Bæjarstjórn - 207. fundur - 31. ágúst 2006

 

Aukafundur

 

Til fundarins er boðað skv. 16. grein bæjarmálasamþykktar Ísafjarðarbæjar og 15. gr. sveitarstjórnarlaga eftir beiðni bæjarfulltrúa Í-lista um aukafund í bæjarstjórn.

 

Fjarverandi aðalfulltrúar: Birna Lárusdóttir í h. st. Guðný Stefanía Stefánsdóttir.  Guðni G. Jóhannesson í h. st. Svanlaug Guðnadóttir. Jóna Benediktsdóttir í h. st. Rannveig Þorvaldsdóttir.

 


Dagskrá skv. 3 tl. 16. gr. bæjarmálasamþykktar.


Fulltrúar Í-lista lögðu í upphafi fundar fram bréf til bæjarstjóra dagsett 17. ágúst sl. með eftirfarandi tillögum:


1. Útboð á sorphirðu.


2. Útboð á gámahreinsun.


3. Útboð á sorpurðun.


4. Gerð útboðsgagna vegna uppsetningar gámasvæða á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.


5. Niðurfellingu leikskólagjalda í Ísafjarðarbæ.


6. Niðurgreiðslur til foreldra barna í vist hjá dagforeldrum.


7. Ályktun um frestun vegaframkvæmda á Vestfjörðum.

 

Í sama bréfi eru lagðar fram fyrirspurnir um:


1. Úttekt á kynjabundnu launamisrétti hjá Ísafjarðarbæ.


2. Félagsmiðstöð unglinga á Ísafirði og Þingeyri.


3. Rannsóknir á útblástri frá sorpbrennslunni Funa.


4. Fyrirhugaða sundlaugarbyggingu.


5. Störf nefndar um byggingu hjúkrunarheimilis.


6. Ráðningarsamning við bæjarstjóra.

 

Undir bréfið rita Sigurður Pétursson, Magnús Reynir Guðmundsson,  Arna Lára Jónsdóttir og Kristján Andri Guðjónsson.

 

Í upphafi fundar tóku til máls um fundarsköp:


Sigurður Pétursson og Magnús Reynir Guðmundsson. Sigurður lagði fram skriflegar fyrirspurnir til forseta bæjarstjórnar og/eða bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og óskaði eftir skriflegu svari:


1. Hvað varð um tölvupóst sem sendur var staðgengli bæjarritara þriðjudaginn 15. ágúst síðastliðinn kl. 14:32 með tillögum og fyrirspurnum Í-listans fyrir bæjarstjórnarfundi sem halda átti 17. ágúst?


2. Hver er hin hefðbundna boðleið fyrir tillögur og fyrirspurnir sem bæjarfulltrúar vilja koma á framfæri í bæjarráði eða bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar?

 

Til máls tóku undir dagskrá um tillögur: Sigurður Pétursson, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, Magnús Reynir Guðmundsson, Arna Lára Jónsdóttir, Gísli Halldór Halldórsson og Svanlaug Guðnadóttir. 


 


TILLÖGUR.


1.- 4. Tillögur um sorphirðu, gámahreinsun, urðun og gámasvæði.

1. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að fela bæjarstjóra nú þegar að vinna að útboði á sorphirðu í Ísafjarðabæ.

2. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að fela bæjarstjóra nú þegar að undirbúa útboð á gámahirðu og gámahreinsun í Ísafjarðabæ.

3. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að fela bæjarstjóra að láta nú þegar fara fram útboð á urðun á óbrennanlegu sorpi í Ísafjarðabæ.

4. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að fela bæjarstjóra að láta tæknideild bæjarins vinna nú þegar að undirbúningi þess að bjóða út gerð þriggja gámasvæða við Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. Gámasvæðin verði afgirt, aðstaða til flokkunar og losunar sorps aðgengileg og manir eða hleðslur til varnar sjónmengun, þar sem gámasvæði eru við innkeyrslu í áðurnefnda bæi. Útboðsgögn verði tilbúin svo fljótt sem verða má.


Greinargerð.


