Bæjarstjórn - 305. fundur - 15. desember 2011

 

 

Dagskrá:

 

I. Tillaga frá 728. fundi bæjarráðs

Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga. 2011-02-0021.

II. Tillaga frá 728. fundi bæjarráðs

Tillögur frá 728. fundi bæjarráðs. - Gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits      Vestfjarða.  2011-12-0017.

III: Tillaga frá 363. fundi félagsmálanefndar

Reglur um afgreiðslu umsókna um skammtímavistun og verklag. 2011-12-0028

IV. Tillaga frá 364. fundi umhverfisnefndar

Deiliskipulag á Ársgeirsbakka. 2011-08-0021.

V. Tillaga frá 364. fundi umhverfisnefndar Deiliskipulag neðan Gleiðarhjalla.  2011-05-0028.
VI. Tillaga frá 364. fundi umhverfisnefndar Flutningur tengivirkis í Stórurð, Ísafirði. 2011-11-0051.
VII. Tillaga til bæjarstjórnar Ályktun vegna Dýrafjarðarganga
VIII. Fundargerð(ir) bæjarráðs 28/11., 7/12. og 12/12
IX. " stjórnar Byggðasafns Vestfjarða 16/11
X. " fræðslunefndar 23/11
XI. " nefndar um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði 1/12
XII. " nefndar um sorpmál í Ísafjarðarbæ 23/11
XIII. " umhverfisnefndar 30/11
XIV. Tillaga frá 729. fundi bæjarráðs

Tillaga frá 729. fundi bæjarráðs. - Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar,

stofnana hans og fyrirtækja, ásamt gjaldskrám fyrir árið 2012, síðari umræða.

 

I.          Tillaga til 305. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

            Til máls tók: Albertína Elíasdóttir, forseti.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar 728. fundur 7. desember 2011.

Lánasjóður sveitarfélaga. - Lántaka til endurfjármögnunar á erlendu láni.  2011-02-0021.

            Lagður fram lánssamningur Ísafjarðarbæjar nr.41/2011, sem lántaka við Lánasjóð sveitarfélaga ohf., sem lánveitanda.  Samningurinn er vegna lántöku Ísafjarðarbæjar hjá sjóðnum upp á kr. 178.000.000.- til 15. ára.  Lánið er tekið til endurfjármögnunar á erlendu láni Ísafjarðarbæjar hjá Lánasjóðnum.  Svohljóðandi bókun þarf að vera samþykkt á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

 

Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins:

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir hér með að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf. að fjárhæð 178.000.000 kr. til 13 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Til tryggingar láninu standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 3. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Er lánið tekið til að endurfjármagna erlent lán sveitarfélagsins hjá lánasjóðnum, sem var með endurskoðunarákvæði í desember 2011, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Jafnframt er Daníel Jakobssyni, bæjarstjóra, kt. 170873-4249, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Ísafjarðarbæjar, að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf. sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari.

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að lántakan ásamt greindum heimildum verði samþykkt.

 

            Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að veita ofangreindar heimildir til lántöku og umboð til Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra, til að undirrita lánasamning við Lánasjóð sveitarfélaga ohf., sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari. 

            Samþykkt með öllum greiddum atkvæðum 9-0.

 

II.        Tillaga til 305. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

            Til máls tók: Albertína Elíasdóttir, forseti.

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar 728. fundur 7. desember 2011.

Gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða 2012. 2011-12-0017.

            Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 5. desember sl., er varðar gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2012.           

            Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn, að tillaga að gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2012 verði samþykkt.

            Tillaga bæjarráðs samþykkt 9-0.

 

III.       Tillaga til 305. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

            Til máls tók: Albertína Elíasdóttir, forseti.

 

Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar 363. fundur 12. desember 2011.

Reglur um afgreiðslu umsókna um skammtímavistun og verklag.2011-12-0028.

