Bæjarráð

Fundargerðir hverfisráða Ísafjarðarbæjar, auk fundargerða fastanefnda, starfshópa og annarra nefnda sveitarfélagsins af fundum sem haldnir voru til og með ársins 2017 má finna undir aðrar fundargerðir
999. fundur 18. desember 2017 kl. 08:05 - 08:40 í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði
Nefndarmenn
  • Arna Lára Jónsdóttir formaður
  • Kristján Andri Guðjónsson aðalmaður
  • Daníel Jakobsson aðalmaður
  • Marzellíus Sveinbjörnsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri
  • Hjördís Þráinsdóttir skjalastjóri
Fundargerð ritaði: Hjördís Þráinsdóttir skjalastjóri
Dagskrá

1.Drög að frumvarpi um breytingar á lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum - 2017120038

Lagt fram bréf Ingu Þorvaldsdóttur, f.h. Seyðisfjarðarkaupstaðar, dagsett 11. desember sl. sem barst með tölvupósti, vegna umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um drög að frumvarpi um breytingu á lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum.
Einnig lögð fram frumvarpsdrögin og umsögn Sambandsins frá 854. fundi stjórnar, sem haldinn var 24. nóvember sl.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir álit Sambands íslenskra sveitarfélaga á breytingum á lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum sem kynntar hafa verið. Mikið verk er enn óunnið í snjóflóðavörnum og má þar meðal annars nefna snjóflóðavarnir í Hnífsdal. Bæjarráð hvetur stjórnvöld til að tryggja að nægjanlegt fjármagn verði ætlað til að halda áfram uppbyggingu ofanflóðavarna á Íslandi og viðhaldi þeirra með viðunandi hætti.

2.Framtíð Náttúrustofu Vestfjarða - 2017100066

Lagður fram tölvupóstur frá Nancy Bechtloff, f.h. Náttúrustofu Vestfjarða, dagsettur 15. desember sl, ásamt bréfi Samtaka náttúrustofa, um stöðu náttúrustofa, til fjárlaganefndar í ljósi nýs fjárlagfrumvarps 2018.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hvetur stjórnvöld til að efla starfsemi Náttúrustofu Vestfjarða með auknum fjárveitingum og slást með þeim hætti í lið með Vestfirðingum sem telja gífurlega mikilvægt að mikill kraftur verði settur í rannsóknir á strandsvæðum Íslands. Bæjarráð óskar jafnframt eftir því að sveitarfélög á Íslandi fái þann lýðræðislega rétt að taka að sér skipulag á strandsvæðum, líkt og tíðkast hjá flestum þeim þjóðum sem við berum okkur saman við.

Hafrannsóknir á mikilvægum fiskistofnum við Ísland hafa leitt til sívaxandi þekkingar á þessum mikilvægu auðlindum, þó vissulega þurfi einnig að efla þær rannsóknir enda er fjölmargt sem rannsaka þarf betur. Rannsóknir á strandsvæðum Íslands, þar sem m.a. er að finna uppvaxtarsvæði mikilvægra fiskistofna og mikil tækifæri til uppbyggingar í fiskeldi og annarri matvæla- og líftækniframleiðslu, eru þó varla fugl né fiskur. Í ljósi mikilvægis strandsvæða fyrir okkur Íslendinga er kominn tími til að þjóðin hætti að vera eftirbátur annarra þjóða í rannsóknum og skipulagi strandsvæða.
Strandsvæðin eru Vestfirðingum einkar mikilvæg, enda þriðjungur strandlengju Íslands á Vestfjörðum.

3.Tillögur Velferðarvaktarinnar gegn brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum - 2017120039

Lagður fram tölvupóstur Sivjar Friðleifsdóttur, f.h. Velferðarvaktarinnar, dagsettur 11. desember sl., með tillögum Velferðarvaktarinnar gegn brotthvarfi nemenda úr framhaldsskólum.
Lagt fram til kynningar og vísað til fræðslunefndar.

4.Útvarp í veggöngum - 2016090038

Lagður fram tölvupóstur Jónasar Guðmundssonar, formanns Samgöngufélagsins, dagsettur 15. desember sl., ásamt bréfi félagsins þar sem hvatt er til þess að sem fyrst verði hugað að uppsetningu búnaðar fyrir útvarpsútsendingar í veggöngum hérlendis, jafnframt sem vakin er athygli á að slíkur búnaður hefur fyrir tilstilli Samgöngufélagsins (Leiðar ehf.) verið settur upp í Bolungarvíkurgöngum (Óshlíðargöngum).
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar frumkvæði Jónasar Guðmundssonar og Samgöngufélagsins, fyrir að stuðla að útvarpsvæðingu Bolungarvíkurganga.

5.Þjónustukjarni á Þingeyri - Blábanki - 2015100017

Lagt fram fréttabréf Blábankans, samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri, um fyrstu 3 mánuðina í starfsemi Blábankans.
Lagt fram til kynningar.

6.Brothættar byggðir - 2014090062

Lagt er fram minnisblað Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur, bæjarritara, dags. 15. desember sl., þar sem sagt er frá áætluðum fyrsta fundi verkefnisstjórnar.
Lagt fram til kynningar.

7.Viltu hafa áhrif? - námskeið um hvað felst í þátttöku í sveitarstjórn - 2017120041

Lagður er fram tölvupóstur Eyrúnar Ingibjargar Sigþórsdóttur, f.h. Ráðrík, frá 15. nóvember sl., varðandi námskeið um hvað felist í þátttöku í sveitarstjórn.
Lagt fram til kynningar.