Samningar um sorphirðu og gámahreinsun í Ísafjarðarbæ við fyrirtækið Gámaþjónustu Vestfjarða hf. runnu út í maí árið 2005. Hafa þeir síðan verið framlengdir án þess að nýtt útboð hafi farið fram. Á fundi bæjarráðs 3. júlí síðastliðinn var samþykkt með tveim atkvæðum gegn einu að ganga til samninga við áðurnefnt fyrirtæki til eins árs um sorphirðu, gámahreinsun og urðun á óbrennanlegu sorpi fyrir kr. 28.377.209. Með bréfi dagsettu 12. júlí hafnaði Gámaþjónusta Vestfjarða að taka að sér urðun á óbrennanlegu sorpi, en bauðst til að sinna áfram sorphreinsun og gámahreinsun eins og áður, en með 10% hækkun á gjaldi fyrir þá þjónustu. Í samningum fyrirtækisins frá árinu 2000 var gert ráð fyrir að gjaldið hækkaði í samræmi við byggingavísitölu. Hér er því um hreina umframhækkun að ræða. Var þessu mótmælt á fundi bæjarráðs 17. júlí síðastliðinn, en meirihluti bæjarráðs samþykkti að semja við fyrirtækið á þessum forsendum.


Fulltrúar Í-listans í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar telja að hér sé um grundvallarmál að ræða sem varðar samskipti bæjarfélagsins og fyrirtækja í þjónustu hans. Mikilvæg þjónusta sem varðar alla bæjarbúa hefur verið falin einkafyrirtæki að loknu útboði. Fyrirtækið hefur sinnt sínu hlutverki með sóma. Það breytir ekki því að við endurnýjun samninga þarf að fara fram nýtt útboð, þar sem önnur fyrirtæki eiga jafna möguleika til að bjóða í þetta verkefni á vegum sveitarfélagsins. Þarna verður jafnræðisregla að gilda. Þess vegna leggjum við til að öll sorphirða og urðun verði boðin út nú þegar.


Ef tæknideild bæjarins getur ekki sinnt þessu verkefni á næstu vikum, verða bæjaryfirvöld að fela verkfræði- eða tækniþjónustu að vinna verkið. Slíkt má ekki tefja verk úr hömlu, eða koma í veg fyrir að nýtt útboð fari fram, mánuðum og misserum saman.


Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar fór fram mikil umræða um frágang og umhirðu við gámasvæði, sérstaklega við Suðureyri og Flateyri. Mikilvægt er að gert verði ráð fyrir framkvæmdum í þessu máli í fjárhagsáætlun næsta árs. Því er lagt til að nú þegar verði látið fara fram vinna við útboð á gámasvæðum við þéttbýlin þrjú í Vestur-Ísafjarðarsýslu, svo þau verði bænum til sóma og íbúum til hægðarauka við flokkun og förgun sorps.

 

5. Tillaga um niðurfellingu leikskólagjalda í Ísafjarðarbæ.


Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að gjaldfrjálst verði í leikskóla fyrir fimm ára börn frá og með 1. janúar 2007 og fjögurra ára börn frá árinu 2008. Sveitarfélagið verður að svara kalli tímans þar sem það er í samkeppni við önnur sveitarfélög um barnafólk. Niðurfelling leikskólagjalda í áföngum er stór liður í því að gera Ísafjarðarbæ að barnvænu samfélagi.


Greinargerð.


Lækkun leikskólagjalda var á stefnuskrá allra framboðanna fyrir sveitarstjórnarkosningar nú í vor. Með leyfi forseta ætla ég að vitna í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, en þar segir orðrétt: ?Leikskólavist verði gjaldfrjáls fyrir fimm ára börn og leikskólagjöld lækkuð? og orðrétt upp úr stefnuskrá Framsóknarflokksins:


Framsóknarflokkurinn leggur því áherslu á að: Leitað verði leiða til að lækka leikskólagjöld.


Dagvistun hjá dagmæðrum verði niðurgreidd til jafns við leikskóla.


Með því að samþykkja þessa tillögu er þetta kjörið tækifæri fyrir bæjarfulltrúa að sýna bæjarbúum að kosningaloforð eru til þess að standa við en ekki svíkja.