Lagðar fram reglur um afgreiðslu umsókna um skammtímavistun og verklag sem samdar voru af verkefnahópi BsVest.

Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar lýsir ánægju sinni með reglurnar og leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að þær verði samþykktar með þeim fyrirvara að þeir aðilar sem hafa fengið aukavistun vegna erfiðrar fötlunar og félagslegra aðstæðna verði ekki fyrir skerðingu á þjónustu í skammtímavistun. Þjónustu við þá einstaklinga verði haldið áfram þar til varanlegt búsetuúrræði liggur fyrir.

            Tillaga félagsmálanefndar samþykkt 9-0.

 

IV.       Tillögur til 305. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

                Til máls tók: Albertína Elíasdóttir, forseti.  

 

Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar 364. fundur 30. nóvember 2011.

Deiliskipulag, Ásgeirsbakki, Ísafirði.  2011-08-0021.

            Auglýsinga- og athugasemdafresti vegna deiliskipulags á Ásgeirsbakka, Ísafirði, er lokið. Fjórar athugasemdir bárust.

            Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt með þeim breytingum að lóðin minnki sem samsvarar 6 m frá suðurhluta Ásgeirsbakka í samræmi við teikningu frá Teiknistofunni Eik dags. nóvember 2011. Með þeirri breytingu á deiliskipulaginu er komið til móts við athugasemdir Sjósportmiðstöðvar Íslands, Röráss ehf., Ragneiðar Hákonardóttur og stjórnar Sæfara félags áhugafólks um sjósport á Ísafirði.

Varðandi athugasemdir Ragnheiðar Hákonardóttur þá hefur Húsafriðunarnefnd skilað inn jákvæðri umsögn um deiliskipulagstillöguna og einnig liggur fyrir að hafnarstjórn og stjórn Byggðasafnsins hafa ekki gert athugasemdir. Gert er ráð fyrir uppsátri báta sunnan við núverandi dráttarbraut við Suðurtanga 2, Ísafirði.

Forseti tók fram að byggingarreitur breytist ekki frá fyrri tillögu.

             Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 9-0.

 

V.        Erindi til 305. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti og Kristján Andri Guðjónsson.

 

Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar 364. fundur 30. nóvember 2011.

Deiliskipulag neðan Gleiðarhjalla.  2011-05-0028.

           Auglýsinga- og athugasemdafrestur vegna deiliskipulags neðan Gleiðarhjalla er liðinn. Tvær athugasemdir bárust.

           Umhverfisnefnd telur að framkomnar athugasemdir Ragnheiðar Hákonardóttur eigi ekki við um deiliskipulagið og vísar þeim í vinnu við umhverfismat framkvæmda. Varðandi athugasemdir íbúa að Urðarvegi 50 og 52 þá mun aðgengi að lóðum þeirra ekki skerðast. Leitast verður við að lega háspennustrengja verði eins langt frá íbúðabyggð og kostur er, þó er ekki mögulegt að leggja þá ofan garðs.

            Með vísan í ofangreint þá leggur umhverfisnefnd til við bæjarstjórn að deiliskipulagið verði samþykkt óbreytt.

             Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 8-0.

 

 

 

 

VI.       Tillaga til 305. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

            Til máls tók:  Albertína Elíasdóttir, forseti.

 

Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar 364. fundur 30. nóvember 2011.

Flutningur á tengivirki í Stórurð á Ísafirði.  2011-11-0051.

            Á fundi bæjarráðs 28. nóvember sl. var lagt fram bréf frá Landsneti og Orkubúi Vestfjarða dagsett 11. nóvember sl., er varðar fyrirhugaða byggingu á tengivirki í Stórurð á Ísafirði. Í bréfinu er óskað eftir staðfestingu bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar á staðsetningu tengivirkisins, áður en undirbúningur heldur áfram og farið verður út í framkvæmdir.
Bæjarráð vísaði erindinu til umhverfisnefndar til frekari meðferðar.

