Tilkynning til notenda neysluvatns á Þingeyri

Við könnun Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða á neysluvatni á Þingeyri sem framkvæmd var þann 28. nóvember fundust saurgerlar (E.coli) í vatninu. Sem varúðarráðstöfun er fólki ráðlagt að sjóða drykkjarvatnið. Nánari leiðbeiningar um suðu neysluvatns má finna hér að neðan.

SMS hefur verið sent til íbúa á Þingeyri í gegnum kerfi 1819.is. Skilaboðin sendast eingöngu til þeirra sem eru með skráð símanúmer og heimilisfang hjá 1819 og því þurfa þau sem óska eftir að fá send upplýsingaskeyti að sjá til þess að skráning sé til staðar.

Sýnataka var endurtekin þann 30. nóvember og var niðurstaðan sú að vatnið stenst ekki kröfur skv. neysluvatnsreglugerð nr 536/2001. Þegar heilbrigðiseftirlitið tekur sýni af neysluvatni er það skoðað með tilliti til svonefndra vísibaktería. Þannig er leitað að saurbakteríum, kólígerlum og saurkólígerlum en þetta eru allt bakteríur sem hafa uppruna sinn í þörmum dýra með heitt blóð. Tilvist þeirra segir því til um ferska eða nýlega saurmengun.

Ef örverur greinast í neysluvatni, umfram viðmið reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn, skulu viðbrögð taka mið af 14. gr. reglugerðarinnar. Grípa skal til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta til að endurheimta vatnsgæði (ábyrgð vatnsveitna ef örsök örverumengunar er í dreifikerfi eða vatnsbóli en húseigenda ef örsökin er í lögnum húss). Virkja skal viðbragðsáætlun um auknar sýnatökur og fjölgun sýnatökustaða, á vatnstökustað og í dreifikerfinu, í þeim tilgangi að greina orsök mengunar og síðar í þeim tilgangi að staðfesta að dreifikerfið sé orðið hreint.
Ef grunur er um sjúkdóm vegna neyslu á örverumenguðu neysluvatni skal fylgja verklagi Landlæknis um matarbornar sýkingar og matareitranir.


Þegar sjóða þarf neysluvatn

Þegar neysluvatnið er mengað af sjúkdómsvaldandi gerlum, veirum eða sníkjudýrum er nauðsynlegt að hreinsa allt vatn sem á að drekka eða nota við matargerð. Algengast er að sjóða neysluvatnið og gera þannig óvirka þá meinvalda, sem er að finna í vatninu. Ábending um að sjóða neysluvatn kemur oftast frá heilbrigðiseftirliti vegna gruns um eða að fenginni staðfestingu á að vatnið sé mengað.
Þegar gefin er út viðvörun og notendum bent á að sjóða neysluvatn er rétt að hafa eftirfarandi í huga.

Að sjóða neysluvatn

Vatnið þarf að bullsjóða. Hraðsuðuketill bullsýður vanalega vatnið þegar hann slekkur á sér og það er nægilegt. Ef notaður er örbylgjuofn verður að ganga úr skugga um að vatnið bullsjóði.

Soðið vatn

Allt vatn sem drukkið er þarf að vera soðið. Einnig er nauðsynlegt að sjóða vatn sem nota á; 

 • við matargerð, s.s. til skolunar á matvælum, sem ekki á að hitameðhöndla þ.e. sjóða eða steikja
 • til íblöndunar safa, annarra drykkja eða matvæla, sem neytt er án eldunar
 • til kaffilögunar, ef kaffivélin sýður ekki vatnið við uppáhellinguna þarf að setja soðið vatn í hana
 • til ísmolagerðar
 • til tannburstunar
 • til böðunar ungbarna
 • til loftræstingar s.s. í rakatæki

Þessi listi er ekki tæmandi og verður hver og einn að meta það hvort hætta sé á ferðum sé vatnið notað ósoðið.

Ósoðið vatn

Nota má ósoðið vatn;

 • til matargerðar s.s. til skolunar á matvælum, sem munu síðar vera elduð
 • til uppþvotta í vél eða höndum og er þá leirtau þurrkað eða látið þorna fyrir notkun
 • til handþvotta
 • til baða, í baðkari eða sturtu en rétt að brýna fyrir börnum að drekka ekki vatnið
 • til tauþvotta
 • til þrifa