 

6. Tillaga um niðurgreiðslu til foreldra sem vista börn hjá dagforeldrum í Ísafjarðarbæ.


Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkir að hækka niðurgreiðslur til foreldra sem vista börn sín hjá dagforeldrum úr 13.130 kr. í 25.155 kr. á mánuði. Með þessari hækkun greiða foreldrar sama gjald fyrir vistun hjá dagforeldrum og í leikskólum sveitarfélagsins. Þessi hækkun taki gildi 1. september og verði tekin inn í fjárhagsáætlun fyrir árið 2007.


Greinargerð.


Niðurgreiðslur til foreldra sem vista börn hjá dagforeldrum í Ísafjarðarbæ eru langt fyrir neðan niðurgreiðslur hjá öðrum sveitarfélögum. T.d. hjá Hafnarfjarðarbæ er niðurgreiðslan 29.640 kr. á mánuði, hjá Akureyrarbæ 28.000 kr., Reykjavíkurborg 21.000 kr. Vert er að minnast á að leikskólagjöld í þessum sveitarfélögum eru líka töluvert lægri en í sveitarfélaginu okkar. Foreldrar, sem eiga börn með búsetu í Ísafjarðarbæ, annað barnið á leikskóla og hitt hjá dagforeldri eru að borga 74.715 kr. á mánuði fyrir átta tíma vistun að teknu tilliti til niðurgreiðslunnar. Þessi sama fjölskylda myndi greiða 49.670 kr. byggi hún í Hafnarfirði. Þessi gjaldtaka Ísafjarðarbæjar er ekki til þess fallin að hvetja barnafólk til að setjast að í bæjarfélaginu eða sem hvatning fyrir fólk með ung börn að fara út á vinnumarkaðinn.

 

7. Tillaga um ályktun um frestun vegaframkvæmda á Vestfjörðum.


?Á fundi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þann 27. júní sl. var ákveðið að fresta útboðum og upphafi nýrra framkvæmda á vegum ríkisins. Þessi ákvörðun er ótímasett en ástæða ákvörðunarinnar mun vera sú að hindra frekari þenslu og verðbólgu, sem ríkisstjórnin telur vera óviðunandi.


Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar hefur samgönguráðherra ákveðið að Vegagerðin fresti öllum fyrirhuguðum útboðum á framkvæmdaverkefnum. Fyrir dyrum stóðu útboð vegna framkvæmda á Vestfjörðum en einnig á norðausturhluta landsins. Annars staðar á landinu var búið að ganga frá þeim útboðum sem fyrirhuguð voru vegna framkvæmda næstu mánuði.


Nú er staðan því þannig að allra brýnustu framkvæmdum í vegagerð á Vestfjörðum, framkvæmdum sem miða að því að koma burðarþoli þjóðleiða í nothæfa viðmiðun og taka af hættulega kafla, hefur verið frestað ótímabundið. Þessi staða er uppi, án meðferðar á Alþingi, jafnvel þó þessar framkvæmdir hafi fengið fjárveitingar frá Alþingi og séu samkvæmt samgönguáætlun, sem samþykkt er sem lög frá Alþingi.


Það er að mati bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar algerlega óviðunandi að með þessum hætti sé skorið fyrirvaralaust á einn mikilvægasta málaflokk sem sinnt er af ríkinu, sem eru samgöngumál og íbúar fjórðungsins þar með látnir gjalda þenslu sem á sér fyrst og fremst allt annan uppruna.


Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ítrekar samþykkt bæjarráðs frá 3. júlí síðastliðnum, þar sem fram kemur sú ábending að aðgerðir til að draga úr þenslu í hagkerfinu eru nauðsynlegar en eigi fyrst og fremst að taka til þeirra svæða sem búa við þenslu. Uppruni þenslu í hagkerfinu er ekki á Vestfjörðum og það er óásættanlegt að draga úr bráðnauðsynlegum vegaframkvæmdum í fjórðungnum, ekki síst eftir að strandsiglingar lögðust af. Vegirnir bera ekki þungaumferð og slysahætta skapast vegna ástands þeirra.


Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar skorar á ríkisstjórn Íslands að leita annarra leiða til að draga úr þenslu, en þeirra að draga úr framkvæmdahraða við vegagerð á Vestfjörðum, þar sem verið er að leysa af hólmi 50 ára gamla malar- og moldartroðninga, sem eru ónothæfir fyrir þungaflutninga og almenna umferð.?