 

            Umhverfisnefnd sér enga meinbugi á þeirri staðsetningu sem um getur í bréfi Orkubús Vestfjarða og Landsnets. Með vísan í deiliskipulag vegna ofanflóðavarna neðan Gleiðarhjalla,  sem samþykkt var í bæjarstjórn 1. júlí 2010 þá bárust engar athugasemdir frá íbúum vegna fyrirhugaðrar færslu á tengivirkinu. Með vísan í ofangreint leggur umhverfisnefnd til að bæjarstjórn samþykki staðsetninguna.

            Tillaga umhverfisnefndar samþykkt 9-0. 

 

VII.     Tillaga til 305. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. 2011-06-0058.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Sigurður Pétursson, Eiríkur Finnur Greipsson og Arna Lára Jónsdóttir.

 

Ályktun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar 15. des.  2011, vegna Dýrafjarðarganga.

                Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar skorar á stjórnvöld að flýta gerð Dýrafjarðarganga, þannig að þau komist í gagnið á næstu fjórum til fimm árum. Dýrafjarðargöng eru mikilvægasta samgöngubót á Vestfjörðum til að tengja saman þéttbýlisstaði og byggðir Ísafjarðarsýslna og Barðastrandarsýslna.

            Dýrafjarðargöng munu leysa af veginn um Hrafnseyrarheiði, einn hæsta og erfiðasta fjallveg á landinu, og stytta leiðina á milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar um 27 kílómetra að sumarlagi, en 309 kílómetra að vetri til. Hrafnseyrarheiði er sú heiði sem yfirleitt fyrst verður ófær, af öllum heiðum Vestfjarða, og sú heiði sem síðust er opnuð á vorin. Hrafnseyrarheiði er versta hindrun í frekari samvinnu og samtengingu byggða á Vestfjörðum.

            Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telur afleiðingar þess mjög alvarlegar, verði þessari nauðsynlegu samgönguframkvæmd enn einu sinni frestað og hún sett aftast í framkvæmdaröð nýrrar samgönguáætlunar. Slík frestun Dýrafjarðarganga er hættuleg fyrir framtíð byggðar á Vestfjörðum og mun hindra frekari þróun í atvinnu- og byggðamálum.

 

Greinargerð.

            Við endurskoðun vegaáætlunar sem samþykkt var eftir hrun, í júní 2010, var ákveðið að á árinu 2012 yrði veitt fjármunum bæði í Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng, með fyrirheiti um áframhald á fjárveitingum á næstu árum. Samgöngunefnd Alþingis sagði þá í nefndaráliti sínu:            

            „Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að samtenging byggða á Vestfjörðum væri að mörgu leyti sérstök og að taka yrði tillit til þess við gerð samgönguáætlunar. Nefndin telur að gerð jarðganga á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar efli samgöngur á milli byggða er nú tengjast saman með malarvegum og verða fyrir verulegum samgöngutruflunum yfir vetrartímann.“ 

            Rifja má upp að í eldri samgönguáætlun var gert ráð fyrir að Dýrafjarðargöng yrðu byggð á árunum 2011-2014.

            Árið 2009 vann Náttúrustofa Vestfjarða frummatsskýrslu fyrir Vegagerðina vegna jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Niðurstaða skýrslunnar er sú að umhverfisáhrif af völdum jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar séu að mestu óveruleg.  Hinsvegar séu áhrif á samgöngur og samfélög verulega jákvæð, en á landnotkun, fjörur, straumvötn og landslag séu áhrifin á mörkum þess að vera talsvert neikvæð og óveruleg.  Dýrafjarðargöng eru því tilbúin til útboðs með skömmum fyrirvara.

            Fréttir hafa borist af því að á samgönguáætlun áranna 2011-2022, sem leggja skal fyrir Alþingi á næstunni, sé hugmyndin sú að Dýrafjarðargöng verði aftur sett aftast á framkvæmdaáætlun. Göngin frestist því jafnvel allt til ársins 2022. Þetta er algerlega ófært.    

Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi.

 

            Arna Lára Jónsdóttir lagði fram svohljóðandi tillögu að viðbót við greinargerðina.

,, Benda má á að í jarðagangaáætlun frá árinu 2000 sem Vegagerðin vann, eru talin upp þrjú fyrstu og brýnustu verkefni í jarðgangagerð. Það eru vegtengingar á milli Arnarfjarðar - Dýrafjarðar, Siglufjarðar - Ólafsfjarðar, og Reyðarfjarðar - Fáskrúðsfjarðar. Sé farið eftir mati Vegagerðarinnar á brýnustu verkefnum á sviði jarðgangagerðar á eingöngu eftir að koma á jarðgöngum milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar.“

            Forseti bar upp viðbótartillöguna og var hún samþykkt 9-0.

            Ályktunin ásamt viðaukatillögunni samþykkt 9-0.

               

VIII.    Bæjarráð. 

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Jóna Benediktsdóttir, Kristín Hálfdánsdóttir, Sigurður Pétursson, Kristján Andri Guðjónsson, Arna Lára Jónsdóttir, Eiríkur Finnur Greipsson, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri og Gísli H. Halldórsson.  

 

            Fundargerðin 28/11.  727. fundur.

            Fundargerðin er í tíu liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

            Fundargerðin 7/12.  728. fundur.

            Fundargerðin er í fjórtán liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

            Fundargerðin 12/12.  729. fundur.

            Fundargerðin er í níu liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

IX.       Stjórn Byggðasafns Vestfjarða.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Sigurður Pétursson, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri og Gísli H. Halldórsson.

 

            Fundargerðin 16/11.  29. fundur.

            Fundargerðin er í þremur liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

X.        Fræðslunefnd.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Arna Lára Jónsdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri og Gísli H. Halldórsson.

 

            Fundargerðin 23/11.  315. fundur.

            Fundargerðin er í fimm liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

XI.       Nefnd um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti og Eiríkur Finnur Greipsson.

 

            Fundargerðin 1/12.  9. fundur.

            Fundargerðin er í fimm liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

XII.     Nefnd um sorpmál í Ísafjarðarbæ.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Kristján Andri Guðjónsson, Kristín Hálfdánsdóttir, og Jóna Benediktsdóttir.

 

            Fundargerðin 23/11.  18. fundur.

            Fundargerðin er í einum  lið.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

XIII.    Umhverfisnefnd.

            Til máls tóku:  Albertína Elíasdóttir, forseti og Kristján Andri Guðjónsson.

 

            Fundargerðin 30/11.  364. fundur.

            Fundargerðin er í þrettán liðum.

            Fundargerðin staðfest í heild sinni 9-0.

 

 XIV.   Tilvísun til 305. fundar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.-Fjárhagsáætlun 2012.

            Til máls tóku: Albertína Elíasdóttir, forseti, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, Arna Lára Jónsdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Kristján Andri Guðjónsson, Eiríkur Finnur Greipsson, Sigurður Pétursson, Gísli H. Halldórsson og Guðfinna Hreiðarsdóttir.  

 

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar 729. fundur 12. desember 2011.

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2012.

             Bæjarráð vísar drögum að fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar, stofnana hans og fyrirtækja, ásamt gjaldskrám, fyrir árið 2012, til síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar þann 15. desember n.k.

 

Albertína Elíasdóttir, forseti, tók fram við upphaf umræðu um drög að fjárhagsáætlun ársins 2012, að í þeim drögum væri gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Ísafjarðarbæ röng.  Gjaldskráin fyrir árið 2012 verður óbreytt frá árinu 2011.

