Hreiðarsdóttir.                                                  

Kristín Hálfdánsdóttir.                                                          

Sigurður Pétursson.                                                                

Arna Lára Jónsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir.                                                             

Kristján Andri Guðjónsson.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?