 

Undir tillögurnar rita Sigurður Pétursson, Magnús Reynir Guðmundsson,  Arna Lára Jónsdóttir og Kristján Andri Guðjónsson.

 


Afgreiðsla tillagna Í-lista.


1. Tillaga Í-lista felld 5:4.


2. Tillaga Í-lista felld 5:4.


3. Tillaga Í-lista felld 5:4.

Gísli Halldór Halldórsson lagði fram svohljóðandi bókun meirihluta við tillögur Í-lista nr. 1, 2 og 3.


?Framundan eru miklar breytingar á tilhögun sorphirðu og sorpeyðingar í landinu með tilkomu Úrvinnslusjóðs. Fyrir liggur að sorpflokkun mun breytast þar sem skilagjald leggst á ákveðin efni eins og pappír, plast o.fl. Sorpflokkun eykst, gjaldskrár munu breytast og mjög líklegt er að taka þurfi upp nýtt kerfi varðandi innheimtu á sorphirðu og sorpeyðingu.


Þar til að reynsla hefur fengist á nýja tilhögun er útboð á sorphirðu erfitt í framkvæmd og óhagkvæmt. Í málefnasamningi meirihlutaflokkanna er ákvæði um að útboðum skuli beitt þar sem það reynist hagkvæmt. Það er mat meirihluta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að útboð á sorphirðu, gámahreinsun og sorpurðun sé ekki hagstætt að þessu sinni fyrir Ísafjarðarbæ heldur eigi að leita samninga við núverandi verktaka í sorphirðu og gámahreinsun um alla þessa verkþætti.


Reynsla af samstarfi Ísafjarðarbæjar og núverandi verktaka í sorphirðu er góð og við samanburð á kostnaði við sorphirðu í sveitarfélögum landsins kemur í ljós að kostnaður í Ísafjarðarbæ er, þrátt fyrir dreifða byggð, sambærilegur. 


Náist hagstæðir samningar við einn og sama aðilann til lengri tíma en eins árs næst einnig fram það markmið að sorphirða, gámahreinsun og sorpurðun séu á einni og sömu hendi.?

4. Tillaga Í-lista felld 5:4.

Gísli Halldór Halldórsson lagði fram svohljóðandi bókun meirihluta við tillögur Í-lista nr. 4:


?Með vísan til bókunar á bæjarráðsfundi 3. júlí sl. þar sem segir um uppbyggingu gámasvæða: ,,Lagt er til að uppbyggingu gámasvæða verði frestað og athugað hvort hagkvæmara reynist að það verk verði boðið út af hálfu Ísafjarðarbæjar.?


Til að framfylgja þessari samþykkt bæjarráðs verður útboð gámasvæða tekið upp við vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2007 þar sem áætlaður kostnaður liggur fyrir og forgangsröðun verkefna verður ákveðin. Í málefnasamningi meirihlutaflokkanna segir m.a.: ,,Séð verður til þess að öll gámasvæðin og urðunarsvæði í Ísafjarðarbæ verði til fyrirmyndar. Til að ná því fram verður gerð skipulagsbreyting í málaflokknum þannig að sorphirða, urðun og hirðing gámasvæða verði á hendi eins og sama aðilans.?

5. Tillaga Í-lista felld 5:4.


6. Tillaga Í-lista felld 5:4.

Gísli Halldór Halldórsson lagði fram svohljóðandi bókun meirihluta við tillögur Í-lista nr. 5 og 6:


?Varðandi lækkun leikskólagjalda og niðurgreiðslur vegna vistar hjá dagforeldrum vísast til meirihlutasamnings þar sem segir: ,,Leikskólavist verði gjaldfrjáls fyrir fimm ára börn og leikskólagjöld lækkuð frá og með áramótum 2006/2007. Unnið verður að viðurkenningu ríkisvaldsins á að leikskóli fyrir fimm ára börn eigi að vera hluti af skólakerfinu og sveitarfélög fái auknar tekjur vegna þess. Dagmæðrakostnaður verði jafn leikskólakostnaði frá og með áramótum 2006/2007.??

7. Tillaga Í-lista samþykkt 9:0.

Gísli Halldór Halldórsson lagði fram svohljóðandi bókun meirihluta við tillögur Í-lista nr. 7.


