Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
1011. fundur 26. mars 2018 kl. 08:05 - 09:05 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Arna Lára Jónsdóttir formaður
  • Kristján Andri Guðjónsson aðalmaður
  • Jónas Þór Birgisson varamaður
  • Marzellíus Sveinbjörnsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri
  • Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari
Dagskrá

1.Ísland ljóstengt 2018 - 2017100045

Fyrir hönd Ísafjarðarbæjar sendi byggingafulltrúi erindi á bæði Snerpu og Mílu, þ.e. bréf dags. 28. feb. sl. þar sem óskað var eftir tillögum frá viðkomandi fjarskiptafélögum út frá því fjármagni sem var í boði vegna styrkveitingar Fjarskiptasjóðs og framlagi Ísafjarðarbæjar í verkefnið. Svar barst frá Mílu í tölvupósti dags. 19. mars 2018 þar sem þeir telja áhættu á aukakostnaði óásættanlega m.v. mögulegar tekjur og sér sér ekki fært að taka þátt í þessu verkefni.
Snerpa sendi inn grófhönnun og endurskoðaða kostnaðaráætlun. Snerpa gerir ráð fyrir samlegð með framkvæmdum OV sunnan Dýrafjarðar árið 2019 en leggur til að öllum framkvæmdum norðan Dýrafjarðar verði lokið í ár. Miðað við upphaflegar forsendur bætist í þann hluta verkefnisins plæging og sæstrengur. Snerpa er tilbúin að taka þann umframkostnað sem gæti orðið að verkefninu.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við Snerpu.

2.Skrúður, afsal lands til Ísafjarðarbæjar - 2018030020

Ríkissjóður lagði fram boð til Ísafjarðarbæjar í tölvupósti dags. 9. febrúar 2018 um yfirtöku á landi umhverfis Skrúð. Þ.e. land sem ríkissjóður eignaðist með makaskiptasamningi við landeigendur jarðarinnar Núps í Dýrafirði (landn. 140975), dags. 12. janúar 2006, sbr. og makaskiptasamningur dags. 20. ágúst 2010.
Lagt er fram afsal fyrir umræddu landi þar sem ofangreindu landi er afsalað til Ísafjarðarbæjar.
Önnur fylgigögn eru makaskiptasamningur dags. 20. ágúst 2010 og makaskiptasamningur dags. 12. janúar 2006.
Bæjarráð samþykkir afsalið.

3.Sorphirða hjá bændum - 2018020081

Lagt fram bréf Árna Brynjólfssonar f.h. stjórnar búnaðarfélagsins Bjarma, dagsett 17. mars sl., með ályktun aðalfundar búnaðarfélagsins vegna sorphirðu í dreifbýli.
Einnig lagt fram minnisblað Ralf Trylla, umhverfisfulltrúa, dagsett 21. mars sl., með upplýsingum um kostnað við sorphirðu.
Bæjarráð tekur heilshugar undir ályktun búnaðarfélagsins Bjarma og að unnið sé að lausn í málinu.

4.Vetrarþjónusta á Ingjaldssandi - 2017120067

Lagt fram bréf Sigurbergs Björnssonar og Írisar Huldar Christersdóttur f.h. samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, dagsett 14. mars sl., með svari ráðuneytisins við kröfu Ísafjarðarbæjar frá 9. janúar sl., um að ráðuneytið tryggi lágmarkssamgöngur við lögbýlin á Ingjaldssandi.
Ráðuneytið leitaði umsagnar Vegagerðarinnar, sem fylgir með erindinu. Vegagerðin álítur að G-snjómokstursregla eigi ekki við í þessu sambandi og tekur ráðuneytið undir sjónarmið Vegagerðarinnar.
Bæjarráð telur það óforsvaranlegt að ráðuneytið hafi ekki fjármuni til að þjónusta íbúa á lögbýlum með þá grunnþjónustu sem snjómokstur er og óskar svara frá ráðuneytinu um hvernig þetta mál verður leyst í framtíðinni.

5.Lýðháskólinn Flateyri - 2018020059

Kynnt drög að samningi milli Ísafjarðarbæjar og Lýðháskólans á Flateyri.

Einnig er kynnt minnisblað bæjarritara, dagsett 23. mars sl., með útskýringum um áætlað heildarverðmæti styrkveitingar Ísafjarðarbæjar til Lýðháskólans.
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að samningurinn verði samþykktur.