 

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri, gerði í stefnuræðu sinni við síðari umræðu grein fyrir fjárhagsáætlun fyrir árið 2012, áætlun er lögð var fram til fyrri umræðu á 304. fundi bæjarstjórnar þann 24. nóvember sl. Eins gerði bæjarstjóri grein fyrir breytingum er orðið hafa á frumvarpinu frá fyrri umræðu. Jafnframt gerði bæjarstjóri grein fyrir áætluðum fjárfestingum á árinu 2012, efnahag, rekstri og sjóðstreymi 31. desember 2012.

 

Breytingatillögur við fjárhagsáætlun 2012, er lagðar voru fram á 305. fundi bæjarstjórnar.

a. Albertína Elíasdóttir, forseti, lagði fram svohljóðandi viðaukatillögu við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2012.

Viðaukatillaga vegna fjárhagsáætlunar Ísafjarðarbæjar 2012.

            Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir í framhaldi af erindi Menntaskólans á Ísafirði og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands að leggja þrjár milljónir króna til reksturs stafrænnar smiðju á Ísafirði á árinu 2012 og einnig á árinu 2013. Framlagið er háð því að fleiri aðilar en Ísafjarðarbær komi með framlög til rekstursins, að stofnframlög séu nægjanleg og að fyrir liggi áætlun um framvindu verkefnisins.

Greinagerð.

            Í bréfi frá Menntaskólanum á Ísafirði og Nýsköpunarmiðstöð Íslands dagsettu 17. október sl., sem tekið var fyrir á 722. fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er óskað eftir aðkomu sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum, að rekstri stafrænnar smiðju, „Fab Lab“ á Ísafirði.

            Félag verður stofnað um reksturinn á næstu vikum, að líkindum sjálfseignarstofnun. Búið að afla fjármagns í rekstur húsnæðis, tæki og hráefnalager fyrir um 20 mkr. sem háð er því að reksturinn sé tryggður fyrstu árin, en eftir er að fjármagna starfsmann í 50-100% starf.

            FabLab (Fabrication Laboratory) er hátækni smíðastofa með einföldum stýribúnaði og hagkvæmum lausnum sem gerir fólki á öllum aldri og með lágmarks tækniþekkingu kleyft að hanna og smíða eigin frumgerðir af öllu tagi. 

 

            Hugmyndafræði FABLAB er að færa hátæknilausnir í iðnaði og hönnun til einstaklinga og smáfyrirtækja þannig að þau geti á einfaldan hátt komið hugmyndum sínum um iðnframleiðslu í framkvæmd. FAB-LAB stofa er vel til þess fallin að efla nýsköpun og þróun á litlum atvinnusvæðum. FABLAB stofu á Ísafirði mætti nýta til kennslu í hönnun og smíði við Menntaskólann á Ísafirði,  sem og við grunnskólana á Ísafirði,  Bolungarvík, Súðavík, Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.  Stofuna mætti einnig opna fyrir almenningi með skipulögðum hætti.

            Í undirbúningshópi verkefnisins hafa starfað fulltrúar frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Bolungarvíkurkaupstað, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Ísafjarðarbæ, Menntaskólanum á Ísafirði, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Pols Engineering og 3xTec.

            Styrktaraðilar sem þegar hafa heitið aðkomu eru Menntaskólinn á Ísafirði, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Vaxtarsamningur Vestfjarða, Menntamálaráðuneytið og Iðnaðarmannafélag Ísafjarðar (sjóður).

--------------------------------

 

b. Arna Lára Jónsdóttir, lagði fram svohljóðandi tillögu Í-lista við drög að fjárhagsáætlun ársins 2012.  ,,Lagt er til að kr. 720.000.- verði bætt við launalið Grunnskólans á Ísafirði, til að skólastjóri geti mætt yfirvinnu skólaliða.“

--------------------------------

c.  Albertína Elíasdóttir, forseti, lagði fram svohljóðandi tillögu vegna dagvistargjalda: ,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að gjaldskrá vegna dagvistargjalda verði óbreytt frá árinu 2011.“

-----------------------------------

d.  Albertína Elíasdóttir, forseti, lagði fram svohljóðandi tillögu er varðar framlag til Fjórðungssambands Vestfirðinga. ,,Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að liður        21-71-9711 lögbundin framlög til Fjórðungssambands verði lækkuð um kr. 2.000.000,-.“

--------------------------------

 Arna Lára Jónsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun Í-lista við afgreiðslu á fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar stofnana hans og fyrirtækja fyrir árið 2012.