?Meirihluti bæjarstjórnar tekur heilshugar undir tillögu að bókun um vegamál á Vestfjörðum enda hafa bókanir verið samþykktar í bæjarráði Ísafjarðarbæjar þann 3. júlí sl. sem og 28. ágúst sl. varðandi þau mál. Afstaða Ísafjarðarbæjar varðandi frestun vegaframkvæmda hefur komið skýrt fram síðan ríkisstjórnin kynnti áform um frestun framkvæmda í þeim tilgangi að draga úr þenslu og samstaða verið um að frestun kemur ekki til greina á Vestfjörðum enda uppruni þenslu í þjóðfélaginu ekki á Vestfjörðum.?

 


FYRIRSPURNIR.


Til máls tóku undir dagskrá um fyrirspurnir: Sigurður Pétursson, Magnús Reynir Guðmundsson, Arna Lára Jónsdóttir, Gísli Halldór Halldórsson og Halldór Halldórsson, bæjarstjóri.

 

Fyrirspurnir frá bæjarfulltrúum Í-lista.


1. Úttekt á kynjabundnu launamisrétti í Ísafjarðarbæ.


Hvað líður úttekt á kynjabundnum launamun hjá Ísafjarðarbæ sem samþykkt var í bæjarráði á kvennafrídaginn 24. október 2005?


2. Félagsmiðstöð fyrir unglinga á Ísafirði og Þingeyri.


Skólasetning Grunnskóla Ísafjarðar verður haldin 26. ágúst nk. og ekki hefur enn komið fram að hálfu bæjaryfirvalda hvar starfsemi félagmiðstöðvar verður hýst. Legið hefur fyrir í talsvert langan tíma þær breytingar sem standa nú yfir á húsnæði Grunnskólans á Ísafirði og að þeir unglingar sem sækja félagmiðstöðina myndu missa athvarf sitt. Spurt er hvar bæjaryfirvöld hugsa sér að starfsemi félagsmiðstöðvarinnar verði til húsa, annars vegar til frambúðar og hins vegar á meðan á breytingunum stendur? Jafnframt er spurt um efndir loforða um félagsmiðstöð unglinga á Þingeyri.


3. Rannsóknir á útblástri frá sorpeyðingarstöðinni Funa.


Hafa farið fram rannsóknir á útblæstri frá sorpeyðingarstöðinni Funa og ef ekki, stendur þá til að gera slíka rannsókn?


Greinagerð.


Reyk- eða gufumengun hefur verið mjög áberandi frá sorpbrennslunni Funa síðustu misseri og margoft verið spurt um úrbætur. Þar sem svokallaðar pokasíur í Funa eru nú loksins komnar til Ísafjarðar, ætti svokallaður reykur frá Funa að hverfa. Forvitnilegt er að fá úr því skorið hvaða efni séu í útblæstri frá stöðinni og hvaða rannsóknir hafi farið fram á honum.


Fyrirspyrjandi veltir þeim möguleika fyrir sér hvort ekki ætti að skoða stækkun á Funa þar sem stöðin anni engan veginn þeim verkefnum, eða því sorpi, sem þar leggst til. Á álagstímum er Funi keyrður allt af tekur.  Eftir þeim upplýsingum sem við höfum má hitinn efst í strompi ekki fara yfir 200 gráður, þá er hætta á að svokallaðar pokasíur eyðileggist.  Þar með er álitamál hvort ekki sé ráðlegt að skoða stækkun stöðvarinnar til varnar sjónmengun og að stöðin geti sinnt sínu hlutverki svo sómi sé að.


4. Störf nefndar um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði.


Á fundi sínum 15. júní kaus bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar nefnd um byggingu hjúkrunarheimilis í bænum. Þann 3. júlí var erindisbréf sent fulltrúum Ísafjarðarbæjar. Spurt er hvenær gera má ráð fyrir að nefndin verði kölluð saman á fyrsta fund sinn og hvaða áætlanir eru uppi um störf nefndarinnar næstu mánuði?


5. Sundhallarbygging og líkamsræktarstöð á Ísafirði.


Hafa einhverjir fundir átt sér stað með bæjaryfirvöldum og fulltrúum frá undirbúningsfélagi að byggingu sundhallar og líkamsræktarstöðvar á Torfnesi á Ísafirði, og ef svo er hvað hefur komið fram á þeim fundi eða fundum og hver verða næstu skref sem tekin verða af hálfu bæjaryfirvalda í málinu?


