Bæjarráð - 746. fundur - 16. apríl 2012

Þetta var gert:

1.         Fundargerðir nefnda.

            Atvinnumálanefnd 13/4.  113. fundur.

            Fundargerðin er í þremur liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

Bókun atvinnumálanefndar undir 1. lið dagskrár.

Atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar - Frumvarp til laga um stjórn fiskveða, 657. mál.

Atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar telur að verulegir annmarkar séu á frumvarpi því sem er til umsagnar.

Um 87 prósent af aflaheimildum sem úthlutað var 1. september 2011 eru á landsbyggðinni og því má ætla að þessar breytingar munu koma harðast niður þar.

Þær greinar þessa frumvarps er varða nýtingarsamninga og pottafyrirkomulag eru greinar sem væntanlega verður hægt að ná einhverri sátt um innan sjávarútvegsins. Með nýtingarsamningum til 20 ára, og möguleika á framlengingu, ættu fyrirtæki að geta skipulagt sig til framtíðar.

Skerðing á aflaheimildum núverandi handhafa til að mynda potta fyrir nýliða er þó eitthvað sem ekki er sátt um. Þar er í einhverjum tilfellum verið að hygla áhugamönnum á kostnað atvinnumanna. Illskárri kostur væri að  hluti fyrirsjáanlegrar aukningar á aflamarki á næstu árum færi í þá potta sem kerfið kveður á um.

Fjöldi umsagnaraðila hefur nú þegar lýst efasemdum sínum við þennan kafla frumvarpsins. Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte og Touche hefur sent frá sér greinargerð þar sem fram kemur hvaða áhrif þetta veiðigjald mun hafa.

Bankar, samtök fiskvinnslustöðva, landsamband Íslenskra útvegsmanna, landssamband smábátaeigenda og fjölmargir aðrir hafa sagt að þess háttar gjaldtaka muni hafa verulega neikvæð áhrif á þau fyrirtæki sem nú starfa innan greinarinnar.

Líklegt er að störfum muni fækka enn frekar en orðið er og laun lækka hjá sjómönnum og fiskvinnslufólki, sem hafa mun áhrif á útsvar sveitarfélaga. Þá mun draga verulega úr fjárfestingu fyrirtækja í greininni með tilheyrandi afleiðingum fyrir minni þjónustufyrirtæki.

Á Vestfjörðum var auðlindagjaldið á síðasta ári 255 milljónir. Með nýja frumvarpinu verður það hins vegar um 1,4 milljarðar, þar af 1.2 á norðanverðum Vestfjörðum, samkvæmt útreikningum Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Nefndin getur ekki samþykkt svo mikla aukningu á skattheimtu af burðarfyrirtækjum á svæðinu, sérstaklega ekki meðan ótryggt er að nokkuð af þeim tekjum skili sér aftur til uppbyggingar í Ísafjarðarbæ. Eins er engin vissa fyrir því að það sem skilar sér vegi upp það tap sem sveitarfélög verða fyrir vegna þess útsvars sem tapast.

Til þess að einhver sátt megi nást um fiskveiðar og  nýtingu úr þjóðareign Íslendinga þarf að huga að samráði við alla hagsmunaaðila og breiðri sátt alls Alþingis.

Með þessum athugasemdum nefndarinnar er ekki verið að lýsa stuðningi við óbreytt kerfi heldur verið að kalla eftir nánari skoðun á afleiðingum breytinganna og meiri sátt allra sem að málinu koma.

Sáttarnefnd allra flokka á Alþingi komst að ágætis niðurstöðum,  þar sem allir nefndarmenn voru sammála um ákveðnar leiðir til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Í þessari stjórnartillögu er á engan hátt litið til þeirrar vinnu sem þar var unnin. Ekkert samráð var haft við hagsmunaaðila innan útgerðar eða fiskvinnslu við gerð frumvarpsins.

Það  sýnir að stjórnvöld ætla sér að þvinga fram breytingar á kerfinu án þess að kynna sér til fulls þær alvarlegu afleiðingar sem það mun hafa í för með sér fyrir landsbyggðina.

 

Sigurður Pétursson lagði fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar atvinnumálanefndar.

Bæjarráð 16. apríl 2012.

Bókun vegna umsagnar um frumvarp til laga um fiskveiðar.

Kvótakerfi í sjávarútvegi hefur reynst Vestfirðingum afdrifaríkt. Það er því fagnaðaefni að fram skuli koma frumvarp af hálfu stjórnvalda um breytingar á stjórn fiskveiða, sem auka jafnræði og möguleika sjávarbyggðanna.