            ,,Fjárhagsáætlun hvers árs er eitt stærsta verkefni hverrar bæjarstjórnar, en hún þarf að byggja á skýrri framtíðarsýn og forgangsröðun verkefna. Fjárhagsáætlun endurspeglar því stefnu og ábyrgð bæjaryfirvalda með meirihluta bæjarstjórnar í forsvari.

            Í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun eru margar aðgerðir sem eru erfiðar en nauðsynlegar til að ná endum saman í rekstri bæjarins sem snerta þjónustu við bæjarbúa og launakjör starfsmanna bæjarins. 

            Vinna við fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2012 hófst strax á haustdögum og hefur verið í vinnslu síðan. Haldnir hafa verið þrír upplýsingafundir með bæjarfulltrúum þar sem farið var yfir vinnslu áætlunarinnar og okkur gefinn kostur á því að koma með tillögur.  Ekki hefur skort á vilja þeirra starfsmanna Ísafjarðarbæjar sem hafa unnið að gerð fjárhagsáætlunar að upplýsa og leita ráða hjá bæjarfulltrúum í þessari vinnu. 

            Bæjarfulltrúar Í-listans telja þó meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks skorta ákveðið frumkvæði og jafnvel jaðra við ákvarðanafælni, þegar kemur að stórum ákvörðunum er snerta fjárhag bæjarins. 

 

            Gríðarlega miklar breytingar áttu sér stað á milli umræðna og ljóst að vinna við fjárhagsáætlun hefur legið að mestu á herðum bæjarstjóra og starfsmanna bæjarins, og stefnumörkun meirihluta bæjarstjórnar hefur ekki skilað sér inn fyrr en á lokasprettinum. Það hefur gert það erfiðara en ella að ná yfirsýn eða samhengi í áætluninni.

            Annað um vinnubrögðin má segja að fagnefndir Ísafjarðarbæjar hefðu þurft að eiga ríkari þátt í fjárhagsvinnunni og munum við  leggja áherslu á það í næstu fjárhagsáætlunargerð.

            Fjárhagsáætlunin ber ýmis jákvæð merki og eru bæjarfulltrúar Í-listans sérstaklega ánægðir með hækkun á niðurgreiðslu til dagmæðra en það hefur verið baráttumál okkar til margra ára.  Einnig er jákvætt að nú loks eigi að taka á uppsöfnuðum rekstarvanda Ísafjarðarbæjar og stofnana hans, sem við höfum bent á og krafist úrbótaá frá því tókum fyrst sæti í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

            Varðandi niðurskurð á fastri yfirvinnu starfsmanna Ísafjarðarbæjar þá létum við í ljós skoðun okkar á því máli strax í október þegar við bókuðum í bæjarstjórn að við töldum að samþykkja bæri tilboð skólaliða við Grunnskólann á Ísafirði um 50% niðurskurð á fastri yfirvinnu, sem fram kom í bréfi þeirra, sem lagt var fram í bæjarráði þann 17. október sl. Jafnframt yrði sama regla látin ganga yfir alla starfsmenn Ísafjarðarbæjar, sem lið í sparnaðaraðgerðum, sem nauðsynlegt er að grípa til í þröngri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Í fjárhagsvinnunni gerðum við meirihluta bæjarstjórnar grein fyrir því að við værum til umræðu að ýmsar útfærslur á þessari leið en hún yrði að skila sambærilegri niðurstöðu.  Í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun er tekið á fastri yfirvinnu starfsmanna, þó ekki sé gengið jafnlangt og við lögðum til. Taka má viljann fyrir verkið en beita hefði mátt annarri aðferðafræði við niðurskurð á fastri yfirvinnu, með því að nota almennar og gegnsæjar reglur í stað þess að vera með sértækar úrlausnir í þeim efnum.