6. Ráðningarsamningur við bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar.


Á fundi bæjarstjórnar þann 15. júní var samþykkt að ráða Halldór Halldórsson bæjarfulltrúa D-lista, bæjarstjóra kjörtímabilið 2006-2010. Forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs var jafnframt falið að gera skriflegan ráðningarsamning við bæjarstjóra og leggja hann fyrir bæjarráð til samþykktar í samræmi við 63. og 64. grein bæjarmálasamþykktar. Ráðningarsamningur hefur enn ekki verið lagður fyrir bæjarráð. Hvað tefur gerð ráðningarsamnings við bæjarstjóra og hvenær er von til þess að hann verði lagður fram til samþykktar?

 

Undir fyrirspurnirnar rita Sigurður Pétursson, Magnús Reynir Guðmundsson,  Arna Lára Jónsdóttir og Kristján Andri Guðjónsson.

 

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri, lagði fram skrifleg svör við fyrirspurnum Í-lista 1. ? 6.

 

Gísli Halldór Halldórsson lagði fram svohljóðandi bókun meirihluta um boðun aukafundar:


?Bæjarstjórn samþykkti með öllum greiddum atkvæðum á fundi sínum þann 15. júní sl. að fella niður fundi í júlí og ágúst eins og venjan er og halda fyrsta reglulegan fund bæjarstjórnar þann 7. september n.k. Að öllu jöfnu kemur bæjarráð saman vikulega allt árið með þeirri undantekningu að fundi er frestað í bæjarráði þegar lítið eða ekkert er á dagskrá. Í sumarfríi bæjarstjórnar fer bæjarráð með heimild til fullnaðarafgreiðslu mála.


Aukafund í bæjarstjórn skal halda þegar þess er krafist og eðlilegt að halda slíkan fund séu einhver mál aðkallandi. Á þessum aukafundi eru allar tillögur sem teknar eru fyrir hins vegar búnar að fá afgreiðslu í bæjarráði, verið er að vinna í viðkomandi málum og/eða þau eru skilgreind í málefnasamningi meirihlutaflokkanna. Auk þess má taka öll þessi mál upp í bæjarráði sem kemur saman vikulega sem fyrr segir.?

 

Sigurður Pétursson lagði fram svohljóðandi bókun minnihluta um boðun aukafundar:


?Í-listinn fór fram á fund í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vegna ágreinings sem reis í bæjarráð strax í júlí síðastliðnum, varðandi útboð og saminga um sorphirðu, sorpurðun og byggingu gámasvæða. Var það gert í samræmi við samþykkt um sumarhlé bæjarstjórnar þann 15. júní, sem byggði á 53. grein bæjarmálasamþykktar.  Í-listinn harmar þann drátt sem orðið hefur á boðun bæjarstjórnarfundar og átelur vinnubrögð meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem hefur beitt öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir umræðu í bæjarstjórn um ágreiningsmál. Bæjarfulltrúar Í-listans munu áfram beita sér fyrir opinberri og lýðræðislegri umræðu í bæjarstjórn um málefni sveitarfélagsins og fagnar því að loks hafi meirihlutinn séð að sér og hætt að standa í veg fyrir eðlilegri og sjálfsagðri kröfu um umræðu á vettvangi bæjarstjórnar.?

 

Undir bókunina rita Sigurður Pétursson, Magnús Reynir Guðmundsson,  Arna Lára Jónsdóttir og Rannveig Þorvaldsdóttir.

 

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og undirrituð.  Fundi slitið kl. 19:30.


                                                                                            


Þórir Sveinsson, ritari.


Ingi Þór Ágústsson, forseti bæjarstjórnar.


Svanlaug Guðnadóttir.     


Guðný Stefanía Stefánsdóttir.    


Magnús Reynir Guðmundsson.    


Sigurður Pétursson.


Rannveig Þorvaldsdóttir.     


Arna Lára Jónsdóttir.


Halldór Halldórsson.      


Gísli Halldór Halldórsson.

 

 Er hægt að bæta efnið á síðunni?