6.Tillaga að ályktun - starfsstöð Hafrannsóknarstofnunar á Ísafirði - 2014100026

Marzellíus Sveinbjörnsson, áheyrnarfulltrúi framsóknarflokks, leggur fram eftirfarandi tillögu að ályktun:

„Í ljósi nýlegra ummæla forstjóra Hafrannsóknarstofnunar um að sviðsstjórastarf á sviði fiskeldis flytjist ekki til starfsstöðvar Hafrannsóknarstofnunar á Ísafirði, þvert á fyrri ákvarðanir fyrri ráðherra og ríkisstjórnar vill bæjarráð Ísafjarðarbæjar spyrja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson út í hans aðkomu að málinu.
Forsaga málsins er sú að í september 2016 hafði verið lögð fyrir ríkisstjórn skýrsla Vestfjarðarnefndar um aðgerðaráætlun fyrir Vestfirði. Í þeirri skýrslu var tillaga um að miðstöð rannsókna á fiskeldi yrði á Ísafirði og útibúið þar yrði eflt. Það væri í takt við uppbyggingu fiskeldis á svæðinu og mikilvægi þess að rannsóknir yrðu nálægt atvinnugreininni.
Þann 6. október kom tilkynning á heimasíðu atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins þar sem tilkynnt var minnisblað frá þáverandi ráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni sem lýsti ákvörðunum um að aukið yrði eftirlit MAST með greininni bæði á Vestfjörðum og Austfjörðum og auk þess heldur yrði miðstöð fiskeldisrannsókna á Vestfjörðum með ráðningu tveggja sérfræðinga á starfsstöð Hafró á Ísafirði og að sviðsstjóri fiskeldis (sem var ný staða og í auglýsingu á þessum tíma) flytjist vestur 2018.
Á heimasíðu forsætisráðuneytisins má svo sjá að minnisblað ráðherra var lagt fyrir ríkisstjórn þann 07.10.2016 og samþykkt.
Eftirfarandi spurningar eru því lagðar fyrir sjávarútvegsráðherra:
1. Hefur ráðherra breytt ákvörðun fyrri ráðherra og ríkisstjórnar um að sviðsstjóri fiskeldis Hafrannsóknarstofnunar verði á Ísafirði?
2. Ef svo er ekki, finnst ráðherra eðlilegt að forstjórar undirstofnana geti valið hvaða ákvörðunum framkvæmdavaldsins þeir fylgi?
3. Hvernig hyggst ráðherrann beita sér fyrir því að starfið flytjist vestur líkt og ákveðið hefur verið.“
Bæjarráð samþykkir tillögu Marzellíusar Sveinbjörnssonar að ályktun um starfsstöð Hafrannsóknarstofnunar á Ísafirði og kallar eftir svörum við þeim spurningum sem koma fram í ályktuninni.

7.Íbúakönnun vegna Sundhallar Ísafjarðar. - 2016030006

Lagður fram tölvupóstur Helga Guðmundssonar f.h. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, dagsettur 23. mars sl., þar sem upplýst er að könnun um Sundhöll Ísafjarðar sé tilbúin.
Bæjarráð samþykkir framlagðan spurningalista og að könnunin verði framkvæmd í apríl.

Jónas Þór Birgisson, bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins, leggur fram eftirfarandi bókun:
„Undirritaður telur einsýnt að ekkert verði af hugmyndunum um stórfelldar breytingar á Sundhöll Ísafjarðar. Þar með væri markvissari og betri ráðstöfun á fjármunum íbúa að gera framtíðarhugmyndir bæjarbúa varðandi uppbyggingu íþróttamannvirkja á Torfnessvæðinu að hluta af þessari könnun fyrst halda á því til streitu að framkvæma hana."

Bæjarfulltrúar Í-listans og bæjarstjóri leggja fram eftirfarandi bókun:
„Bent skal á að með könnuninni er verið að framfylgja ákvörðun bæjarstjórnar sem samþykkt var í júní á síðasta ári þar sem óskað var eftir að gerð yrði könnun á hug íbúa um framtíð Sundhallarinnar. Niðurstöður könnunar munu nýtast vel sama hvaða leið verður fyrir valinu og eru nauðsynlegt framhald af þeirri vinnu sem fram hefur farið. Framkvæmd könnunarinnar er auk þess í anda þess íbúalýðræðis sem Í-listinn vill stuðla að í sveitarfélaginu."