8.Hverfisráðið í Önundarfirði - nýting framkvæmdafjár, málefni hverfisráða 2017 - 2017010043

Lagt er fram minnisblað Þórdísar Sifjar Siguðardóttur, bæjarritara, dags. 15. desember sl., varðandi nýtingu framkvæmdafjár Hverfisráðsins í Önundarfirði.
Bæjarráð samþykkir erindið en óskar eftir að upplýsingar um nýtingu og vörslu hljóðkerfisins verði lagðar fyrir bæjarráð áður en af kaupum verður.

9.Hádegissteinn í Bakkahyrnu ofan Hnífsdals - 2017080037

Lagður fram tölvupóstur, dagsettur 8. nóvember 2017, frá Hafsteini Steinarssyni, fulltrúa Framkvæmdasýslu ríkisins og minnisblað sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dagsett 12. desember 2017, varðandi Hádegisstein í Hnífsdal. Í tölvupóstinum eru færð rök fyrir því að sprengja steininn frekar en festa hann niður.
Bæjarráð samþykkir að Hádegissteinn verði fjarlægður og að FSR verði falið að ná samningum við lægstbjóðanda.

10.Hverfisráðið Dýrafirði - nýting framkvæmdafjár, málefni hverfisráða 2017 - 2017010043

Lagt er fram minnisblað Fannars Þórs Þorfinnssonar, starfsmanns tæknideildar, dags. 17. desember 2017, vegna nýtingu framkvæmdafjár Hverfisráðsins í Dýrafirði.
Bæjarráð samþykkir beiðnina.

11.Móttaka kvótaflóttamanna á árinu 2018. - 2017120027

Tillaga bæjarstjóra vegna móttöku kvótaflóttamanna frá Sýrlandi á árinu 2018.
Bæjarstjóri leggur til að bæjarráð Ísafjarðarbæjar, á grunni ályktunar bæjarstjórnar frá 2015, samþykki að Ísafjarðarbær bjóðist til að taka við kvótaflóttamönnum frá Sýrlandi í á árinu 2018. Fjöldi kvótaflóttamanna verði eins og Velferðarsvið Ísafjarðarbæjar og Velferðarráðuneytið telur heppilegt, en alls er von á um 50 kvótaflóttamönnum frá Sýrlandi til Íslands. Móttaka flóttafólksins verði unnin í samstarfi sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum eins og kostur er.
Velferðarsvið Ísafjarðarbæjar hefur nú fengið það staðfest frá fulltrúa Velferðarráðuneytis að Ísafjarðarbæ bjóðist að taka við 23 og jafnvel 30 flóttamönnum frá Sýrlandi og væru þeir skilgreindir sem kvótaflóttamenn. Koma flóttafólksins gæti orðið í lok janúar eða í febrúar 2018, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu. Velferðarsvið hefur gert ráðuneytinu ljóst að Ísafjarðarbær ráði vel við þetta verkefni, enda liggur fyrir að hægt verður að finna húsnæði. Sveitarstjóri Súðavíkurhrepps hefur lýst yfir vilja til samstarfs sveitarfélaganna um þetta verkefni og hefur unnið með Velferðarsviði Ísafjarðarbæjar að undirbúningi. Bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar hefur tekið þátt í fundum um móttöku flóttafólksins og er sveitarfélagið með til skoðunar aðkomu sína að samstarfi.

Bæjarráð samþykkir tillögu bæjarstjóra.

12.Byggðasafn Vestfjarða 2017 - 2017010072

Lögð fram fundargerð 61. fundar stjórnar Byggðasafns Vestfjarða, sem haldinn var 23. nóvember sl.
Einnig lögð fram fundargerð ársfundar Byggðasafnsins sem haldinn var 7. desember sl.
Lagt fram til kynningar.

13.Fundargerð hverfisráðsins Málefni hverfisráða 2017 - 2017010043

Lögð er fram fundargerð hverfisráðs Önundarfjarðar frá 20. september 2017.
Lagt fram til kynningar.

14.Fundargerð hverfisráðs hverfa í Skutulsfjarðarbotni - Málefni hverfisráða 2017 - 2017010043

Lagðar eru fram fundargerðir hverfisráðs hverfa í Skutulsfjarðarbotni sem haldinn var 17. janúar 2017 og 23. nóvember 2017.
Lagt fram til kynningar. Bæjarráð kemur ábendingum varðandi snjómokstur til tæknideildar.

15.Barnaverndarnefnd á norðanverðum Vestfjörðum - 155 - 1712009F

Lögð er fram fundargerð 155. fundar barnaverndarnefndar á norðanverðum Vestfjörðum sem haldinn var 13. desember sl. Fundargerðin er í 7 liðum.
Lagt fram til kynningar.

16.Félagsmálanefnd - 423 - 1712008F

Lögð er fram fundargerð 423. fundar félagsmálanefndar frá 12. desember sl. Fundargerðin er í 7 liðum.
Lagt fram til kynningar.

17.Starfshópur um framtíðarskipan komu skemmtiferðaskipa - 3 - 1712007F

Lögð er fram fundargerð 3. fundar starfshóps um framtíðarskipan komu skemmtiferðarskipa frá 14. desember sl. Fundargerðin er í 2 liðum.
Lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 08:40.

Er hægt að bæta efnið á síðunni?