Fiskistofnarnir eru sameiginleg auðlind þjóðarinnar og frumvörp þau sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir alþingi tryggja með óyggjandi hætti eignarhald þjóðarinnar og ráðstöfunarrétt til framtíðar.  Jafnframt er mikilvægt að kom á þeirri meginreglu að gjald komi fyrir afnotarétt að sameiginlegri auðlind.

Það vekur athygli að í umsögn atvinnumálanefndar Ísafjarðarbæjar er engin afstaða tekin til þeirrar grundvallarspurningar að þeir sem fá einkaafnotarétt á mikilvægustu auðlind landsins, nytjastofnum á Íslandsmiðum, greiði fyrir það sanngjarnt afgjald. Þá er það staðreynd, þvert gegn fullyrðingu í umsögn atvinnumálanefndar, að frumvarp um nýja skipan í fiskveiðum byggir á niðurstöðum þeirrar samráðsnefndar, sem ríkisstjórnin skipaði þegar árið 2009, með því að allur kvóti er innkallaður og veiðiheimildum úthlutað með nýtingarsamningum til lengri tíma á grundvelli hlutdeildar í einstökum veiðistofnum. Jafnframt er tiltekinn hluti veiðiheimilda tekinn til annarskonar úthlutunar, svo sem gert er nú, gegnum byggðapott, línuívilnun og strandveiðar.

Helsta nýjung frumvarps ríkisstjórnarinnar er sú að settur er á fót leigupottur, sem opnar leið fyrir nýliðun í greininni, án þess að þeir sem fyrir eru geti fénýtt sér einkarétt sinn að auðlindinni. Þetta er mikilvægt atriði til að auka réttlæti í aðgengi að auðlindinni og til að koma til móts við mannréttindaákvæði sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Þennan þátt mætti styrkja enn frekar.

Upphrópanir hagsmunaaðila um gjaldþrot fyrirtækja, tekjutap sveitarfélaga og einstaklinga og atvinnubrest, ber að taka með miklum fyrirvara. Hér með er auglýst eftir sanngjarnri og yfirvegaðri umræðu í stað hræðsluáróðurs.

Allar aðgerðir í sjávarútvegsmálum sem auka heilbrigða samkeppni og sanngjarnar leikreglur munu verða Vestfirðingum til góðs. Þá munu Vestfirðir aftur njóta nálægðar við auðug fiskimið og fá tækifæri til að nýta sér þau með þeim mannauði, verkþekkingu og reynslu lagt hefur grundvöll að byggð á Vestfjörðum. Það er löngu tímabært að snúa frá þeirri leið sem mörkuð var þegar kvótakerfið var sett á fyrir hartnær 30 árum og því ber að taka undir meginsjónarmið nýs frumvarps um stjórn fiskveiða.

Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi.

 

            Íþrótta- og tómstundanefnd 11/4.  132. fundur.

            Fundargerðin er í fimm liðum.

            Fundargerðin lögð fram til kynningar.

 

2.         Minnisblað bæjarritara. - Samstarfssamningar við Héraðssamband Vestfirðinga.  2012-03-0068.

Lagt fram minnisblað bæjarritara dagsett 13. apríl sl., ásamt drögum að samstarfssamningum  Héraðssambands Vestfirðinga og Ísafjarðarbæjar. Samningarnir hafa verið í vinnslu íþrótta- og tómstundanefndar og einnig komið áður fyrir bæjarráð í vinnsluferlinu.

Bæjarráð samþykkir að taka drög að samningum við Héraðssamband Vestfirðing  aftur fyrir á næsta fundi bæjarráðs.  

 

3.         Bréf Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. - Sala á Eyrarvegi 8, Flateyri. 2012-04-0013.           

Lagt fram bréf Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða dagsett 3. apríl sl., er fjallar um væntanlega sölu á húseigninni Eyrarvegi 8, Flateyri, en Ísafjarðarbær er eigandi að 15%  eignarhluta.  Stofnunin óskar eftir að Ísafjarðarbær samþykki ofangreinda sölu og leitar jafnframt eftir viðræðum við Ísafjarðarbæ um leiguhúsnæði fyrir heilsugæslustöð á Flateyri.

Bæjarráð lýsir vilja sínum til að eiga viðræður við Heilbrigðisstofnunina um hugsanlegt húsnæði fyrir heilsugæslustöð.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að heimiluð verði sala á húseigninni Eyrarvegi 8, Flateyri.

 

4.         Bréf Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. - Lokun heilsugæslustöðvar á Suðureyri.  2012-04-0019.

Lagt fram bréf Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða dagsett 2. apríl sl., er greinir frá lokun heilsugæslustöðvar á Suðureyri.  Lokun heilsugæslustöðvarinnar er m.a. vegna skerðinga á fjárheimildum, sem og fækkun komu íbúa Suðureyrar á stöðina.

