Jóna Lára Sveinbjörnsdóttir ráðin skólastjóri Grunnskóla Önundarfjarðar

Jóna Lára Sveinbjörnsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri við Grunnskóla Önundarfjarðar og tekur við starfinu við upphaf næsta skólaárs þann 1. ágúst næstkomandi.

Jóna lauk stúdentsprófi frá Framhaldsskóla Vestfjarða árið 1998. Tímabilið 1998 til 2002 stundaði hún nám við Söngskóla Íslands og frá 2002 til 2006 við Kennaraháskóla Íslands þar sem hún útskrifaðist með B.Ed. próf í grunnskólakennarafræðum.

Jóna er ekki alls ókunnug störfum við Grunnskóla Önundarfjarðar, þar sem hún hefur sinnt kennslu frá árinu 2018 sem umsjónarkennari á yngsta stigi og bekkjarkennari á mið- og unglingastigi. Þá hefur hún jafnframt sinnt hlutverki staðgengils skólastjóra við grunnskólann. Jóna hefur yfirgripsmikla kennslureynslu en tímabilið 2013-2018 starfaði hún einnig við kennslu m.a. hjá Ulkebøl Skola, Ahlmann-skolen og í Dybbøl-skole í Danmörku sem aðstoðar- og umsjónarkennari.

Við bjóðum Jónu Láru hjartanlega velkomna til áframhaldandi starfa í nýju hlutverki við Grunnskóla Önundarfjarðar.