            Bæjarfulltrúar Í-listans munu samþykkja þá fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2012 sem hér er til afgreiðslu. Það gerum við í ljósi þess að það er verið að taka á uppsöfnuðum rekstarvanda Ísafjarðarbæjar með sýnilegum hætti og viljum við ekki skorast undan þeirri ábyrgð sem því fylgir. Enn má bæta margt varðandi vinnu við fjárhagsáætlun en sú vinna hefur verið til batnaðar frá fyrri árum. Bæjarfulltrúar Í-listans vona að vel verði tekið í ábendingar um betra verklag sem skilar sér í betri fjárhagsáætlun. Það er svo verkefni okkar bæjarfulltrúa að tryggja og hafa eftirlit með að fjárhagsáætlun standist.“

Arna Lára Jónsdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Kristján Andri Guðjónsson, Sigurður Pétursson.

----------------------------------

a. Albertína Elíasdóttir, forseti, bar upp til atkvæða viðaukatillögu við fjárhagsáætlun 2012, um framlag til rekstrar stafrænnar smiðju á Ísafirði árið 2012 og einnig á árinu 2013.  Viðaukatillagan samþykkt 8-0.

-----------------------------------

 b.  Tillaga Í-lista um hækkun launaáætlunar Grunnskólans á Ísafirði um kr. 720.000.-, samþykkt 9-0.

---------------------------------------

c.  Tillaga forseta um óbreyttar gjaldskrár vegna dagvistargjalda hjá Ísafjarðarbæ samþykkt 9-0.

d.  Tillaga forseta um breytingu á lögbundnu framlagi til Fjórðungssambands Vestfirðinga  samþykkt 9-0.

 

Rekstraráætlun 2012, ásamt breytingum milli fyrri og síðari umræðu, sem og fram komnum breytingatillögum er fram voru lagðar á 305. fundi bæjarstjórnar og samþykktar, borin upp til atkvæðagreiðslu.  

Rekstraráætlun 2012 þannig breytt samþykkt 9-0.

 

Gjaldskrár Ísafjarðarbæjar og stofnana, er dreift var með dagskrá 305. fundar bæjarstjórnar, leiðréttri gjaldskrá sorpmála og óbreyttri gjaldskrá vegna dagvistargjalda, borin upp til atkvæða. 

Gjaldskrárnar samþykktar 9-0. 

 

Efnahagsreikningur 31. desember 2012, yfirlit um sjóðstreymi árið 2012 og áætlun um fjárfestingar á árinu 2012, er lagt var fram á 305. fundi bæjarstjórnar ásamt áorðnum breytingum er gerðar voru á 305. fundi bæjarstjórnar borin upp til atkvæða í einu lagi.  Efnahagsreikningur 2012 þannig breyttur samþykktur  9-0.

 

Í lok fundar þakkaði Albertína Elíasdóttir, forseti, bæjarstjóra og öðrum starfsmönnum Ísafjarðarbæjar, sem og bæjarfulltrúum öllum fyrir mikla vinnu við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2012.

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og undirrituð, fundi slitið kl.  20:30.

 

Þorleifur Pálsson, ritari

Albertína Elíasdóttir, forseti bæjarstjórnar

Eiríkur Finnur Greipsson

Gísli H. Halldórsson                                            

Kristín Hálfdánsdóttir

Guðfinna Hreiðarsdóttir

Sigurður Pétursson

Arna Lára Jónsdóttir

Jóna Benediktsdóttir

Kristján Andri Guðjónsson

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri

Er hægt að bæta efnið á síðunni?