8.Stúdíó Dan ehf. - kaup og rekstur - 2017050073

Lögð fram svohljóðandi tillaga Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra, dagsett 23. mars sl:

„Lagt er til að bæjarstjóri fari með atkvæði Ísafjarðarbæjar á hluthafafundum Stúdíó Dan ehf. og taki einnig ákvarðanir fyrir hönd félagsins sem framkvæmdastjóri þess.“
Bæjarráð samþykkir framlagða tillögu Gísla Halldórs Halldórssonar.

9.Lánsumsókn til Ofanflóðasjóðs 2018 v. 2016-2017 - 2017010035

Lagt fram bréf Sigríðar Auðar Arnardóttur og Hafsteins Pálssonar f.h. Ofanflóðanefndar, dagsett 13. mars sl., þar sem upplýst er að ósk Ísafjarðarbæjar um lán úr Ofanflóðasjóði vegna framkvæmda við ofanflóðavarnir í Ísafjarðarbæ hafi verið samþykkt.
Lagt fram til kynningar.

10.Móttaka kvótaflóttamanna á árinu 2018. - 2017120027

Lagður fram til kynningar samningur velferðarráðuneytis og Ísafjarðarbæjar um móttöku, aðstoð og stuðning við hóp flóttafólks 2018-2020.
Lagt fram til kynningar.

11.Rekstur félagslegra leiguíbúða sveitarfélaga - skuldastaða - 2017080003

Lagt fram bréf Guðna Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Varasjóðs húsnæðismála, dagsett 21. mars sl., ásamt skýrslum með niðurstöðum úr greiningu sjóðsins á stöðu fasteigna hjá sveitarfélögum. Óskað er eftir samþykki sveitarfélagsins fyrir birtingu niðurstaðna úr könnuninni.
Bæjarráð óskar eftir því að umhverfis- og eignasvið fari yfir niðurstöður greiningar á fasteignum Ísafjarðarbæjar.

12.Ný persónuverndarlöggjöf 2018 - 2017050126

Lagður fram tölvupóstur Telmu Halldórsdóttur f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsettur 19. mars sl., þar sem kynnt er umsögn sambandsins um drög að frumvarpi til laga um persónuvernd.
Bæjarráð tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um drög að frumvarpi til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og skorar sérstaklega á ríkið að afnema sektarákvæði á opinbera aðila.

13.Verðlaunahátíð barnanna - styrkbeiðni - 2018030087

Lagður fram tölvupóstur Margrétar Tryggvadóttur f.h. Sagna - samtaka um barnamenningu, dagsettur 19. mars sl., þar sem óskað er eftir styrk vegna Verðlaunahátíðar barnanna. Hátíðin er hápunktur lestrarhvetjandi verkefnis á landsvísu, sem verið hefur í gangi í vetur.
Með því að styrkja hátíðina um kr. 100.000,- geta sveitarfélög orðið samstarfsaðilar og þátttakendur í verðlaunahátíðinni, en með því að styrkja hana um kr. 300.000,- fá sveitarfélög ákveðinn kynningarpakka, sem kynntur er í meðfylgjandi fylgiskjali.
Bæjarráð sér sér ekki fært að verða við beiðninni um styrk.

14.Frumvörp og þingsályktunartillögur til umsagnar 2018 - 2018020003

Lagður fram tölvupóstur Sigrúnar Helgu Sigurjónsdóttur f.h. nefndasviðs Alþingis, dagsettur 22. mars sl., þar sem Ísafjarðarbæ er sent til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála, 389. mál. Umsagnarfrestur er til 5. apríl nk.
Lagt fram til kynningar.

15.Tillaga um að rýna stöðu jafnréttismála hjá Ísafjarðarbæ - 2018030091

Lögð er fram tillaga Daníels Jakobssonar, bæjarfulltrúa, um að rýna stöðu jafnréttismála hjá Ísafjarðarbæ.
Bæjarráð vísar tillögunni til umræðu í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

16.Skipulags- og mannvirkjanefnd - 495 - 1803013F

Fundargerð 495. fundar skipulags- og mannvirkjanefndar sem haldinn var 21. mars sl. Fundargerðin er í 6 liðum.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 495 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila að deiliskipulagstillaga og greinargerð dags. 24.05.2016 verði auglýst óbreytt skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd - 495 Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila að tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar dags. mars. 2018 verði auglýst skv. 1 mgr. 31 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og deiliskipulagstillaga og greinargerð dags. mars 2018 auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010

17.Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 63 - 1803016F

Fundargerð 63. fundar umhverfis- og framkvæmdanefndar sem haldinn var 20. mars sl. Fundargerðin er í 1 lið.
Fundargerðin lögð fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 09:05.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?