Bæjarráð harmar afstöðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, um lokun heilsugæslu- stöðvarinnar á Suðureyri og óskar eftir að sú ákvörðun stofnunarinnar verði tekin til endurskoðunar.

 

5.         Bréf Dýrfisks ehf., Flateyri. - Lóðaumsókn í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. 2012-04-0027.

Lagt fram bréf frá Dýrfiski ehf., Flateyri, dagsett 11. apríl sl., þar sem félagið sækir um atvinnulóð á landi Ísafjarðarbæjar í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.  Fram kemur í bréfinu að félagið hefur verið að skoða þann möguleika að vera með landeldi á silungi.

Bæjarráð vísar erindinu til umhverfisnefndar til frekari skoðunar.

 

6.         Bréf Arctic Odda ehf., Flateyri. - Úthlutun byggðakvóta í Ísafjarðarbæ. 2011-10-0008.

Lagt fram bréf frá Arctic Odda ehf., Flateyri, dagsett 11. apríl sl., er fjallar um byggðakvóta úthlutuðum til Flateyrar og þann drátt er orðið hefur á úthlutun byggðakvóta til þeirra er koma til með að veiða og eða vinna þann kvóta.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ítreka við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að hraðað verði úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2011/2012.

Jafnframt er bæjarstjóra falið að svara erindi Arctic Odda ehf.

 

7.         Bréf foreldrafélaga og foreldraráða leikskólanna Eyrarskjóls og Sólborgar á Ísafirði. - Sumarlokanir.  2012-03-0054.

Lagt fram bréf frá foreldrafélögum og foreldraráðum leikskólanna Eyrarskjóls og Sólborgar á Ísafirði dagsett í mars 2012.  Í bréfinu er fjallað um fyrirhugaðar lokanir leikskóla Ísafjarðarbæjar vegna sumarleyfa starfsfólks.

Bæjarráð vísar erindinu til fræðslunefndar til frekari skoðunar og óskar eftir tillögum frá nefndinni til úrbóta.           

 

8.         Bréf Linköping kommun. - Boð til Linköping 31. maí til 2. júní 2012. 2012-04-0016.

Lagt fram bréf frá Linköping kommun vinabæ Ísafjarðarbæjar í Svíþjóð dagsett 14. mars sl., þar sem fulltrúum vinabæja Linköping kommun er boðið til hátíðar dagana 31. maí til 2. júní 2012.  Svar við boðinu óskast fyrir 20. apríl n.k.

Bæjarráð vísar erindinu til bæjarstjóra til frekari skoðunar.

 

9.         Tölvubréf sýslumannsins á Ísafirði. - Beiðni um umsögn vegna umsóknar Pönnukökubarsins, Ísafirði, um lengingu á opnunartíma.  2011-03-0130.

Lagt fram tölvubréf frá sýslumanninum á Ísafirði, dagsett þann 10. apríl sl., þar sem óskað er umsagnar Ísafjarðarbæjar á umsókn Pönnukökubarsins, Ísafirði, á lengingu opnunartíma.  Tölvubréfinu fylgir afrit umsóknar.

Bæjarráð gerir ekki athugasemd við lengingu opnunartíma Pönnukökubarsins.

 

10.       Bréf Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. - Arðgreiðsla 2011.  2012-02-0099.

Lagt fram bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga ohf., dagsett 11. apríl sl., þar sem greint er frá arðgreiðslu sjóðsins til Ísafjarðarbæjar vegna ársins 2011.  Heildargreiðsla er        kr. 19.723.740.-, en að frádregnum fjármagnstekjuskatti kr. 15.778.992.-.

Lagt fram til kynningar.

 

11.       Bréf Þjóðskrár Íslands. - Kjörskrárstofn vegna forsetakosninga 30. júní 2012.  2012-04-0014.

Lagt fram bréf frá Þjóðskrá Íslands dagsett 3. apríl sl., þar sem fram kemur að kjör forseta Íslands skuli fara fram þann 30. júní n.k. og að kjörskrárstofn miðist við lögheimili manna þann 9. júní 2012.

Lagt fram til kynningar.

 

12.       Bréf Skipulagsstofnunar. - Ofanflóðavarnir neðan Gleiðarhjalla á Ísafirði. Álit Skipulagsstofnunar.  2011-05-0032.

Lagt fram bréf Skipulagsstofnunar dagsett 11. apríl sl., er varðar ofanflóðavarnir neðan Gleiðarhjalla á Ísafirði, Ísafjarðarbæ og álit Skipulagsstofnunar.

Bæjarráð vísar bréfinu til umhverfisnefndar.

           

Fleira ekki gert, fundarbókun upp lesin og samþykkt.  Fundi slitið kl. 9:00.  

 

Þorleifur Pálsson, ritari.

Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs.

Albertína F. Elíasdóttir,                                                       

Sigurður Pétursson.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?